28.02.1978
Sameinað þing: 49. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2654 í B-deild Alþingistíðinda. (1934)

338. mál, símamál

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalda) :

Herra forseti. Á þskj. 122 hef ég leyft mér að bera fram svofelldar fsp. til samgrh. um símamál:

„1) Má ekki vænta þess, að símstöðvar á Siglufirði, Sauðárkróki og annars staðar, þar sem myndast hafa langir biðlistar eftir síma, verði stækkaðar án frekari tafar?

2) Hvaða áform eru um lagningu sjálfvirks síma um sveitir Skagafjarðar- og Húnavatnssýslna?

3) Hvenær er þess að vænta, að sjálfvirki síminn milli höfuðborgarsvæðisins og Vestfjarða, Norður- og Austurlands komist í það horf, að notendur þurfi ekki að eyða löngum tíma í það eitt að bíða eftir sambandi?

4) Er ekki stefnt að því að endurskoða gjaldskrá Landssímans með það fyrir augum að hún verði sanngjarnari gagnvart fólkinu í dreifbýlinu, t. d. með því að ákveða að samtöl milli notenda, sem hafa sama svæðisnúmer, teljist aðeins eitt skref hvert, eins og er á höfuðborgarsvæðinu?“

Ég held að ekki þurfi að fylgja þessum fsp. úr hlaði með mörgum orðum. Þær skýra sig nokkuð sjálfar. Staðreynd er, að stöðugt berast fréttir víðs vegar að af landinu af megnri óánægju með ófullnægjandi þjónustu símans. Síminn er orðinn ómissandi tæki í samskiptum fólks, ekki síst eins og viðskiptalífi er nú orðið háttað. Það er því með öllu óþolandi ástand, og þá sér í lagi ef það varir lengi, ef þeir, sem það vilja, geta ekki fengið síma. En þannig hefur ástandið verið nú um talsvert langt skeið, bæði á Siglufirði, á Sauðárkróki og alveg vafalaust víða annars staðar á landinu, eins og m. a. kom fram í umr. um svipað efni á fundi Sþ. fyrir réttri viku, þar sem hv. þm. Oddur Ólafsson vakti athygli á svipuðum vandamálum.

Seinasti liður fsp., 4. liðurinn, var raunar til umr. hér í þinginu fyrir réttri viku, og þarf ekki að endurtaka það sem þar kom fram, að vegna mistaka hafði þessi fsp.-syrpa mín fallið niður af dagskrá og hafði því dregist að henni yrði svarað. Ég vil þó vekja á því athygli, að í raun og veru svaraði hæstv. ráðh. aldrei efnislega þessari spurningu. Hann rakti einungis hvað hefði verið gert, hvaða skref hefði verið stigið í þessa áttina. Það skref er harla smátt, þó að það skuli síst vanþakkað. En hann svaraði því ekki, hvort að þessu sé ekki stefnt og hvenær hugsanlega megi vænta að úrlausn fáist sem nálgist það að þessu takmarki sé náð, þ. e. a. s. að þeir notendur, sem hafa sama svæðisnúmer, geti talað sín í milli á einu svonefndu skrefi.