28.02.1978
Sameinað þing: 49. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2653 í B-deild Alþingistíðinda. (1933)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þórarni Þórarinssyni fyrir hina ágætu ræðu, sem hann flutti hér áðan, og sé, að hann er þess trausts verður að vera formaður útvarpsráðs.

Ég hef ósk að flytja til útvarpsráðs í tengslum við þessi mál. Það var talað um það áðan af formanni Alþfl., hv. þm. Benedikt Gröndal, að það ætti að gæta óhlutdrægni í sambandi við ríkisfjölmiðla. Það er rétt, þar ætti að gæta óhlutdrægni. En það er bara ekki gert. Ég vil vekja athygli á því, að sjónarmið þeirra manna, t. d. innan verkalýðshreyfingarinnar, sem eru ekki í samræmi við sjónarmið formanns Bandalags starfsmanna ríkis og bæja eða forustumanna Alþýðusambandsins í því máli sem mest er til umr. þessa dagana, hafa ekki getað komist að í ríkisfjölmiðlunum án þess að þeir hinir sömu menn, sem ekki eru sammála þessum topp-forustumönnum, óski sérstaklega eftir því að þau komi fram í ríkisfjölmiðlunum. Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. að standa hér upp og tala um óhlutdrægni, ef hann lítur ekki einnig til þess, hvað ríkisfjölmiðlarnir hafa verið hlutdrægir í sambandi við þau deilumál sem nú eru efst á baugi. Ég vil vekja athygli á því, að formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hefur komið hvað eftir annað fram í Ríkisútvarpinu og sjónvarpinu einu. Hann hefur fengið að túlka sín sjónarmið að geðþótta, og ég hef aldrei heyrt hann flytja eða skýra frá sjónarmiðum minnihlutaaðila eða sjónarmiðum sem eru andstæð hans sjónarmiðum innan BSRB, svo að ekki sé talað um önnur samtök.

Hv. þm. Lúðvík Jósepsson sagði hér áðan, þegar ég greip fram í fyrir honum, að ég gæti beðið um að fá að koma mínum sjónarmiðum fram í Ríkisútvarpinu, hljóðvarpi og sjónvarpi. Þetta voru orð að sönnu í munni hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar og sögðu meira en menn átta sig á í fljótu bragði. Í þeim fólst þetta: Þið hinir, sem kynnuð að hafa önnur sjónarmið en við, skuluð biðja um að fá að koma fram í ríkisfjölmiðlunum. En við og okkar menn þurfa ekki að biðja um það, þeir eru beðnir um það. Ég get trútt um talað. Ég hef verið í 20 ár formaður í stærsta stéttarfélagi landsins. Ég hef aldrei verið beðinn um að koma fram í þessum fjölmiðlum sem slíkur. Sem betur fer hafa aðrir verkalýðsforingjar ekki fengið þessa meðferð. Hér í þessum sal er t. d. einn ágætur maður og mikilsvirtur innan verkalýðshreyfingarinnar sem kemur mjög oft fram í sjónvarpinu. Ég segi: sem betur fer, því að hans sjónarmið og þau sjónarmið, sem hann þarf að koma á framfæri, eru auðvitað yfirleitt þess eðlis að það er æskilegt.

Ég vil óska eftir því við útvarpsráð, þegar það tekur þessi mál til meðferðar sem hv. þm. Benedikt Gröndal beindi til útvarpsráðs vegna þess sem hann taldi hlutleysisbrot eða hlutdrægni í þættinum í gærkvöldi, að þá verði þar einnig tekið til meðferðar, hvernig sjónarmið annarra en bara toppforustumanna, t. d. verkalýðshreyfingarinnar eða samtaka vinnuveitenda, geta komið fram í þáttum í hljóðvarpi og sjónvarpi, þannig að önnur sjónarmið, ég tala nú ekki um ef það kynnu að vera minnihlutasjónarmið, fái þar jafnan aðgang að.