28.02.1978
Sameinað þing: 49. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2666 í B-deild Alþingistíðinda. (1946)

345. mál, stofnlánasjóður atvinnubifreiða og vinnuvéla

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 339 hef ég leyft mér að bera fram svo hljóðandi fsp. til samgrh.:

„Hvað líður framkvæmd þál. um stofnlánasjóð vegna stórra atvinnubifreiða og stórvirkra vinnuvéla frá 18. maí 1976?“

Á þingi 1976 var samþ. þál. þar sem skorað var á ríkisstj. að hlutast til um, að komið yrði á fót stofnlánasjóði eða stofnlánadeild, sem hefði það hlutverk að veita stofnlán til kaupa á vörubifreiðum, langferðabifreiðum og virkum vinnuvélum. Um framkvæmd þessarar till. er spurt nú. Hér mun nefndarskipun hafa til komið á s. l. ári, að ég hygg, eða jafnvel fyrr, til að vinna að þessu verkefni, en lítið hefur heyrst um störf þessarar nefndar. Það fer vel á því nú að tveimur árum liðnum að heyra nánar um það hvernig mál þessi standa. Engu síðri er þörfin fyrir stofnlánasjóð þennan nú en var þegar till. var upphaflega flutt 1974 af okkur hv. þm. Karvel Pálmasyni og hæstv. núv. menntmrh. Vilhjálmi Hjálmarssyni. Síðar kom hv. þm. Páll Pétursson inn sem meðflm. Í grg. till. okkar var ljóslega rakinn vandi þessara aðila, sem ekki hafa í neinn fastan sjóð að sækja utan að hluta úr Byggðasjóði, sem þá viðbót í raun, en ekki sem aðalstofnlán. Enn hafa þessi tæki hækkað mjög í verði og erfiðara verður með ári hverju fyrir venjulega menn að festa kaup á þessum annars nauðsynlegu atvinnutækjum. Víða að fæ ég fsp. um það, hvernig málinu farnist. Sumir hafa jafnvel haldið, að með samþykkt till. og nefndarskipun þar á eftir hafi einhver ný leið opnast til stofnlána, og er það máske ekki nema von. Framkvæmdasjóður mun á árinu 1976, að ég hygg, hafa gert vissar bráðabirgðaráðstafanir hér að lútandi, að vísu í formi skammtímalána og með lágri heildarupphæð, en um framhald þess eða aukningu held ég að ekki hafi verið að ræða. En m. a. vegna fjölmargra fsp. um væntanlegan stofnlánasjóð er hæstv. ráðh. nú spurður um frekari framgang málsins.