01.03.1978
Neðri deild: 63. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2703 í B-deild Alþingistíðinda. (1975)

186. mál, upplýsingar hjá almannastofnunum

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Hæstv. forseti. Í ársbyrjun 1973 var lagt fyrir Alþ. frv. til l. um upplýsingaskyldu stjórnvalda. Frv. þetta varð ekki útrætt, hvorki á því þingi né á því næsta, en þá var það lagt fram að nýju. Hið beina tilefni til þess, að frv. þessa efnis var lagt fram, var þál. sem samþ. var á Alþ. 19. maí 1972, en sú þál. hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta undirbúa og leggja fyrir næsta þing frv. til l. um, hver sé skylda stjórnvalda og ríkisstofnana til að skýra opinberlega frá störfum sínum og ákvörðunum og hvenær beri að veita þeim, sem þess óska, aðgang að reikningum og skjölum, sem almenning varðar.“

Samkv. þessari þál. var þetta frv., sem ég nefndi áðan, samið með nokkuð skjótum hætti og fullnægt þeirri ósk, sem fram kom í þál., að frv. væri lagt fyrir næsta Alþ. á eftir. Þar af er skemmst að segja, að þetta frv. sætti nokkrum andbyr. Ég hygg raunar að sá mótbyr, sem það mætti, hafi að talsverðu leyti byggst á misskilningi, eins og t. d. þeim, sem nokkuð var barnalegur, að upptalning á undantekningum var nokkuð fyrirferðarmikil og mönnum óx hún í augum samanborið við aðalregluna. Enn fremur kom fram nokkur hneykslan hjá Blaðamannafélagi eða félagi þeirra manna, sem vinna við fjölmiðla, af því að þeim hafði ekki verið gefinn kostur á því að taka þátt í samningu þessa frv., og kom nokkuð fram hjá þeim sá skilningur, að þetta frv. og lagasetning væri fyrst og fremst vegna þeirra. Þetta var að sjálfsögðu misskilningur. Auðvitað var það frv., sem þá var um að ræða, og þetta frv., sem nú er um að tefla, fyrst og fremst um það að veita almenningi, einstaklingum og hverjum og einum, aðgang að upplýsingum. En auðvitað njóta blaðamenn og þeir, sem starfa að fjölmiðlun, öðrum fremur góðs af slíkri lagasetningu. Hefur verið reynt að mæta þeirri gagnrýni, sem kom fram í sambandi við þetta frv. 5 sínum tíma, 1973, og fer ég ekki nánar út í það.

Fyrir rúmu ári var þriggja manna nefnd, skipuð þeim Baldri Möller ráðuneytisstjóra, sem var formaður hennar, Einari Karli Haraldssyni þáv. formanni Blaðamannafélags Íslands og Sigurði Lindal prófessor. Þessari nefnd var falið að endurskoða fyrrgreint frv. til I. um upplýsingaskyldu stjórnvalda eða semja nýtt frv. um þetta efni. Ritari nefndarinnar var Eiríkur Tómasson lögfræðingur. Nefndin valdi síðari kostinn, sem ég nefndi, og samdi algerlega nýtt frv., það frv. sem hér er til umr.

Að sjálfsögðu er þetta frv., á sama hátt og hin eldri, sniðið eftir lögum um sama efni sem samþykkt voru í Danmörku og Noregi fyrir nokkrum árum. Einkum tekur frv. mið af dönsku upplýsingalögunum, en einnig gætir þar áhrifa frá norsku og sænsku stjórnsýslulögunum sem samþykkt voru fyrir áratug eða um það bil.

Hér á landi eru til mjög fáar almennar stjórnsýslureglur í settum lögum. Reglur stjórnarfarsréttarins eru því flestar hverjar óskráðar, og má segja að það sé að ýmsu leyti bagalegt þar sem hlutverk alls kyns stjórnvaldsstofnana verður æ þýðingarmeira eftir því sem tímar liða. Að mínum dómi ber brýna nauðsyn til þess að settar verði almennar reglur um íslenska stjórnsýslu, eins og gert hefur verið í flestum nágrannalöndum okkar. Hér verður þó að sjálfsögðu að fara að öllu með gát. Aðstæðum svipar að vísu um margt til þess sem gerist í nágrannalöndum okkar, en þó má ekki gleyma þeirri sérstöðu sem íslenskt þjóðfélag hefur í samfélagi þjóðanna. Fámennið hefur gert það að verkum, að bilið milli stjórnenda og þjóðfélagsþegna er ekki eins breitt hér og víðast hvar annars staðar. Á sama hátt er stjórnkerfið sjálft fábreyttara og einfaldara í sniðum en gengur og gerist hjá milljónaþjóðum. Þessi séreinkenni íslenska þjóðfélagsins og íslensks stjórnkerfis verður að hafa í huga þegar settar eru almennar stjórnsýslureglur.

