02.03.1978
Sameinað þing: 51. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2740 í B-deild Alþingistíðinda. (2005)

80. mál, járnblendiverksmiðjan í Hvalfirði

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að rifja upp sögu þessa máls. Hv. síðasti ræðumaður sagðist ekki ætla að gera það, þó að hann gerði það einum 4–5 sinnum, svo að maður er nokkuð fróður um hana frá hans sjónarmiði. Ég ætla heldur ekki að fara að rifja það upp, hver hefur verið aðallærimeistari minn í þessum efnum og markaði upphaflega viðhorf mitt til þeirra mála. Ég hef gert það áður og sé ekki ástæðu til þess að gera það nú. En ég kvaddi mér hljóðs vegna þess að þó að ég sé ekki samþykkur þessari till., þá get ég fallist á viss atriði, sem komu fram í ræðu síðasta ræðumanns.

Ég er ekki eins og hann vantrúaður á það, að þetta fyrirtæki reynist sæmilega arðvænlegt til langframa. Ég viðurkenni að sjálfsögðu að það er kreppa í stáliðnaðinum og það getur orðið svo næstu árin, en ég efa það ekki, að stáliðnaðurinn á eftir að rétta við. Þetta er það sem kemur fyrir í öllum iðngreinum, að stundum gengur vel og stundum illa, og það hefur átt við stáliðnaðinn á undanförnum áratugum. Ég man eftir því, að þegar minn aðallærimeistari í þessum efnum, Magnús Kjartansson, var að ræða þessi mál við mig og fleiri, þá gerði hann sér fulla grein fyrir þessu, að það gæti komið fyrir ár og tímar þegar væri halli á stáliðnaðinum, en svo mundi hann rétta við aftur og þess vegna væri hægt að treysta á þetta fyrirtæki sem öruggt fyrirtæki miðað við langan tíma.

Hitt er hins vegar það, að það er fyrirsjáanlegt að þessi kreppa í stáliðnaðinum muni standa kannske 2–3 ár enn eða jafnvel lengur. Því finnst mér ástæða til þess að athuga, hvort það eigi að leggja eins mikla áherslu á framkvæmdahraða á Grundartanga og hefur verið gert. Það hygg ég að sé fyrirsjáanlegt, ef haldið verður áfram með fullum framkvæmdahraða við þessa verksmiðju, að hún muni sennilega verða rekin með halla allra fyrstu árin. Þess vegna finnst mér, að það komi mjög til athugunar, hvort ekki sé hyggilegt undir þessum kringumstæðum að draga eitthvað úr framkvæmdahraðanum, sem nú er, og dreifa uppbyggingu þessa fyrirtækis yfir lengri tíma. Ég skal hins vegar ekki segja um það á þessu stigi, hvaða möguleiki er á að breyta þarna til um framkvæmdahraðann eða draga úr honum. Það kann að vera að við séum þannig samningsbundnir við erlenda aðila, að þetta sé ekki framkvæmanlegt, eða einhverjar aðrar tæknilegar ástæður séu þarna í veginum, en mér finnst full ástæða til að þetta verði athugað. Ég álít að þessi athugun ætti að fara fram í þeirri n., sem fær þetta mál til meðferðar hér í þinginu, það sé óþarfi að skipa nýja nefnd til þess að láta fara fram athugun á þessu máli. Það er líka alveg rétt, sem kom fram í ræðu síðasta ræðumanns, að ef hægt væri að hægja á framkvæmdahraðanum á Grundartanga, þá mætti líka draga úr framkvæmdaáætlun Hrauneyjafossvirkjunar, þannig að okkur lægi ekki eins mikið á henni og ella, ef járnblendiverksmiðjan á Grundartanga tæki seinna til starfa en nú er gert ráð fyrir.

Nú er öllum þm. kunnugt, að fjárfesting er helst til mikil í landinu. Það var tekið nokkurt tillit til þess í sambandi við afgreiðslu fjárl. og ríkisstj. hefur í sambandi við þau efnahagslög, sem nýlega hafa verið samþykkt hér í þinginu, gert grein fyrir skoðunum sínum um það, að enn meira þurfi að draga úr fjárfestingu. Mér finnst undir þeim kringumstæðum, þegar þannig er ástatt að það þarf að draga úr fjárfestingu, að það eigi helst að koma niður á stórum verkefnum, sem hægt er að fresta, eins og t. d. ef væri hægt að draga úr framkvæmdahraðanum við járnblendiverksmiðjuna og eins að fresta framkvæmd við Hrauneyjafossvirkjun um eitt eða tvö ár. Ég held að það sé miklu betri aðferð við að draga úr fjárfestingu að fresta eða draga úr framkvæmdahraða slíkra stórframkvæmda heldur en að vera að skera niður vegarspotta og hafnarbætur víðs vegar um landið, það komi almennt miklu betur niður að fara þá niðurskurðarleiðina að hægja á stórframkvæmdum en hina, að draga úr almennum framkvæmdum sem eru á fjárlögum.

Mín skoðun er sú, að það sé rétt. Þó að ég sé ekki sammála hv. flm. þessa máls, álít ég rétt að athuga það, hvort ekki sé ástæða til, vegna þess útlits sem nú er í stáliðnaðarmálunum, að hægja á framkvæmdahraðanum við Grundartangaverksmiðjuna, ef það er talið mögulegt vegna samninga og annarra aðstæðna, og að sá niðurskurður á framkvæmdum, sem er talinn nauðsynlegur, verði frekar látinn beinast að slíkum stórverkefnum heldur en að skera niður aðkallandi minni framkvæmdir víðs vegar um landið.