02.03.1978
Sameinað þing: 51. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2729 í B-deild Alþingistíðinda. (2000)

197. mál, lifnaðarhættir æðarfugla

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu um þetta mál. Ég vildi aðeins þakka hv. flm. fyrir að bera það hér fram. Mér finnst það fyllilega tímabært, bæði frá menningarlegu og atvinnulegu sjónarmiði. Það er í rauninni undarlegt, jafnmikilvægur nytjafugl og jafnmikilvæg atvinnugrein og æðarvarp og æðarvarpsnytjar gætu verið, að engin nútímaleg vísindarannsókn skuli hafa verið gerð á lifnaðarháttum fuglsins. Ég minni á og bendi á, að bæði í þágu fiskveiða og einnig í þágu landbúnaðar almennt eru veittar álitlegar fjárfúlgur til rannsókna, og er ekkert nema gott um það að segja. En þessi búgrein, sem hefur farið illu heilli heldur hrakandi, að því er varðar æðarvarpið, hefur algerlega verið sett hjá. Þess vegna vil ég ítreka það sem kom fram hjá hv. frsm., að fyllilega er tímabært að þetta mál sé tekið til athugunar og rannsakað jafnframt með hverjum bætti við getum örvað æðarvarpið, hlúð að því og eytt þeim vágestum sem að því sækja. Ég þakka flm. fyrir og ég vænti þess, að framkvæmd málsins verði í þeim anda sem þessi till. er borin fram.