01.03.1978
Neðri deild: 63. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2720 í B-deild Alþingistíðinda. (1990)

203. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Friðjón Þórðarson:

Hæstv. forseti. Það er auðheyrt, að hinir tveir ágætu fuglar, örninn og æðarfuglinn, eiga formælendur hér í þingsalnum, og er það vel. Nú mun einhver styrjöld vera í uppsiglingu um örninn í vestureyjum Breiðafjarðar. Er þess svo sem jafnan að vænta, þar sem þessi fugl gerist fyrirferðarmikill.

Það var nokkuð rætt um hann hér á þingi fyrir nokkrum árum. Við vitum öll, að örninn er orðinn mjög fáliðaður hér á landi. Það eru aðeins örfáir fuglar til, svo það er eðlilegt að menn vilji ekki láta hann hverfa úr íslensku dýraríki. Það þótti tíðindum sæta, man ég var, þegar þrír ernir sáust í einu á flugi yfir Hvammsfirði fyrir nokkrum árum.

Það skal ekki dregið í efa, að örninn getur verið viss ógnvaldur í æðarvarpi. Um það hefur maður heyrt ýmsar sögur. En þarna þarf að fara að með friði og gát, því að vissulega hygg ég að við flest séum þannig þenkjandi, að við viljum hlúa að báðum þessum ágætu fuglum.

Á meðan tveir vígreifir þm. Vestf. eða af vestfirskum uppruna vígbúast nú og ræða um þessi mál vil ég aðeins minna á það, að hér á landi starfar fuglaverndunarfélag. Þar eru margir miklir áhugamenn um viðgang arnarins og líf hans. Í þessu félagi eru m. a. tveir kunnir læknar, Björn Guðbrandsson og Úlfar Þórðarson. Ég man eflir því, hér um árið, þegar þó nokkurt stríð varð um þessi mál á Breiðafirði sunnanverðum, þá komu þessir aðilar m. a. á vettvang. Þeir félagar höfðu samband við varpeigendur, skýrðu fyrir þeim málin, og mér er kunnugt um að þeir jafnvel bættu varpeigendum tjón sem þeir töldu sig hafa orðið fyrir af völdum arnarins.

Nú þykir mér ráð, á meðan frv. eru undirbúin á báða bóga til breyt. á fuglafriðunarlögum, að við hugum að því, hvort ekki er hægt, a. m. k. við undirbúning næstu fjárlaga, að hækka þann lága og lítilfjörlega styrk, sem þessir áhugamenn hafa, til þess að reyna að láta örninn lifa áfram í íslensku dýraríki. Mig minnir að fjárveitingin á fjárl. sé nú ekki nema nokkrir tugir þúsunda. Ég hygg að ef þessari fjárveitingu væri lyft nokkuð, þá gæti það auðveldað þessum ágætu áhugamönnum að vernda líf arnarins og gera jafnframt varpbændur að nokkru ánægða með einhverjum bótagreiðslum, þar sem um sannanlegt tjón af hálfu hans er að ræða.