10.10.1977
Sameinað þing: 1. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

Forseti Íslands setur þingið

Forseti Íslands Kristján Eldjárn:

Hinn 7. sept. s.l. var gefið út svofellt bréf:

„Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Ég hef ákveðið samkvæmt tillögu forsrh. að Alþingi skuli koma saman til fundar mánudaginn 10. okt. 1977.

Um leið og ég birti þetta, er öllum, sem setu eiga á Alþingi, boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur, og verður þá Alþingi sett að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni, sem hefst kl. 13.30.

Gjört í Reykjavík 7. sept. 1977.

Kristján Eldjárn

Geir Hallgrímsson.

Forsetabréf um að Alþ. skuli koma saman til fundar mánudaginn 10. okt. 1977 .“

Samkvæmt bréfi því, sem ég nú hef lesið, lýsi ég yfir því, að Alþingi Íslendinga er sett.

Vera má að það hafi frá upphafi verið skáldlegar ýkjur sem segir í Alþingisrímunum gömlu, að þjóðin öll mæni hingað til þessa húss meðan Alþingi situr að störfum. Þó eru næg dæmi sem sanna að löngum þótti það merkur viðburður á ársins hring að Alþingi væri sett og tæki til starfa. Oft er á það drepið á vorum dögum að nú sé af sem áður var og nú láti menn sér þvílík tíðindi í léttu rúmi liggja. Þegar betur er að gáð mun þó koma á daginn að þessu er síður en svo þannig farið. Rétt mun að vísu að fáir taki sig nú upp frá vinnu sinni og sæki á Austurvöll til þess að horfa á alþingismenn ganga fylktu liði milli dómkirkju og þinghúss, en það er ekki marktækur kvarði í þessu efni. Setningu Alþingis geta menn nú séð og heyrt heima hjá hjá sér að kvöldi dags. Mála sannast er að enn sem fyrri er því fullur gaumur gefinn þegar Alþingi kemur saman og þess beðið með vakandi huga sem þar gerist.

Fyrir nýju þingi liggja ætíð brýn úrlausnarefni sem alþjóð manna lætur sig miklu varða hvernig skipast, og áreiðanlega er það svo að þessu sinni. Enginn vafi er á að sú spurning knýr nú æ fastar á í huga alls þorra manna hvort og hvernig auðnast megi að stemma stigu fyrir hinni hamslausu verðþenslu sem vér búum nú við. Það er bersýnilegt að þetta vandamál veldur hugsandi mönnum sívaxandi áhyggjum og ugg, enda þykjast menn ekki sjá hvar endar, ef svo heldur fram sem verið hefur. Þetta er mál þjóðarinnar allrar og forsvarsmanna hennar á mörgum sviðum, og hætt er við að tvísýnt verði um veruleg umskipti til hins betra nema með sameiginlegu átaki margra aðila. Má þá nærri geta að svo margþætt viðfangsefni muni koma víða við sögu í störfum þess þings sem nú hefur göngu sína.

Ég nefndi hér áður setningu Alþingis, sjálfa athöfnina, og vildi nú bæta þar nokkrum orðum við, um hinn ytri búning hennar. Ég geri það að gefnu tilefni þótt ekki sé víst að þykja muni mikið mál. Þess varð vart í blaðaskrifum eftir síðustu þingsetningu, að setning löggjafarþings Íslendinga þætti daufleg og sviplítil athöfn. Á vorum dögum skrifa menn margt að því er virðist til þess að finna sér eitthvað til fremur en að þeim sé það alhugað. En ummælin um setningu Alþingis voru þannig til komin og að því er virtist af þeirri alvöru mælt, að mér finnst ekki rétt að láta þau með öllu sem vind um eyru þjóta. Annars mundi ég ekki gera þau að umtalsefni úr þessum ræðustól. Hugsanlegt er að þarna hafi verið mælt fyrir munn margra, og þess vegna er gaumur að því gefandi.

Ábending um lítilmótleika Alþingissetningar jafngildir ósk um breytingu, og þá það sem kalla mætti tilkomumeira form. Engin áþreifanleg tillaga hefur þó komið fram í þá átt. Vissulega mun vera hægt að benda á dæmi þess í öðrum löndum að þjóðþing séu sett með meiri viðhöfn en vér gerum. E.t.v. mætti taka eitthvað slíkt til fyrirmyndar, þótt raunar ætti ekki að vera ofverk sjálfra vor að ráða fram úr slíku. Þingsetningarathöfn vor einkennist af miklu látleysi, eins og fleira í erfðavenjum vorum, en á það má minna, að látleysi þarf ekki að vera hið sama og svipleysi og þaðan af síður hið sama og innihaldsleysi.