Í frv. því, sem hér er til umr., er að finna veigamiklar reglur um meðferð mála í stjórnsýslunni. Frv. ber þess vissulega merki að hér er um nokkurs konar brautryðjendaverk að ræða, en einhvers staðar verður þó að byrja á því að lögfesta helstu reglur um málsmeðferð í íslenskri stjórnsýslu. Ég tel það vel við eiga, að byrjað sé einmitt á því að lögfesta reglur um aðgang að upplýsingum hjá stofnunum og fyrirtækjum í almannaeigu.

Rök að baki þeirrar reglu, að hver og einn geti kynnt sér skjöl og önnur gögn hjá stofnunum ríkisins og sveitarfélaga, eru svo augljós að um þau ætti ekki að þurfa að fara mörgum orðum. Forsenda þess, að hægt sé að tala um lýðræðislega stjórnarhætti, er sú að borgurunum sé opnuð leið til þess að fylgjast með athöfnum og vinnubrögðum þeirra sem vinna við hvers konar stjórnsýslu. Almenningur verður að fá sem áreiðanlegastar og gleggstar upplýsingar um starfsemi stjórnsýslustofnana og stjórnsýsluhafa til þess að hann geti dæmt um ágæti þeirra eða hvernig á hana beri að líta. Enn fremur getur það veitt stjórnendum aðhald, ef hinn almenni borgari, eins og hann stundum er nefndur, á þess kost að fylgjast með gangi mála.

Eins og fyrr segir hefur ekki verið til að dreifa í íslenskri löggjöf neinum almennum ákvæðum um gang almennings eða málsaðila að upplýsingum hjá stofnunum eða fyrirtækjum í almannaeigu. Í stjórnarskránni er aftur á móti kveðið á um það, að fundir Alþingis skuli haldnir í heyranda hljóði, og sama á við um þinghald dómstóla samkv. ýmsum ákvæðum í réttarfarsslögum. Þá er á hinn bóginn að finna fjölda ákvæða í íslenskum lögum um þagnarskyldu opinberra starfsmanna, bæði um tilvik almenns eðlis og um sérgreind tilvik. Af þessum ákvæðum verður ekki dregin nein ályktun um það, hvort almenningur eða málsaðilar eigi yfirleitt nokkurn rétt til þess að fá upplýsingar úr hendi stjórnsýsluhafa, hvað þá hve sá réttur er viðtækur, og almennt mun hingað til hafa verið talið, að það væri alls ekki um að ræða neina almenna reglu sem veitti almenningi aðgang eða rétt til upplýsinga hjá stjórnvöldum. Þar með er ekki sagt að stjórnvöld hafi ekki oft og iðulega í mörgum tilfellum veitt slíkar upplýsingar og veiti slíkar upplýsingar, enda þótt ekki sé fyrir hendi skýr lagaskylda til þess.

Með frv. því, sem hér hefur verið lagt fram, er almenningi og aðilum máls veitt skýlaus réttur til þess að krefjast upplýsinga úr hendi stjórnsýsluhafa. Vikur sá réttur aðeins fyrir almennum hagsmunum og einkahagsmunum, sem í hverju tilviki verða að teljast ríkari en hagsmunir þeir sem lúta að því, að tilteknar upplýsingar verði gefnar. Svonefnd þagnarskylduákvæði takmarka ekki þennan rétt til aðgangs að upplýsingum. Stjórnsýsluhöfnum er aftur á móti í sjálfsvald sett hvort þeir ganga lengra en þeim er skylt að gera samkv. frv.

Það var reginfirra, sem haldið var fram í sambandi við frv. sem lagt var fram 1973, að með því væri þrengdur réttur almennings til þess að fá upplýsingar hjá stofnunum og fyrirtækjum í almannaeigu. Ég geri tæpast ráð fyrir því, að nokkur haldi því fram, að það sé gert með þessu frv., heldur er þvert á móti almenningi tryggður þessi réttur að meginstofni til.

