28.02.1978
Sameinað þing: 49. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2664 í B-deild Alþingistíðinda. (1944)

196. mál, snjómokstur á þjóðvegum á Vestfjörðum

Fyrirspyrjandi (Jóhannes Árnason) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. fyrir greinargóða skýrslu sem svar við þessari fsp. Eins og fram kom í svari hans, þá er nokkur mismunur á reglunum sem gilda um snjóruðning annars vegar á Ísafjarðarsvæðinu og hins vegar á Patreksfjarðarsvæðinu og þá í þá átt, að reglurnar eru heldur rýmri á norðursvæðinu. Eins og fram kom í svari ráðh., þá hefur vegamálastjóri látið fylgja með nokkra skýringu á þessu og víst er það rétt sem þar kemur fram, en ég sé bara engin rök fyrir því að vera að hafa mismunandi reglur um snjóruðning á þjóðvegum á tveimur slíkum viðskiptasvæðum sem telja má nokkuð hliðstæð.

Það er óþarft að taka það fram, hvaða þýðingu það hefur fyrir allt mannlíf í hinum dreifðu byggðum þessa lands að hafa greiðar og öruggar samgöngur og þá ekki hvað síst innan hvers viðskiptasvæðis eða héraðs. Fsp. sú, sem hér er til umr., fjallar um snjóruðning á tveimur svæðum á Vestfjörðum sem verður að skoða sem sérstök viðskiptasvæði og hliðstæð yfirleitt um flesta hluti, þar sem fjölmargir aðilar þurfa að komast leiðar sinnar, bæði vegna atvinnumála og margvíslegrar þjónustu í þágu almennings á þessum stöðum. Má þar nefna læknisþjónustu, löggæslu, sjúkraflutninga, mjólkurflutninga, póstsamgöngur, samgöngur við flugvelli, atvinnumál og ýmiss konar viðskipti. Það er nefnilega þannig, að það er orðið margt sem er orðið sameiginlegt fyrir þessi svæði nú á seinni árum. Það hefur orðið mikil breyting á síðari árum í þessum efnum og það er miklu fleira sem er sameiginlegt fyrir þessi svæði nú en var fyrir nokkrum árum. Þetta kallar auðvitað á það að halda verður uppi greiðari og öruggum samgöngum að vetrarlagi þegar snjóalög eru mikil.

Einn snjómokstur í viku er allt of lítið á leiðinni t. d. frá Patreksfirði til nærliggjandi staða, Tálknafjarðar og Bíldudals sérstaklega og enn fremur má nefna Barðaströnd og útsveitir Rauðasandshrepps. Þetta hefur sérstaklega valdið erfiðleikum gagnvart Bíldudal. Þar er mjög mikil óánægja með fyrirkomulag þessara mála ég vil láta það koma hér fram — og það er oft leitað til margra aðila, bæði mín og fleiri. Það er verið að hringja í þm. og skammast út af þessu.

Að ætla sér að láta sveitarfélögin standa undir kostnaði við þessi útgjöld að einhverju leyti til að fá vegina rudda oftar en reglurnar gera ráð fyrir er að mínu áliti fráleitt. Ég tel að sveitarfélögin hafi nóg með sína eigin vegi að gera. Það er lágmarkskrafa að ríkisvaldið sjái um ríkisvegina, þjóðvegina, og snjóruðning á þeim á þann hátt að viðunandi sé fyrir íbúana á þessum svæðum.

Þetta er auðvitað ekki vandamál nema á miklum snjóavetrum. Góðu heilli er það svo að löngum þarf ekki að hreyfa veghefil. Ég vil því spyrja hvers vegna ekki séu möguleikar á því að hafa þessar reglur á þann veg að jafna þessu meira út. Ég vil benda á það, að Vegagerðin er með fasta starfsmenn til að vera á vegheflunum, svo það ætti ekki að vera um mikinn viðbótarkostnað að ræða þótt heflarnir væru notaðir meira og þetta rýmkað. Sums staðar er þetta líka þannig, að aðstæður eru slíkar, að það eru kannske einn eða tveir skaflar á heiði sem þarf að hreyfa við löngum og löngum, en það að ekki fæst rutt þýðir auðvitað að ekki er hægt að komast leiðar sinnar.

Ég vil að lokum beina því til hæstv. samgrh., að ég tel að það sé nauðsyn á því að breyta þessum reglum til rýmkunar og gera á þeim vissa kerfisbreytingu, þannig að þetta geti verið sveigjanlegra en nú er. Þetta er of stíft, of þröngt finnst mér. Mætti tvímælalaust koma því fyrir á heppilegri hátt, þó þannig að það þýddi ekki aukin útgjöld fyrir Vegagerðina.

Ég vil svo einnig beina þessu til þeirra hv. þm. Vestf., sem hér eiga setu að staðaldri, að þeir taki þessi mál upp og fylgi þeim eftir.