28.02.1978
Sameinað þing: 49. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2665 í B-deild Alþingistíðinda. (1945)

196. mál, snjómokstur á þjóðvegum á Vestfjörðum

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Í svari mínu áðan taldi ég mig gera tæmandi grein fyrir því sem spurt var um og hv. þm. Jóhannes Árnason talaði hér fyrir. En það kom greinilega fram, sem vegamálastjóri hafði grun um, að það væri ákveðið tilefni sem hér var um að ræða. Nú vil ég benda á að þær reglur um snjómokstur, sem nú eru í gildi, eru ekki gamlar. Var þá rýmkað mjög um í þeim efnum. En snjómoksturinn er mjög dýr framkvæmd og þrengir mjög að okkur í sambandi við það, að við erum að reyna að byggja vegina upp með þeim hætti að þeir komi upp úr snjónum, svo ekki þurfi að moka þá eins og verið hefur, eða bæta þá á annan hátt. Þessar reglur, sem við breyttum nú fyrir stuttu, auka kostnaðinn við snjómoksturinn um á annað hundrað millj kr., og það er afar erfitt að koma þessu í framkvæmd nema með því að hafa um það fastmótaðar reglur. Í þessum reglum eru möguleikar til þess fyrir sveitarfélög að sækja um. Það er í 10. gr. reglugerðarinnar. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta :

„Á mjög snjóþungum vetrum geta sveitarfélög, sem verða fyrir verulegum útgjöldum vegna snjómoksturs, sótt um endurgreiðslu til Vegagerðar ríkisins á hluta þess kostnaðar, sem þeim ber að greiða samkv. 3. gr. Endurgreiðsla skal þó aldrei nema hærri fjárhæð en helmingshluta sveitarfélagsins.“

Þetta er til staðar þar sem það á við, og þetta var sett inn í þeim ákveðna tilgangi, að það yrði að sækja um þetta, rökstyðja þetta, svo að snjómoksturinn færi ekki út í öfgar. Enn fremur kom fram hér áðan, að það eru 900 þús. kr. á fjárl. til vetrarflutninga í Vestur-Barðastrandarsýslu og ætti það að sjálfsögðu að koma að notum. Hitt veit ég, að það er sama hvert farið er, ef um snjóavetur er að ræða þykir öllum of lítið að gert í snjómokstri. En hv. þm. verða að sjálfsögðu að gera það upp við sig, hverju þeir vilja eyða í snjómoksturinn af því fé sem þeir hafa til meðferðar í sambandi við vegagerðina í heild. Ég tel að mjög hafi breyst til batnaðar í vegagerð úti um landsbyggðina einmitt á þessum dreifðu stöðum nú á síðustu árum. Er það með þrennu móti: með því að fé hefur verið veitt til þess að gera slitlag á vegum í þéttbýli, í öðru lagi að snjómokstursreglur eru rýmri og í þriðja lagi að hækkað hefur verið framlag til sýsluvega, sem mun hækka um 100% á þessu ári frá því síðasta. Hér hefur verið stefnt í rétta átt og ætti þetta því ekki að verða eins tilfinnanlegt vegna þeirra aðgerða annarra sem ég hef greint frá.