Í því frv., sem lagt var fyrir Alþingi árið 1973, var gert ráð fyrir að lögin nefndust: Lög um upplýsingaskyldu stjórnvalda. Í frv. því, sem nú hefur verið lagt fram, er hins vegar lagt til, að lögin nefnist: Lög um aðgang að upplýsingum hjá almannastofnunum. Það heiti er af höfundum frv. talið heppilegra, því að engin skylda er lögð á stjórnsýsluhafa til þess að hafa frumkvæði um að veita upplýsingar, eins og eldra heitið gæti gefið til kynna, og raunar mun það vera alger undantekning í íslenskri löggjöf ef skylda er lögð á stjórnsýsluhafa til þess að hafa frumkvæði að því að veita slíkar upplýsingar. Ég er nú búinn að gleyma því, hvort það er enn þá í lögum, sem sett voru einu sinni í sambandi við Ríkisútvarpið, að forstöðumenn ríkisstofnana skuli vera skyldir til þess að flytja eitt eða tvö erindi á ári um stofnanir sínar, — ákvæði sem var góðra gjalda vert og byggt á heilbrigðri hugsun, en gætti lítið í framkvæmd og hefur lítið gætt í framkvæmd nema þá allra fyrstu árin. Má vera að það hafi verið leyft við þeim ákvæðum með nýjum útvarpslögum, — ég man það ekki. En meginhugsun þessa frv., sem hér liggur fyrir, er sú, að öllum skuli vera heimilt að kynna sér skjöl eða önnur gögn í málum, sem eru eða hafa verið til meðferðar hjá stofnunum eða fyrirtækjum í almannaeigu, ef þeir óska þess.

Eins og fram kemur í 2. og 6. gr. frv. hefur ekki þótt fært að veita mönnum almennan aðgang að dagbókarfærslum eða annars konar skráningu skjala hjá stjórnsýslustofnunum í því skyni að leita þar að málum sem menn hafa ekki vitneskju um fyrir fram. Slíkt fyrirkomulag mundi valda mikilli röskun á starfsemi þessara stofnana eða gæti a. m. k. gert það og gæti haft það í för með sér, að fjölga þyrfti starfsliði þeirra, þar sem erfitt væri að hugsa sér að leyfa almennan aðgang að hvers konar skráningu skjala, nema tekin væru afrit af skránum og þau lögð fram á ákveðnum stað og stund. Þessi orð mín má ekki skilja svo, að hið nýja frv. leggi ekki auknar skyldur á herðar stjórnsýsluhöfum.

Verði frv. að lögum, eykst óhjákvæmilega formfesta í stjórnsýslunni, sbr. 7. gr. frv., þar sem stjórnsýsluhöfum er gert skylt að skrá efni munnlegra upplýsinga sem mikilvægar má telja fyrir úrslit máls.

Í 12. gr. segir, að forstöðumaður stofnunar eða fyrirtækis taki ákvörðun um það, hvort upplýsingar skuli veittar. Ávallt skuli stefnt að því, að beiðni sé afgreidd eins fljótt og verða má. Hér kemur fram, að stjórnvaldshöfum og öðrum starfsmönnum stjórnsýslunnar er skylt að sinna hverri beiðni, sem berst um aðgang að upplýsingum. Beiðni þessa á að afgreiða eins fljótt og hægt er, og henni má ekki hafna nema til þess liggi veigamiklar ástæður, sbr. þá meginreglu sem orðuð er í 2. gr. frv.:

„Öllum er heimilt að kynna sér skjöl í málum, sem eru eða hafa verið til meðferðar hjá stofnunum, sem nefndar eru í 1. gr., nema á annan veg sé mælt í þessum lögum eða öðrum.“

