28.02.1978
Sameinað þing: 49. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2667 í B-deild Alþingistíðinda. (1947)

345. mál, stofnlánasjóður atvinnubifreiða og vinnuvéla

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 339 er fsp. frá hv. 7. landsk. þm., Helga F. Seljan, um stofnlánasjóð vegna kaupa á vörubifreiðum, langferðabifreiðum og stórvirkum vinnuvélum. Frá þessu máli er það að segja, að hinn 11. jan. 1977 skipaði samgrn. nefnd til þess að semja frv. til l. um stofnlánasjóð vegna kaupa á vörubifreiðum, langferðabifreiðum og stórvirkum vinnuvélum. Í nefndina voru skipaðir embættismenn frá samgrn., Framkvæmdastofnuninni, Seðlabankanum, Þjóðhagsstofnun og fjmrn., svo og fulltrúar frá Landvara, Félagi ísl. sérleyfishafa, Landssambandi vörubifreiðastjóra og Félagi vinnuvélaeigenda.

Meiri hl. nefndarinnar skilaði till. að frv. til rn. með bréfi dags. 15. nóv. 1977. Að meirihlutaálitinu stóðu sjö nm., en tveir, þ. e. fulltrúar frá Félagi sérleyfishafa og Landvara, boðuðu að þeir mundu skila minnihlutaáliti, sem þó hefur ekki komið frá þeim. Í bréfi meiri hl. nefndarinnar frá 15. nóv. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Meiri hl. n. hefur skilið hlutverk sitt svo, að henni beri að miða við gefnar forsendur í skipunarbréfi að skila ákveðinni tæknilegri lausn, sem jafnframt væri í samræmi við hliðstæðar lausnir á lánamálum annarra atvinnugreina. Þetta telur meiri hl. nefndarinnar sig hafa gert. Hann telur hins vegar ekki rétt að láta þessar till. að frv. um landflutningasjóð frá sér fara án þess að benda á nokkra vankanta sem þessi leið hefur í för með sér og nauðsynlegt er að ríkisstj. geri sér grein fyrir áður en ákveðið er hvort frv. verður lagt fyrir Alþ. Þannig er ljóst, að frv., ef að lögum yrði, hefur í för með sér að nýjum lánasjóði, nýrri stofnun, yrði komið á fót með töluvert umsvifamikilli starfsemi. Aðilar þeir, sem gjaldskyldir eru til sjóðsins, munu samtals eiga um 1100 bifreiðar og munar þar mest um eigendur leigubifreiða til vöruflutninga, sem eru 700–800 talsins. Áætla má, að lánsumsóknir fyrir nýjar bifreiðir yrðu a. m. k. 150 árlega fyrst í stað. Leitað var leiða til að finna þessari starfsemi stað í lánasjóðum sem fyrir eru. Náðist samkomulag um að eðlilegt væri að lánamál vinnuvélaeigenda féllu undir starfsemi Iðnlánasjóðs. Enginn sjóður er hins vegar til sem gæti með starfssviði sínu spannað yfir þarfir eigenda stórra flutnings- og vöruflutningabifreiða. Innan nefndarinnar hefur nokkuð verið rætt um það, hvort ekki mætti komast hjá sjóðsstofnun með öðrum fjármálalegum aðgerðum, sem kæmu þessum stéttum að svipuðum notum. En þar er raunverulega aðeins um tvær leiðir að ræða. Önnur leiðin er lækkun aðflutningsgjalda, hin leiðin er heimild til töku vörukaupalána í erlendum gjaldeyri. Á það skal ekki lagður dómur hér, hvort önnur þessara leiða eða báðar saman gætu komið í stað stofnlánasjóðs, en á þær er bent, verði sjóðhugmyndin ekki talin framkvæmanleg.“

Hér lýkur því, sem kom fram í grg. nefndarinnar.

Í till. sínum leggur nefndin til, að tekjur í væntanlegan sjóð, ef hann yrði stofnaður, sem kallaður yrði landflutningasjóður, verði m. a. sérstakt gjald sem lagt verði á þá aðila sem rétt eiga á lánum úr sjóðnum. Er gjald þetta hliðstætt Iðnlánasjóðsgjaldi. Nefndin leggur enn fremur til, að í sjóðinn komi framlög úr ríkissjóði í 4 ár, en að þeim tíma liðnum verði fjárhæðin endurskoðuð og framlengd í eitt ár í senn, ef nauðsyn ber til vegna stöðu og verkefna sjóðsins.

Till. nefndarinnar eru nú til frekari athugunar í rn., og m. a. hefur verið rætt við fulltrúa frá Landvara og fleiri aðilum, en þess skal getið að í þeim umr., sem ég hef átt við nm., hefur komið fram, að það sé talið lítt framkvæmanlegt að hugsa sér að hafa í sama sjóði vörubifreiðar og landflutningabifreiðir og sérleyfishafa, þetta sé orðið of mikið fyrirtæki til þess að raunverulega sé hægt að koma því vel fyrir.

Nokkuð hefur nú verið athugað, síðan nefndin skilaði áliti, hvort framkvæmanlegt væri að koma upp fyrst og fremst sjóði vegna landflutningabifreiða og þá næst sérleyfishafa, en þá síður vegna kaupa á venjulegum vörubílum, enda er þá orðið um mjög stórt mál að ræða. Skrifstofustjóri samgrn. vinnur frekar að málinu og mun síðar skila áliti um það. En eins og málið liggur nú fyrir var það ekki í þeim búningi, að hægt væri að leggja það fram á Alþ. í frv: formi.