02.03.1978
Sameinað þing: 51. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2730 í B-deild Alþingistíðinda. (2002)

77. mál, sami kjördagur fyrir alþingis- og sveitarstjórnarkosningar

Flm. (Jón Skaftason) :

Herra forseti. Á þskj. 89 hef ég leyft mér að flytja till. til þál. um sama kjördag fyrir alþingis- og sveitarstjórnarkosningar. Sjálf tillgr. hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta athuga hvort ekki sé æskilegt, að reglulegar kosningar til Alþingis og sveitarstjórna fari fram samtímis.“

Þessi þáltill. er endurflutt nú á þessu þingi. Hún var flutt í fyrsta skiptið á síðasta þingi, en varð ekki afgreidd þá. Ég legg áherslu á, að ég hef flutt þetta mál í þál.-formi, en ekki í frv.- formi, eins og sumum kann að virðast liggja beinast við að flytja breytingar við gildandi lög um kosningar til Alþingis annar, vegar og gildandi lög um almennar sveitarstjórnarkosningar hins vegar. Þetta hef ég gert af ásettu ráði, vegna þess að mér er ljóst, að í sambandi við breytingu eins og þá, sem tillgr. gerir ráð fyrir, ef samþykkt yrði og framkvæmd, eru nokkur vandamál, sem koma til athugunar, og vafalaust þarf að breyta lögum að einhverju leyti, ef það yrði ráðið að samþykkja þessa breytingu.

Hugmynd mín að þessari þáltill. er komin frá því skipulagi sem Svíar hafa um kosningar, ekki einasta til þeirra þings, Riksdagens, og sveitarstjórnanna, heldur og líka til landsþinganna. Til þessara þriggja þinga, ef svo mætti kalla samkomur þessara stofnana, hefur síðan 1970 verið kosið samtímis og í einu lagi. Ég hef haft tækifæri til þess að ræða ítrekað við sænska stjórnmálamenn um reynslu Svía af þessari breytingu sem þeir gerðu árið 1970, og ég held að ég muni það rétt þegar ég staðhæfi að þeir eru mjög svo samdóma um að þessi breyting hafi orðið til hins betra, hún hafi ekki einasta haft í för með sér mikla minnkun á fjárhagskostnaði í sambandi við kosningar, heldur hafi hún líka gert það að verkum. að ófriður í kringum kosningar er minni og sjaldgæfari en áður var, meðan eldra fyrirkomulagi var fylgt og kosið til þessara þriggja þinga sérstaklega og út af fyrir sig á mismunandi tímum.

Hv. alþm. og aðrir vita um þá þróun sem hefur verið í landi okkar nú hina síðustu mánuði í sambandi við kosningar. Vegna mjög gallaðra kosningalaga og vegna háværrar kröfu, sem uppi er í þjóðfélaginu um aukinn rétt hins almenna kjósenda til þess að ráða meiru um það, hverjir skipi bekki Alþ., en þeir gera nú samkv. gildandi reglum um kosningar til Alþ.. þá hafa flokkarnir í æ auknum mæli efnt til svokallaðra forkosninga, þ. e. prófkjöra, skoðanakannana og hvað það nú heitir. Því hefur verið haldið fram í sambandi við þau fjölmörgu prófkjör og skoðanakannanir, sem farið hafa fram á árinn, að menn hafi getað labbað á milli flokka, ef svo mætti segja, og tekið þátt í prófkosningum hjá þremur flokkum. Ef ég tæki dæmið frá Reykjavík t. d., þar sem ég hygg að a. m. k. þrír flokkar hafi þegar efnt til forkosninga — bæði í sambandi við alþingiskosningarnar væntanlegu og sveitarstjórnarkosningarnar væntanlegu — og ef ég gef mér það, sem sennilega er talsvert til í, að nokkuð margir kjósendur hafi kosið í forkosningum allra þessara flokka, bæði til þingsins og sveitarstjórnanna, og litið er svo til þess, að sami kjósandi, sem þetta hefur gert, á væntanlega eftir að kjósa í sveitarstjórnarkosningunum í maí og í alþingiskosningunum í júní, ef þær fara fram á eðlilegum tíma, þá hefur þessi kjósandi tekið þátt í átta kosningum, prófkjörum og reglulegum kosningum. Allir hljóta að sjá, að slík framkvæmd á kosningum til Alþingis og til sveitarstjórna er ekki einasta allt of dýr og skapar of mikinn ófrið í þjóðfélaginu. Hún er líka til þess fallin að draga úr mikilvægi þeirrar athafnar að nota kosningaréttinn á ábyrgan og heiðarlegan hátt. Ég held því, að á þessu fyrirkomulagi, sem mér virðist sífellt hljóta að þróast í þessa óheillaátt að óbreyttum reglum um kosningar til Alþingis og sveitarstjórna, þurfi að gera breytingar sem komi í veg fyrir þetta.