Undantekningar þær frá þessari meginreglu, sem finna má í frv., eru allar gerðar með það í huga að vernda hagsmuni einstaklinga eða þjóðfélagsins í heild. Þeim sjónarmiðum hefur verið vikið til hliðar sem lúta að því að losa einhverja einstaka stjórnsýsluhafa við óþægindi eða fyrirhöfn við að veita upplýsingar um mál. Undantekningar þessar eru allar rökstuddar í aths. við frv., svo að ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þær hér hverja fyrir sig. Ég vek þó athygli á því, að ekki hefur verið farin sú, leið, eins og í Danmörku, að taka upp almennt undantekningarákvæði með vísan til eðlis máls, heldur hefur verið tekinn sá kostur að telja upp sem ítarlegast allar þær undantekningar, sem nauðsynlegt hefur verið talið að lögfesta, og er reyndar að því leyti til fylgt sömu reglum og í fyrra frv., þó að það sætti þá nokkurri gagnrýni. En með þessu móti er reynt að girða fyrir það, að stjórnsýsluhafar reyni að skjóta sér undan því að veita tilteknar upplýsingar með því að bera fyrir sig eðli máls án nánari skýringar.

Þá er rétt að benda á það, að sum undantekningarákvæðin taka aðeins til ráðstafana af hálfu almannavalds sem fyrirhugaðar eru. Ákvæðin eiga því ekki við eftir að þessar ráðstafanir hafa verið gerðar. Þau undantekningarákvæði, sem e. t. v. kunna að verða umdeildust, eru ákvæði 4. tölul. 4. gr. og 2. tölul. 8. gr. frv.

Fyrra ákvæðið veitir stjórnvöldum heimild til að halda leyndum upplýsingum um mál, sem til rannsóknar eru, þar sem ætla má að lögbrot hafi verið framið, ef mikilvægir almannahagsmunir krefjast slíkrar leyndar. Þá getur verið mjög mikilvægt, að ekki sé skýrt frá slíkum málum meðan þau eru á frumstigi rannsóknar, hvort sem er hjá lögreglu eða öðrum stjórnvaldsstofnunum. Það kann að vera nauðsynlegt, bæði í þágu þess, sem rannsóknin beinist að, og eins til þess að rannsókn beri árangur.

Síðara ákvæðið veitir stjórnsýsluhöfum heimild til að halda leyndum vinnuskjölum starfsmanna stofnana og fyrirtækja í almannaeigu, svo sem minnisgreinum, frásögnum, skýrslum, uppköstum, tillögum og áætlunum. Þetta þýðir í stuttu máli, að almenningur á ekki aðgang að skjölum, sem einungis eru ætluð til afnota við afgreiðslu máls innan stofnunar eða fyrirtækis, nema sá forstöðumaður, sem í hlut á, samþykki það. Þetta er gert til þess að embættismenn eða aðrir starfsmenn stofnana eða fyrirtækja geti sett fram skoðanir sínar eða skýringar í rituðu máli án þess að eiga það á hættu að slíkt berist út. Ef þessi varnagli væri ekki sleginn, væri afleiðingin e. t. v. sú, að embættismenn eða aðrir starfsmenn kæmu skoðunum sínum á framfæri munnlega, en það gerði vinnubrögðin í stjórnsýslunni óvandaðri en nú tíðkast.

Flest, ef ekki öll undantekningarákvæði frv. eru þess eðlis, að þau þarf að skýra með hliðsjón af þeirri meginreglu sem fram kemur í 2. gr. frv. og þegar hefur verið gerð grein fyrir. Verður að skýra þessi undantekningarákvæði þröngt.

Í 12. og 13. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að forstöðumaður stofnunar eða fyrirtækis taki í fyrsta lagi ákvörðun um það, hvort upplýsingar séu veittar. Sá, sem einhverra hagsmuna hefur að gæta, getur skotið þeirri ákvörðun beint til þess ráðh. eða sveitarstjórnar sem stofnun eða fyrirtæki heyrir undir. Úrskurði sveitarstjórna má skjóta til félmrh. Kærustig verða samkv. þessu tvö innan stjórnsýslu ríkisins, en þrjú innan stjórnsýslu sveitarfélagsins. Það er auðvitað, eins og skýrt kemur fram í frv., viðkomandi ráðh. sem hér er um að ræða. Ég sá einhvers staðar skrifað að það væri félmrh. sem ætti að úrskurða um þetta, en slík ályktun er byggð á miklum mislestri eða á mjög mikilli ónákvæmni. Hins vegar er hann auðvitað eins settur og aðrir ráðh. að hann úrskurðar varðandi þær stofnanir, sem undir hann heyra, og svo sérstaklega varðandi sveitarstjórnirnar.