Ég vil vekja athygli á því, sem menn gera sér e.t.v. ekki nógu skýra grein fyrir, að tilhögun vor á setningu Alþingis er arfleifð til vor komin úr höndum margra kynslóða. Á þessu ári eru 122 ár síðan endurreist Alþingi var sett í fyrsta sinn hér í Reykjavík. Þeir, sem þá komu til þings, fundu mjög til þess að þeir voru að leggja hornstein að æðstu og merkustu stofnun þjóðarinnar. Þeir voru að leggja grundvöll, sem byggt yrði á og búið við af seinni tíma mönnum, m.a. að tilhögun og formsatriðum, eins og t.d. setningu þingsins. Við þingsetninguna mælti konungsfulltrúi á þessa leið:

„Næsta hátíðleg er þessi stund, nú þegar að því er komið að vér skulum setja Alþing. Vart mun það orð finnast, er hér á landi bæði rifji upp fyrir mönnum svo margar endurminningar fornaldarinnar og glæði svo margar vonir hins komandi tíma sem þetta eina orð: Alþing.“

Hvað var svo formið sem þessir fyrstu alþingismenn höfðu á setningu hins fyrsta þings hinn 1. júlí 1845? Það var út í æsar hið sama sem vér höfum enn á þessum degi. Þar hefur engin breyting á orðið nema þær einar sem óhjákvæmilega hefur leitt af stjórnarfarslegri stöðu landsins í tímans rás, að þeir menn hafa borið mismunandi embættisheiti sem lesið hafa fyrir þingheimi bréfið um samkomudag Alþingis og lýst yfir því að Alþingi væri sett. Sjaldnar en hitt hafa þessir menn talið sig þurfa eða eiga að láta brýningu eða boðskap til þings eða þjóðar fylgja máli sínu, og eru þess þó allmörg dæmi bæði fyrr og síðar, eins og eðlilegt er og tilhlýðilegt eftir atvikum á hverri tíð, en ekki sjálfsagt eða nauðsynlegt til hátíðabrigða einna saman. Ytri viðhöfn hefur aldrei nein verið, önnur en sú sem felst í kirkjugöngu og guðsþjónustu á undan þingsetningunni.

Kjarni þessa máls er sá, að Alþingi íslendinga hefur verið sett með sama formála og með sömu ytri umgerð í allri sögu sinni. Setning þingsins er eðlilegt og nauðsynlegt formsatriði, en um leið er hún táknræn athöfn. Umgerðin, í einfaldleika sínum, er ein af hefðum gamallar stofnunar. Og það er þessi langa hefð sem gefur jafnvel mjög fábrotinni og látlausri athöfn gildi og inntak, ef rétt er skilið. Þetta eru reyndar alþekkt sannindi úr sögu hæði veraldlegra og trúarlegra stofnana. Sumir fábreyttir siðir og forsagnir hafa ævarandi gildi innan sinnar menningarheildar, ekki vegna upprunalegs ágætis síns, heldur af því að þetta er venjuhelguð arfleifð viðkomandi þjóðar.

Alþingi er gömul stofnun, en á þó að vera síungt og endurnýjast með nýjum tímum, nýjum mönnum, nýjum viðhorfum og vinnubrögðum eftir nauðsyn og kröfu hvers tíma. En ræturnar eru og eiga að vera þær sömu og í upphafi var, og hefðir og tákn skerpa tilfinninguna fyrir þessu. Það form, sem vér höfum á setningu Alþingis, er ein af þessum gömlu rótum. Hana á að minni byggju ekki að rifa upp, heldur hlúa að henni. Ný viðhöfn, hver sem hún ætti að vera, gæti hæglega orðið innantóm eins og klingjandi bjalla, en venjuhelgað látleysi mun hins vegar, hér eftir sem hingað til, vel gefast til að minna á veg og vanda þessarar stofnunar og allra sem hér eiga sæti.

Ég flyt yður, hv. alþm., bestu óskir á þessum þingsetningardegi og læt þá von og trú í ljós, að störf yðar í þágu þjóðar vorrar takist eins farsællega og ég veit fyrir víst að vilji yðar stendur til.

Að svo mæltu bið ég þingheim að minnast fósturjarðar vorrar með því að rísa úr sætum.

[Þingmenn risu úr sætum og forsrh. Geir Hallgrímsson mælti: „Heill forseta vorum og fósturjörð — Ísland lifi: — Tóku þingmenn undir þau orð með ferföldu húrrahrópi.]

Samkvæmt 1. gr. þingskapa ber nú aldursforseta að stjórna fundi þar til kosning forseta sameinaðs Alþingis hefur farið fram, og bið ég aldursforseta, Guðlaug Gíslason, 3. þm. Suðurl., að ganga til forsetastóls.