28.02.1978
Sameinað þing: 49. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2652 í B-deild Alþingistíðinda. (1932)

Umræður utan dagskrár

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég held að ræður hv. stjórnarandstæðinga um sjónvarpsþáttinn í gærkvöld séu byggðar á nokkrum misskilningi. Umræðuefnið að þessu sinni var ekki fyrst og fremst efnahagslöggjöfin, sem nýlega hefur verið samþ. hér á Alþ., enda fóru fram sérstakar útvarpsumr. frá Nd. um hana. Umræðuefnið í gærkvöld var fyrst og fremst viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar við þessari löggjöf. Þess vegna eru það einkum þrír aðilar sem koma þar við sögu: það eru launþegasamtökin, það er ríkisstj., sem þessar aðgerðir beinast gegn, og svo að sjálfsögðu vinnuveitendur. Þátturinn var byggður upp á þeim grundvelli, að þessir þrír aðilar hefðu aðstöðu til að koma þar fram. Ég hef ekki litið svo á, og a. m. k. hefur það ekki komið fram opinberlega, að stjórnarandstöðuflokkarnir stæðu á bak við þær aðgerðir sem hafa verið boðaðar á morgun og næsta dag. Það er launþegahreyfingin sem stendur fyrst og fremst að þeim aðgerðum. Þess vegna var ekki eðlilegt að kalla á stjórnarandstöðuna í sambandi við þennan umræðuþátt, nema hún líti svo á að hún sé aðili að þeim átökum sem eru fram undan á vinnumarkaðinum, jafnvel kannske hún frekar en launþegasamtökin.

Þessi þáttur var byggður þannig upp, vegna þess að þarna var talið eðlilegt að þessir þrír aðilar leiddu saman hesta sína, að forsrh. hafði fyrst orðið og gerði grein fyrir afstöðu ríkisstj. Eftir að hann hafði flutt mál sitt tóku til máls þeir Guðmundur J. Guðmundsson, sem er tvímælalaust einhver snjallasti talsmaður sem verkalýðshreyfingin hefur á að skipa, og Davíð Scheving Thorsteinsson, sem mætti þarna fyrir hönd atvinnurekenda. Eitt hið fyrsta, sem stjórnandi þáttarins spurði Guðmund J. Guðmundsson um, var hvert væri álit hans á því sem forsrh. hefði sagt. Hann var síðar einnig spurður um álit hans á því, sem forsrh. hafði sagt um till. stjórnarandstöðunnar á þingi, sem líka var till. launþegasamtakanna, því að fulltrúar þeirra í verðbólgunefndinni skrifuðu undir sama álit og hv. 9. þm. Reykv. Ég dreg ekki neitt úr því, að hv. 9. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, er málsnjall maður. En ég vil hins vegar ekki halda því fram, að hann sé málsnjallari en Guðmundur J. Guðmundsson. Ég tel að hann hafi varið hlut launþegasamtakanna betur í gærkvöld en jafnvel Gylfi Þ. Gíslason hefði gert.

Eiginlega ástæðan til þess, að ég stóð hér upp, var sú, að ég vildi bera blak af Guðmundi J. Guðmundssyni vegna þess að mér fannst frammistaða hans í gærkvöld með miklum ágætum. Ég skil ekki af hverju stjórnarandstæðingar eru svona óánægðir. Ég get alls ekki skilið það.

Það var meira en að Guðmundur J. Guðmundsson fengi að koma fram fyrir hönd verkalýðshreyfingarinnar og tala miklu lengur en nokkur annar. Þarna kom fram hagfræðingur Alþýðusambandsins og flutti mjög langa ræðu og greinilega, að vísu að sumu leyti villandi, en var hins vegar vel flutt frá hans sjónarmiði.

Ég sé, samkv. því sem ég hef nú rakið, enga ástæðu til þess að stjórnarandstæðingar láti svona hér í d. eins og þeir gera í dag. Ég skil eiginlega ekki vegna hvers þeir eru svona óánægðir. Það getur ekki verið vegna Ásmundar Stefánssonar eða Guðmundar J. Guðmundssonar. Það er þá vegna þess að þeim finnst málstaður sinn ekki nógu góður, og get ég skilið þá afstöðu. En sem sagt, ég held að stjórnandi þáttarins hafi undir þessum kringumstæðum og miðað við það umræðuefni, sem var á dagskrá, gætt fyllstu hlutleysisskyldu sinnar. Hitt er svo annað mál, að vel getur komið til greina síðar meir að lofa fulltrúum stjórnarandstöðu og stjórnarflokka að eigast við um efnahagsmálin almennt. En eins og þessi umræðuþáttur var markaður í gær, þá voru það fyrst og fremst launþegasamtökin, ríkisstj. og atvinnurekendur sem voru umræðuaðilar. Það var reynt að gera öllum þessum aðilum jafnt undir höfði.