Það er nú svo, að ráðh. eru æðstu valdhafar stjórnsýslunnar hver á sínu sviði, þannig að ekki er hægt að kalla þá algerlega hlutlausa eða óháða þegar þeir taka afstöðu til ákvörðunar stjórnvaldshafa sem lægra eru settir. Því er nauðsynlegt eða a. m. k. æskilegt, að ráðh. hafi til hliðsjónar álit einhvers aðila, sem kalla mætti hlutlausan og óháðan, áður en hann sker endanlega úr því, hvort við beiðni um upplýsingar skuli orðið eða henni hafnað. Og í 13. gr. frv. er gert ráð fyrir slíku skipulagi. Er gert ráð fyrir því þar, að sett skuli á fót sérstök nefnd til þess að láta í ljós álit sitt áður en ráðh. kveður upp úrskurð sinn. Lagt er til að fimm menn eigi sæti í nefnd þessari, en aðeins þrír þeirra taki þátt í afgreiðslu máls máls hverju sinni. Hæstiréttur skipi oddamann hans, en Sþ. kjósi aðra nm. Oddamaður tilnefnir hverju sinni með sér tvo menn úr hópi hinna kjörnu nm. til að taka þátt í afgreiðslu máls, er nefndinni berst. Álit nefndarinnar sé aðeins til leiðbeiningar, en ekki bindandi fyrir ráðh. Á Norðurlöndum, þar sem umboðsmenn þjóðþinga hafa nú starfað um árabil, er álit þeirra á einstökum málum aðeins til leiðbeiningar, en ekki bindandi fyrir hlutaðeigandi stjórnvaldshafa. Engu að síður hafa álitsgerðir umboðsmanna haft afgerandi áhrif í þá átt að auka réttaröryggi og flýta fyrir málsmeðferð í stjórnsýslunni. Ég held að þau tilvik séu teljandi, þar sem ekki hefur verið farið eftir ábendingum eða tillögum umboðsmannanna.

Af ásettu ráði hafa ekki verið settar nákvæmar reglur um starfshætti nefndarinnar í frv. Þær á nefndin að móta sjálf, eftir því sem tilefni gefst. Sjálfsagt er að álitsgerðir hennar verði skriflegar og þær gefnar út t. d. árlega. Ég er ekki í neinum vafa um að ráðh. munu, er til kemur, fylgja álitsgerðum nefndarinnar, verði vel til þeirra vandað, og að það þurfi að standa alveg sérstaklega á ef ráðh. víkur frá því áliti sem fram kemur hjá nefndinni. En það, sem menn kunna að hafa að athuga við þetta skipulag, get ég vel ímyndað mér að verði það, að mönnum þyki þetta nokkuð umsvifamikið. En það er nú svo, að stundum getur verið erfitt að sameina þetta tvennt fullkomlega, að fyllsta réttaröryggis sé gætt og framkvæmdin sé þó hæfilega einföld í sniðum. Þótt ráðh. hafi kveðið upp úrskurð sinn er þó þeim, sem hlut eiga að máli, heimilt að skjóta slíkri ákvörðun til dómstóla. Þeir eiga þar með síðasta orðið, og skiptir þá eflaust miklu máli, hvort saman hefur farið álitsgerð nefndarinnar og úrskurður ráðh.

Að sjálfsögðu getur líka verið um álitamál að tefla, hvort það eigi ekki, þegar búið er um þetta með þessum hætti sem gert er í frv., að láta úrskurð ráðh. vera síðasta orðið eða hvort á að íþyngja dómstólum með því að þurfa að fjalla um slík mál. En það verður þá að gera ráð fyrir því, að það komi ekki til nema í algerum undantekningartilfellum og það sé um alveg sérstakt málefni að tefla, þannig að ég hygg að það komi ekki að sök þó þetta ákvæði sé, sem auðvitað tryggi hið besta réttaröryggi, en getur líka orðið til þess að seinka nokkuð endanlegri ákvörðun um það atriði sem um er að ræða.

Ég hef nú rætt nokkuð um almennan aðgang að upplýsingum hjá stofnunum eða fyrirtækjum í almannaeigu, en á hinn bóginn er ekki síður mikilvægur sá kafli frv., II. kafli, sem fjallar um aðgang einstakra málsaðila að slíkum upplýsingum. Eins og nú horfir, ríkir í mörgum tilfellum a. m. k. fullkomin réttaróvissa um það, hvaða rétt slíkir aðilar eigi á upplýsingum um mál, sem þá varðar, a. m. k. í þeim tilvikum þar sem settum lögum um þetta efni sleppir eða einstökum dreifðum lagaákvæðum í settum lögum. Ákvæði II. kafla frv. eiga að bæta úr þessari óvissu.

