01.03.1978
Neðri deild: 63. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2721 í B-deild Alþingistíðinda. (1991)

203. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Sverrir Hermannsson:

Virðulegi forseti. Eitthvað kann ég reyndar fyrir mér af miðilsfundum. Ef ég man rétt, þá kom fram á miðilsfundi skúr prestsins sem fauk í fyrra hjá Pétri Þríhross og var orðinu að höll á gullsúlum hinum megin. Svo að ýmis blómberanleg dæmi mætti rifja upp. En það kemur ekki þessu máli við.

Hv. þm. lagði áherslu á að þetta frv. væri flutt með sérstöku tilliti til verndunar varplanda í Breiðafjarðareyjum. Þó nú væri, þar sem örninn er hvergi finnanlegur lengur á þessu landi annars staðar en við Breiðafjörð, þannig að ástæðulaust er auðvitað að taka til fleiri byggðir en þar sem hann er að finna. (Gripið fram í.) Það finnst að vísu örn enn við Ísafjarðardjúp, þó hann sé miklu fágætari nú en í mínu ungdæmi. En einhvern veginn var það nú svo samt í „den tid“, meðan örn var daglegur gestur við Vigur og yfir Ögurvík, þá tvöfaldaði Vigurbóndinn dúntekjur sínar af Vigur. En aftur á móti er það staðreynd, að í landinu öllu og við Breiðafjörð, líklega vegna fólksfækkunar, og víðar hefur æðarvarpi hrakað. En hvernig stendur á því, að svo hefur orðið, þrátt fyrir það að erninum hefur stórfækkað sem raun ber vitni? Þar eru ekki tengsl á milli. Ástæðan fyrir því, að æðarvarpi hrakar, er veiðibjallan. Þetta hélt ég að væri löngu upplýst, og mér kemur sannarlega á óvart að þetta frv., árásarfrv. á örninn, skuli vera samið í samráði við dr. Finn Guðmundsson. Þó hef ég dæmi um það, að honum hefur skotist til að mynda í því, að hann hélt því einu sinni fram, að það hefði ekkert að segja upp á stærð rjúpnastofnsins, hvort skotið væri af honum eða ekki, og var þó víst veiðin um hálf milljón stykki það árið. Þessu trúi ég ekki, að það hafi ekkert að segja fyrir tveggja milljóna rjúpnastofn, hvort skotinn er 1/4 af honum eða ekki. En það hefur svo náttúrlega hver sínar kenningar um þetta, og hann er auðvitað miklu fróðari í þessu efni en ég.

Nú er sagt, að ekki sé með þessu verið að setja lög til höfuðs erninum. Hvers vegna er þá ákvæði í lagagr. frv. svo hljóðandi: Ráðuneytinu er þá heimilt að grípa til tafarlausra aðgerða til varnar viðkomandi æðarvarpi, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 27. gr. laganna um fuglaveiðar og fuglafriðun? Hvaða ráðstafanir eru það, sem sérfræðingurinn á að gera? Hann á að gera tillögur um hvernig koma megi í veg fyrir að örninn sæki í varpið. (Gripið fram í: Færa hann þá.) Það kann vel að vera, að það verði fenginn sérfræðingur í að skaka skellur að örnum vestur í Breiðafjarðareyjar. En ég veit hins vegar hvaða ráð menn hafa haft, þó í óleyfi sé, og það er að beita skotvopnum, og það hefur gefið besta raun fyrir utan eitrið, sem menn hafa lagt fyrir tófur að vísu, en orðið hefur erninum að fjörtjóni. Í þessu frv. eru skýlaus ákvæði um að það skuli vegið að erninum. Það fer ekkert á milli mála, enda væri það óþarft ella eins og meining þess öll er.

Ég tek undir það, að vel mætti athuga, og það ætla ég að taka til athugunar í samningu þess frv. sem ég þegar í stað tek höndum til við að semja vegna þessarar árásar til frekari varnar erninum, að taka þar með hækkaðar bætur til þeirra sem sannanlega verða fyrir tjóni af hálfu arnarins. Það má vel athuga. Eins þarf að stórhækka sektir, ef menn leyfa sér að brjóta lögin og með einhverjum hætti gildra til þess að erni fækkar. Allt þetta þarf að taka til athugunar. En það fer auðvitað ekkert á milli mála, að með þessu frv. er hafin ný aðför að erninum.

Síðasta málsgr. í grg. skiptir ekki máli í því sambandi, þótt fullyrt sé að með þessu móti væri tryggð betur en nú vernd arnarins. Þetta er auðvitað óskiljanlegt, ef borið er saman við sjálfa lagagr., sem tekur fram að það megi fara að hreiðri arnarins og væntanlega þá til þess að steypa undan honum, því að í 27. gr. laganna er tekið fram, að það skuli umgangast hreiður friðaðra fugla með varúð og forðast auðvitað að granda eggjum fuglanna. Til hvers á að fara að hreiðri? Í þessari grein segir, að rn. sé heimilt að gripa til tafarlausra aðgerða, þrátt fyrir þessa grein um vernd hreiðranna. Ég veit náttúrlega ekki um neitt öruggara ráð til þess að koma erninum fyrir kattarnef en að steypa undan honum eða hindra að hann fái sinnt hreiðri sínu. Ekkert ráð er auðvitað jafnöruggt.

Nei, þetta frv. á auðvitað að draga til baka og flytja annað frv. um stórárás á höfuðvarginn í æðarvarpslöndunum, sem er veiðibjallan, og eins mætti hafa hrafninn þar með, því þetta eru þeir fuglar sem skaðanum valda. Hitt eru hreinar undantekningar, og eftir því sem margir fræðimenn telja eru það úreltar kenningar að álita að örninn sé neinn skaðvaldur að marki í þessu efni, þar sem hann, eins og dæmin sanna, er miklu meira, eins og a. m. k. okkar stofn hefur samlagast landinu, hræfugl heldur en ránfugl.