01.03.1978
Neðri deild: 63. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2723 í B-deild Alþingistíðinda. (1992)

203. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Gunnlaugur Finnsson:

Hæstv. forseti. Ég er nú ekki vanur að taka hér langan tíma í ræðuhöld um einstök mál, svo ég skal reyna að ljúka mínu máli á þessum 7 mínútum sem virðast vera til umráða. Því miður þurfti ég að víkja mér frá og heyrði þess vegna ekki þegar hv. 1. flm. og frsm. flutti þetta mál hér, en ég kom hér aftur aðvífandi þegar hv. 3. þm. Austurl. var að tala um þetta frv., greinlega á mjög öðru máli. Hann tók hér upp mjög harðar varnir fyrir ránfuglinn, og hann vildi að við drægjum þetta frv. til baka, því það væri misskilningur, sem hér lægi á bak við, og það ætti að auka varnirnar.

Ég vil taka það alveg sérstaklega fram, að ætlun mín með þessu frv. er ekki að vega að arnarstofninum á Íslandi, og ég hygg að það sé ekki heldur svo varðandi samflm. mína. Einfalda staðreyndin er sú, að þetta frv. er flutt til þess að auka möguleika á að friða varplönd þegar sérstök tilvik koma upp. Ég veit ekki hvort það hefur komið fram áður í þessari umr., að fyrir allmörgum árum lá við auðn í Hvallátrum á Breiðafirði vegna ágangs arnar, og þarna hafa búið og búa löghlýðnir menn. Það tók fjöldamörg ár þegar farið var fram á skaðabætur, vegna þess að rn. taldi sig ekki hafa lög á bak við sig til þess að hafast neitt að, — tók fjöldamörg ár að standa í málaferlum, sem lauk svo með hæstaréttardómi og hreinum smánarbótum miðað við það tjón sem til langs tíma var unnið á varplöndum. Og þegar þær blikur dragast upp á loftið, að liggur við að undirstaða að byggð í heilu sveitarfélagi leggist af vegna kannske einna arnarhjóna, þá tel ég að þessi virðulegi og fagri ránfugl sé ekki svo friðhelgur, að ekki megi grípa til skyndilegra aðgerða. Það, sem að baki liggur þessum frv.-flutningi, er eingöngu það, að þegar slík tilvik koma upp, þá sé rn. fljótvirkara til aðgerða,það séu þegar fyrir hendi gögn varðandi hugsanlegar skaðabætur og það sé hugsanlegt með tafarlausum aðgerðum að venja örninn af því að verpa í miðju æðarvarpi.

Ég hef greinargóða lýsingu á því, hvernig þessar úreltu kenningar, sem hv. 3. þm. Austurl. var að tala um, eru í reynd, þegar bæði á s. l. vori og á næstsíðasta vori örn varp í úteyjum Skáleyja, hvernig afkoman var þar. Það var sem betur fer ekki fyrir aðgerðir viðkomandi ábúenda, að örninn flæmdist í burtu, því það vildi svo vel til, að þar var fuglafræðingur á ferðinni. Það hefur kannske verið rannsóknarstarf fuglafræðingsins sem olli því, að örninn fór í burtu, en svo mikið er víst, að það varð ekki stórfellt tjón á s. l. ári né heldur á árinu 1976. Það skortir þó allar heimildir og alla möguleika til þess að gripa til ráðstafana ef slíkt gerist, sem allar horfur eru á.

Hér er eingöngu um það að ræða, þegar vitnað er þarna til 1. mgr. 27. gr. laganna, að fara skal með friði og styggja ekki erni af hreiðrum, þá er eingöngu spurning um það, hvort heimilt sé að koma í veg fyrir að arnarhjón setjist um kyrrt, verpi ár eftir ár í varplöndum, komi þar upp nýjum stofni, sem sest að eða hvort hægt er að heina varpstöðvunum á ákveðna staði, þar sem ernir hafa fengið að vera í friði og þar sem þeir eiga að fá að vera í friði. Þess vegna held ég að það tjói ekki að vera með neinar meiningar um það, að hér sé verið að ráðast að þessari sjaldgæfu og fallegu fuglategund með útrýmingarsjónarmið í huga. Ég hafna slíkum getsökum algjörlega. Ég veit að þeir, sem eiga þarna við vandamál að stríða, eru sjálfir miklir náttúruunnendur og náttúruverndarmenn, og það er ekki aðför að erninum, sem fyrir þeim vakir, heldur að halda eðlilegu hlutfalli í náttúrunni.