26.10.1977
Neðri deild: 9. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (196)

29. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 5. þm. Vesturl. fyrir hversu rækilega hann hefur vakið athygli á því, að við þurfum að styðja betur við bakið á listastarfsemi áhugafólks víðs vegar um landið. Um það vona ég að hv. dm. og í raun og veru allir hv. alþm. séu sammála. Það er e.t.v. ekki víst hvað verður þegar kemur til fjárveitinga við afgreiðslu fjárl., hvort þá kemur greinilega fram sú hugsun manna. En ég vona að þessar umr. hérna eigi þátt í því að gera mönnum ljóst að þarna þarf betur að gera en gert hefur verið til þess að styðja það mikla áhugastarf, sem unnið er víðs vegar um landið, ekki einasta á sviði leiklistar, heldur einnig tónmenntar og á sviði annarra fagurra lista.

Nú er ég ekki að mælast undan ítarlegum umr. um mál sem ég flyt, líkt og þeim sem hér hafa farið fram, en mér þykir dálítið merkilegt samt, að öðrum þræði ber umr. þann svip að um þetta mál sé djúpstæður ágreiningur, t.d. við hv. 5. þm. Vestf. og jafnvel þann hv. þm. sem talaði síðast. Þó hef ég ekki getað betur séð en allir þm., sem hér hafa talað, hafi lýst þeim skilningi sínum að nauðsynlegt sé að setja löggjöf um Sinfóníuhljómsveitina og meira að segja löggjöf mjög í stíl við það sem lagt er til að sett verði með þessu frv. Þetta er fyrir mér aðalatriði og ég er ákaflega þakklátur fyrir þessar undirtektir, því að þetta gengur eins og rauður þráður í gegnum ræður manna, hv. þm., þrátt fyrir allt.

Hljómsveitin er nefnilega staðreynd, þýðingarmikill þáttur. Eins og ég sagði í gær er hún starfsvettvangur fyrir hljómlistarfólkið, og ég held að tilvera hljómsveitarinnar sé mikill bakstuðningur fyrir tónlistarlíf í landinu yfirleitt og stuðli að tónmenntalegu uppeldi þjóðarinnar á vissu sviði, líkt og aftur kennsla bæði í grunnskólum, sem er allt of lítil, og í tónmenntaskólunum gerir á öðrum sviðum. Þetta styður hvað annað, og ég árétta að ég álít að setning löggjafar sé sjálfsögð jafnt fyrir hið opinbera, fyrir fjárveitingavaldið og fyrir listafólkið, það fólk sem starfar í Sinfóníuhljómsveitinni.

Það hafa komið fram nokkur atriði varðandi frv. í þessum umr. í dag. Hv. 2. þm. Norðurl. v. gerði grein fyrir séráliti sínu og þeirra tveggja í nefndinni sem undirbjó þetta frv., og það var vel að hann fékk tækifæri, áður en þessari umr. lauk, til að gera fyrir því glögga grein.

Það, sem hefur komið fram í umr. um það atriði, hvort tiltaka skuli ákveðna tölu í lögunum eður ei, skýrir eiginlega alltaf betur og betur fyrir mér hversu nauðsynlegt er að hafa þarna einhverja fasta tölu. Mér líst alltaf verr og verr á það, eftir því sem ég velti því frekar fyrir mér, að tala hljómsveitarmanna og val verkefna á hverju ári sé háð samþykki hinna mörgu aðila, sem að hljómsveitinni standa, og þurfi hvert sinn að ræða og bera upp í fjvn. og á Alþ. og í borgarstjórn Reykjavíkurborgar og bæjarstjórnum þeirra sveitarfélaga sem að hljómsveitinni standa. Þetta held ég að sé varla hægt. Hitt er svo annað mál, hvort ákvörðun um verksvið hljómsveitarinnar á að vera formuð í tölu hljómsveitarmanna ellegar þá í nánari, gleggri og meira útfærðum ákvæðum en nú eru í frv. um hvert sé í raun og veru verkefni hljómsveitarinnar og eigi að vera hennar viðfangsefni. Yrði horfið frá því að hafa ákveðna tölu sem viðmiðun, þá held ég að þyrfti að huga vel að því að afmarka verksviðið nánar á annan hátt. Tala hljómlistarmannanna afmarkar það að vissu leyti. Hún segir um möguleika til átaka við verk meistaranna.

Hv. þm. Lárus Jónsson, 4. þm. Norðurl. e., hefur lagt fram brtt. og gert grein fyrir henni. Hann bendir á það að í lögum um Þjóðleikhús séu ákvæði hliðstæð þeim sem hann leggur til að tekin verði inn í þetta frv. um skyldur og starfssvið hljómlistarmannanna. Nú getur auðvitað alltaf verið álitamál hversu náið eigi að kveða á um þetta í löggjöf, eða það eigi að koma í reglugerð eða í kjarasamningum. En mér finnst eðlilegt að þetta sé allt mjög vel athugað. Það er auðvitað ekki nema til bóta að hafa í lögunum sjálfum skýr ákvæði um þau atriði sem menn verða ásáttir um að eðlilegt sé að taka fram í lögum.

Þetta vildi ég sagt hafa um þessi efnislegu atriði sem þér hafa sérstaklega verið rædd. Ég vil treysta því, og tel mig hafa fulla ástæðu til að treysta því eftir þær umr., sem þér hafa farið fram, og undirtektir við þessa lagasetningu almennt, að þetta mál fái bæði rækilega og um leið nokkuð rösklega afgreiðslu hér á hv. Alþingi.