Með þeirri þáltill., sem ég er hér að mæla fyrir, og með frv. til l., — sem ég hef líka flutt og áður talað fyrir og skal ekki fara út í að lýsa, — sem gerir ráð fyrir að prófkjör og reglulegar kosningar til Alþingis fari fram samtímis, er ég að leggja til að einfalda mjög þá athöfn sem fylgir því að nota rétt sinn til þess að kjósa þm. og fulltrúa í sveitarstjórnir. Ég tel að við breytingar eins og þær, sem ég er hér að lýsa, vinnist mjög margt. Ég skal ekki fara að rekja það núna. Ég hef komið að því áður, eins og ég sagði, og vil ekki lengja þingfund með því að fara frekar inn á það. En ég get hugsað mér að segja örfá orð um þá framkvæmd sem yrði, ef horfið yrði að þeirri reglu sem þáltill. þessi gerir ráð fyrir.

Ef kosið yrði samtímis til sveitarstjórna og Alþ., þá gæti ég hugsað mér að framkvæmdin yrði eitthvað svipuð því og nú er í Svíþjóð. Flokkarnir mundu bjóða fram lista til Alþ. og til sveitarstjórna og ekkert væri því til fyrirstöðu, að einn og sami maðurinn gæti verið bæði á framboðslistanum til Alþ. í því kjördæmi, sem hann býr í, og einnig á þeim framboðslista, sem er til sveitarstjórnarkjörs í því sveitarfélagi sem hann býr í. Framboðsfundir gætu að sjálfsögðu farið fram og færu fram sitt í hverju lagi, þannig að frambjóðendur til alþingiskosninga mundu efna til kjósendafunda í sínu kjördæmi og frambjóðendur til sveitarstjórna mundu efna til funda um sveitarstjórnarmálefni í því sveitarfélagi sem þeir búa í. Síðan yrði á sjálfan kjördaginn hátturinn sá, að kjósandi fengi afhenta tvo kjörseðla, annan kjörseðil til Alþ. og hinn kjörseðilinn til sveitarstjórna. Hann færi inn í kjörklefa og kysi þar eftir því sem hugur hans stendur til og síðan skilaði hann atkvæðaseðlunum í sinn hvorn kassann, annar kassinn yrði fyrir alþingiskosningar og hinn yrði fyrir sveitarstjórnarkosningarnar.

Ég fæ ekki séð að þessi breytta framkvæmd á kosningum til Alþ. og sveitarstjórna dragi á nokkurn minnsta hátt úr þeim lýðræðislegu réttindum, sem þjóðfélag okkar vill tryggja þegnunum til þess að hafa áhrif á skipan Alþ. og sveitarstjórna. Það er að mínu viti ekki hægt að færa minnstu rök fyrir því, að nokkur kjósandi í þessu landi tapi að nokkru leyti einhverjum þeim réttindum í þessum efnum, sem hann býr við við gildandi skipulag. Hitt er augljóst, að margt mundi vinnast við þessa breytingu. Kostnaður við kosningar mundi verða langtum langtum minni en hann er núna. Ófriður, sem gjarnan fylgir kosningabaráttu, mundi verða miklu minni en er í dag, og öll sú fyrirhöfn og þau leiðindi, sem nú eru fylgjandi margendurteknum prófkjörum flokkanna, mundu leggjast af.

Mér sýnist við fljóta athugun, að einn af kostum við samþykkt þessarar þáltill. sé sá, að hægt sé að framkvæma þessa breytingu án þess að stjórnarskrárbreyting þurfi til að koma. En það verður væntanlega athugað og rannsakað nánar í sambandi við þá alinennu athugun sem færi fram á efni málsins, ef till. þessi fengist samþykkt.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess, herra forseti, að fjölyrða öllu meira um efni þáltill. Hvort tveggja er, að ég hef áður mælt fyrir henni, þ. e. a. s. á síðasta þingi, og svo hitt, að henni fylgir nokkuð ítarleg grg., sem ég vísa til um frekari upplýsingar varðandi þetta mál. Ég legg því til, herra forseti, að umr. um till. verði nú frestað og henni vísað til hv. allshn.