01.03.1978
Neðri deild: 63. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2717 í B-deild Alþingistíðinda. (1988)

203. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Sverrir Hermannsson:

Virðulegi forseti. Ég tek það fram í upphafi máls míns, að ég er gersamlega andvígur þessu frv. til laga sem hér er flutt af hv. þremur þm. Vestf.

Mikil umræða hefur farið fram um það á undanförnum árum, hvernig takast mætti að bjarga konungi fuglanna, eins og hann er nefndur, erninum, frá útrýmingu á Íslandi. Margir hafa þóst hafa fullvissu fyrir því, að ástæðan til þess, að arnarstofninum hnignar svo mjög, sé sú, að ýmsir varpbændur t. d. og fleiri hafi beitt, þrátt fyrir friðunarlögin, ólöglegum aðgerðum til þess að útrýma honum. Um þetta verður þó ekki fullyrt, en meðferð eitrunar fyrir refi t. d. hefur verið með þeim hætti, að vafalaust hefur orðið arnarstofninum til stórskaða. Og ástæðan til þess, að örninn er í hættu af þessum sökum, er sú, að hann er hrææta, sem má heita undantekning frá öðrum ránfuglum. Fálkinn er að þessu leyti ekki í hættu þar sem hann leggur sér ekki til munns annað en það sem hann drepur sjálfur eða í hæsta lagi fyndi blæðandi á vettvangi. En um þetta hefur verið löng umræða, með hvaða hætti mætti bjarga þessum virðulega fugli, og það hefur verið gert með því að fella inn í lög um fuglaveiðar og fuglafriðun algera friðun á þessari fuglategund.

Þetta frv. gengur í allt aðra átt. Þetta frv. fitjar upp á því að útrýma erninum, enda segir svo hér, að rn. sé heimilt að gripa til tafarlausra aðgerða til varnar viðkomandi æðarvarpi þrátt fyrir ákvæði 1. málsgr. 27. gr. laganna, væntanlega fuglafriðunarlaganna, án þess þó að erni verði eytt. En um hvað fjallar þessi 1. málsgr. 27. gr. laganna svo? Með leyfi forseta:

„Forðast skal að trufla fugla, sem friðunar njóta samkv. lögum þessum, við hreiður, svo að skaði geti hlotist af á eggjum þeirra eða ungum.“

Var furða þótt hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir tæki fram, að hún vildi fara með varúð gagnvart erninum. En þetta ákvæði í þessu nýja frv. verður ekki skilið á annan veg en þann, að hér sé lagt til, að það verði steypt undan honum, enda þótt það sé tekið fram, að ekki sé átt við að drepa fuglinn sjálfan. (Gripið fram í.) Það segir hér, að rn. sé skylt að fara að óskum hlutaðeigandi varpbónda, ef svo stendur á að örn ógnar æðarvarpi. Það er nú svo komið, að rn. á ekkert að hafa um það að segja til hvaða ráða gripið sé, heldur á að fara að kröfu hlutaðeigandi varpbónda og senda sérfræðing á vettvang, eins og hæstv. sjútvrh. talaði um, e. t. v. til að tala um fyrir erninum, að hann hætti þessari ósvinnu, eða hvaða aðferðir á að nota í þessu sambandi aðrar en þær að drepa fuglinn og koma í veg fyrir með þeim hætti að hann sæki í viðkomandi varp?

En svo er allt önnur saga, að fuglafræðingar telja að örn sé tiltölulega mjög skaðlítill í varpi. Hins vegar er veiðibjallan miklu meiri skaðvaldur og hrafninn einnig. Veiðibjöllunni fjölgar stöðugt, þrátt fyrir það að verðlaunað sé dráp á henni, og það væri miklu verðugra viðfangsefni til varnar æðarvarpi að hefjast handa um útrýmingu svartbaksins í miklu meiri mæli en orðið hefur. Það mundi bera miklu meiri árangur í þessu efni heldur en að ráðast að þessum örfáu fuglum, sem enn lifa af hinum fræga og verðmæta arnarstofni okkar.

Mér er alveg fullkunnugt um það, að flestir aðrir fuglar bera mikinn ótta og ugg í brjósti vegna arnarins. Hann má ekki sýna sig í návíst æðarvarps án þess að fuglinn sé flemtri sleginn. Þó finnst mér af þessum dæmum, sem nefnd eru hér, að nokkuð mikið sé gert úr því, en ég vil þó ekki þræta um þetta við hv. þm., því enn gerkunnugri er hann þeim aðförum heldur en ég, og hef þó séð þessa dæmi. En þótt varlega sé í sakir farið og dregið úr í hálfu orði, þá er ekki verið með þessu frv. að gildra til annars en þess að hefja aðför að þessum örfáu fuglum, sem við eigum eftir af þessum stofni, og slíkt kemur ekki til nokkurra mála. Ég hef haft í huga lagasmið þar sem enn væri reynt fremur en orðið er samkv. fuglafriðunarlögum og öðrum ráðstöfunum, sem gerðar eru, að hlífa þessum stofni og sjá svo um, að hann vaxi þarna upp.

Það er sannfæring mín að þessir örfáu fuglar, og þó þeir væru helmingi fleiri og fjórfalt fleiri, sem þeir þurfa að verða, hafa enga úrslitaþýðingu varðandi æðarvarp á Íslandi. Þar hafa svartbakurinn, veiðibjallan, og hrafninn miklu meira að segja, og það er að þeim óvini æðarvarpsins sem hv. þm. eiga að beina geiri sínum, en ekki þessum fugli okkar sem við þurfum að gæta eins og sjáaldurs auga okkar. Hvað verður um náttúruvernd og annað, sem menn hafa svo mjög í orði nú, ef eitthvað verður aðhafst til þess að þetta djásn úr fánu okkar hverfi?

Það er með nokkrum ólíkindum, að slíkt frv. sem þetta er borið fram. Ég hafði satt að segja ekki tekið eftir því, — líklega verið fjarverandi þegar það datt á borðin, — fyrr en hv. þm.

Sigurlaug Bjarnadóttir hóf að mæla fyrir því hér. Ég þarf ekki að ítreka andstöðu mína við þessa aðför að erninum, en þetta gefur mér tilefni til þess nú þegar að hefjast handa um samningu frv. þar sem enn frekari tilraunir verða gerðar til þess að fóstra örninn en hingað til hafa verið gerðar.