Í 9. gr. frv. segir, að aðilum máls sé heimilt að kynna sér skjöl og önnur gögn, nema hagsmunir þeirra af því að notfæra sér vitneskju úr þeim gögnum eigi að víkja fyrir ríkari almanna- eða einkahagsmunum. Ákvæði laganna um þagnarskyldu, hvort sem um er að ræða almenns eðlis eða sérgreind, takmarka ekki þennan rétt. Þetta þýðir m. ö. o. að aðilar máls gætu í langflestum tilfellum fengið að kanna skjöl og öll önnur gögn sem fyrir liggja í máli þeirra, önnur en vinnuskjöl starfsmanna þeirrar stofnunar sem máli hefur ráðið til lykta, sbr. það sem ég hef áður um það sagt.

Samkv. 10. gr. frv. á að fresta afgreiðslu máls, uns aðili hefur kynnt sér skjöl eða önnur gögn, nema sérstakir almanna- eða einkahagsmunir mæli gegn því.

Í 11. gr. er hlutaðeigandi stjórnvaldshafa gert skylt að vekja athygli aðila á því, að mál hans sé til umfjöllunar, nema ljóst sé að hann hafi fengið vitneskju um það fyrir fram. Aðili getur þá krafist þess að afgreiðslu máls sé frestað, uns hann hefur gert grein fyrir afstöðu sinni. Í þessu síðast nefnda ákvæði er gengið lengra en í dönsku upplýsingalögunum, sem einkum hafa verið höfð til hliðsjónar við samningu þessa frv., eins og áður er sagt. Í þeim lögum er aðila máls að vísu gefinn kostur á því að gera grein fyrir afstöðu sinni, áður en máli er ráðið til lykta. Lögin leggja hins vegar ekki þá skyldu á herðar hlutaðeigandi stjórnvaldshafa að tilkynna aðilum um það, að mál, er þá varði, séu til meðferðar eða umfjöllunar. Það er á hinn bóginn gert hæði í norsku og sænsku stjórnsýslulögunum. Að norskri og sænskri fyrirmynd er hér gert ráð fyrir slíkri tilkynningarskyldu í 1. mgr. 11. gr. frv. Ástæðan er sú, að til þess að aðili geti tjáð sig um efni máls verður hann að vita af því, að mál hans sé til meðferðar hjá stjórnvaldsstofnun. Tilkynningarskyldan á að tryggja að svo verði jafnan.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að ákvæði þessa frv. um aðgang málsaðila að upplýsingum eru stórt skref í þá átt að tryggja réttarstöðu einstaklinga gagnvart stjórnvöldum. Verði frv. að lögum má vænta þess, að fleiri fylgi á eftir, e. t. v. frv. að almennum stjórnsýslulögum, þar sem kveðið yrði á um málsmeðferð í stjórnsýslunni, fyrst og fremst með tilliti til réttar hins einstaka borgara gagnvart stjórnvöldum. Ég hygg að slíkt frv. sé nú í uppsiglingu í Danmörku, en stjórnsýslulög hafa, eins og fyrr hefur verið greint frá, verið sett fyrir nokkru bæði í Noregi og Svíþjóð. Það er skoðun mín, að samhliða stjórnsýslulögum væri eðlilegt að setja löggjöf um umboðsmann Alþingis, en að sjálfsögðu verður í því efni eins og öðru að hyggja að því, hvað best hentar aðstæðum hér á landi, og það má segja, að það efni sé fyrst og fremst fyrir Alþ. að eiga frumkvæði að og ákveða um.

Ég leyfi mér að vænta þess, að þetta frv., sem ég tel allmikilsvert, fái hér rækilega athugun, en jafnframt vil ég benda á, að ég tel það miklu skipta að löggjöf af þessu tagi sjái dagsins ljós fyrr en síðar.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri um frv., þó að e. t. v. megi segja að ég hafi ekki gert ítarlega grein fyrir öllum ákvæðum þess. En ég leyfi mér að vísa til þeirrar ítarlegu grg. sem frv. fylgir og samin er af höfundum þessa frv.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.