28.02.1978
Sameinað þing: 50. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2682 í B-deild Alþingistíðinda. (1959)

178. mál, uppbygging strandferðaþjónustunnar

Flm. (Steingrímur Hermannsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm., sem hér hafa talað, stuðning við þessa tillögu.

Út af orðum hv. 7. landsk. þm. vil ég taka það fram, að ekki ber að líta á þetta sem vantraust á hæstv. samgrh. Hæstv. samgrh. hefur lýst eindregnum stuðningi sínum við eflingu Skipaútgerðarinnar. Hins vegar verður líklega að viðurkenna að honum hafi ekki orðið það ágengt sem við vildum, og það er rétt skilið hjá hv. þm. að þarna kemur fram viss óþolinmæði okkar. Okkur þykir dragast of lengi að athuga vandlega þessar till. En ég get upplýst að ég hef haft samráð við hæstv. ráðh. og hann er þess mjög hvetjandi, að að þessu máli verði unnið eins fljótt og unnt er, og við litum svo á, flm. þessarar till., að yfirlýsing hins háa Alþ. í þá átt geti einmitt stutt hann í þeirri viðleitni sinni að fá þetta athugað og jafnframt stuðlað að því, að við næstu fjárlagagerð fáist fjárveiting til þess að hefja slíkar breytingar á rekstri Skipaútgerðarinnar sem þarna er lagt til. Þetta er því allt í fullu samráði við hann.

Fram kemur hjá hv. þm., að þeim sýnast þær till., sem hér eru lagðar til grundvallar, æðiróttækar. Undir það get ég tekið, enda vil ég leggja áherslu á það, að með till. er ekki lagt til að þessar till. verði sem slíkar endilega framkvæmdar, heldur lögð áhersla á að þær verði vandlega athugaðar og að slíkri athugun lokinni ákveðið á hvern hátt þessum rekstri verði breytt. Við erum hins vegar eindregið þeirrar skoðunar, að bæði sé unnt að gjörbreyta þessum rekstri, þannig að hann verði hagkvæmari, og það eigi að gera. En hvort það eru nákvæmlega þessi skip, sem þarna eru tekin til viðmiðunar, eða einhver önnur eða, eins og hér hefur gjarnan komið fram, það leiðakerfi, sem rætt er um, á það leggjum við ekki dóm, en teljum að sú athugun, sem felst í 1. lið till., eigi að skera úr um það. Það er sem sagt eindregin von okkar, að hið háa Alþ. lýsi þeim vilja sínum og þetta verði athugað og slíkri rannsókn verði hraðað, enda liggur fyrir mikið efni í slíka athugun.

Ég vil taka undir það með hv. 9. landsk. þm., að athuga þarf rekstur flóabátanna, og ég vil alls ekki leggjast gegn því að það verði tekið inn í þessa athugun og jafnvel inn í þessa þáltill., ef um það næðist samkomulag. Hitt er svo annað mál, að mér skilst að starfandi sé nefnd á vegum samgrn. einmitt til að athuga rekstur flóabátanna og þyrfti þá að kanna hvað þeirri athugun líður og hvort það mál sé komið það langt á veg að frekari athugun sé óþörf. Þetta er stórt mál, og nefnd sú, sem fær till. til meðferðar, getur athugað það. M. a. er það stórt mál vegna þess að í hinu nýja leiðakerfi er gert ráð fyrir að flóabátarnir sinni verulegu og mikilvægu hlutverki með framflutningi á vörum frá aðalhöfnum þegar landleið er lokuð. Auk þess sinna þeir að sjálfsögðu öðrum mikilvægum hlutverkum, sem ekki verður hjá komist, og ég ætla ekki að ræða það hér. Það er því sjálfsagt að athuga þetta, enda verði það ekki til að tefja framgang þessa máls.

Ég get upplýst það hér, að mér hafa einnig borist svipuð andmæli við þeim breytingum, sem gerðar hafa verið á leiðakerfinu, og hv. 7. landsk. þm. las upp áðan. Ég hef einnig rætt þetta við forstjóra Skipaútgerðar ríkisins, sem hefur haft þau svör, að þar sé a. m. k. að sumu leyti um byrjunarerfiðleika að ræða. Hann viðurkennir jafnframt að að ýmsu leyti sé erfitt að koma góðu leiðakerfi á með þeim skipum, sem nú eru, og þeim ókostum sem þau hafa bæði — þau eru tvö, en ekki þrjú — og langan lestunartíma o. fl. sem ég rakti áðan. En hann virðist bjartsýnn um það, að á þessu verði veruleg bót ráðin strax og flutningar frá höfnum komast í rétt horf og þess háttar atriði. Ég ætla ekki að dæma um það. Mér finnst eðlilegt að Skipaútgerðin fái nokkurt svigrúm til þess að sýna að þetta geti gengið, en ég tek hins vegar undir hitt, að við þm. þeirra byggða, sem svo mjög eru háðar slíkum flutningum, þurfum að vera vel á verði og gæta þess, að þessi þjónusta verði ekki lakari en hún hefur verið. Hitt er svo annað mál, að það þarf náttúrlega fjárveitingu til að reka skipin á þann máta, sem best verður kosið, og hún hefur verið af skornum skammti.

Svo endurtek ég þakkir til hv. þm. sem lýst hafa stuðningi við þessa tillögu.