06.03.1978
Efri deild: 68. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2749 í B-deild Alþingistíðinda. (2008)

187. mál, lögréttulög

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta frv. til lögréttulaga er eitt þeirra frv. sem svo kölluð réttarfarsnefnd hefur samið, en réttarfarsnefnd var skipuð 6. okt. 1972. Í nefndinni áttu sæti og eiga sæti enn Björn Sveinbjörnsson þáv. hæstaréttarlögmaður, en núv. hæstaréttardómari, sem er formaður nefndarinnar, Björn Fr. Björnsson fyrrverandi sýslumaður, sem þá var formaður Dómarafélagsins, að ég ætla, Sigurgeir Jónsson bæjarfógeti og Þór Vilhjálmsson þáv. prófessor, nú hæstaréttardómari. Verkefni nefndarinnar var samkvæmt skipunarbréfi að endurskoða dómstólakerfi landsins og kanna og gera till. um hvernig breyta mætti reglum um málsmeðferð í héraði til þess að afgreiðsla mála verði hraðari. Skipun þessarar nefndar átti sér því stað alllöngu áður en sá mikli stormur var vakinn, sem siðar átti sér stað um meðferð dómstóla og atriði sem að því lúta.

Þessi réttarfarsnefnd hefur samið nokkur frv. um réttarfarsmálefni. Sum þeirra hafa náð fram að ganga, en önnur ekki. Þetta frv. til lögréttulaga hefur tvisvar áður verið lagt fyrir þessa hv. d. Fyrst var það lagt fram rétt fyrir þinglok og þá til sýnis og til þess að þm. gæfist kostur á að athuga það á milli þinga, en umræða fór þá ekki fram um það. Það var síðan lagt fyrir Alþ. í fyrra. Þá fór fram 1. umr. um málið og því var vísað til n., en síðan var það svo ekki fyrir tekið aftur.

Þetta frv. gerir ráð fyrir allviðamiklum breytingum á dómstólaskipun landsins, þ. e. a. s. að gert er ráð fyrir því, að þar bætist við eitt dómstig, svokallaðar lögréttur: lögrétta norðan og austan. sem á að hafa aðsetur á Akureyri, og lögrétta sunnan og vestan, sem á að hafa aðsetur hér í Reykjavík. Þó að það sé þannig gert ráð fyrir því, dómstig verði þrjú, þá er jafnframt gert ráð fyrir því, að í hverju máli fyrir sig verði dómstig aðeins tvö, að hvert mál geti ekki fremur hér eftir en hingað til farið nema um tvö dómstig. En fyrir þessum nýju dómstólum, lögréttum, getur hvort tveggja átt sér stað, að fyrir þeim verði mál höfðað sem fyrsta dómstigi, og í öðru lagi, að þær geti starfað sem annað dómstig, þannig að til þeirra megi skjóta málum sem dæmd hafa verið í héraðsdómi.

Það er gert ráð fyrir því, að það séu skipaðir 15 lögréttudómarar, hér í Reykjavík, eins og er orðað í frv., ekki færri en 12 og á Akureyri 3. Þó er gert ráð fyrir því í bráðabirgðaákvæði, að það verði nokkur tímafrestur á því, að skipun allra þessara dómara í Reykjavík komi til framkvæmda.

Þó að málið væri ekki mikið rætt á Alþ. í fyrra, þá hafði maður það á tilfinningunni af tali manna, að það, sem mönnum þætti helst athugavert við þetta frv., væri að því fylgdi verulegur kostnaðarauki. Ekki er ástæða til að draga fjöður yfir það, að af þessu frv. mundi leiða talsverðan kostnaðarauka. M. a. af þessari ástæðu fól ég réttarfarsnefnd að taka frv. til meðferðar á s. l. sumri og til endurskoðunar og athuga hvort væri ekki hægt að skipa málum samkv. því þannig, að þessi kostnaðarauki yrði nokkru minni. Réttarfarsnefnd fór yfir frv. og skilaði því frá sér í því formi sem það nú er lagt fyrir þessa hv. d. Nefndin hefur gert þá breyt. á frv., að í stað þess að samkvæmt eldra frv. var ætið gert ráð fyrir því, að lögrétta starfaði sem fjölskipaður dómur, þriggja manna dómur, þá er gert ráð fyrir því, að meginreglan nú verði sú, að þegar lögrétta dæmir mál sem fyrsta dómstig, þá starfi þar aðeins einn dómari. Það geta verið frávik frá þessari reglu, þannig að dómur geti verið fjölskipaður á fyrsta dómstigi, en þetta er aðalreglan. Þetta ætti að sjálfsögðu að leiða til þess, að minni kostnaðarauki yrði af þessu frv. og þeirri skipan, sem gert er ráð fyrir að sé tekin upp með því, heldur en með því fyrirkomulagi sem gert var ráð fyrir í eldra frv. Ég vænti þess, að þetta geti orðið til þess að greiða fyrir framgangi málsins.

Ég mælti allítarlega fyrir þessu frv. í fyrra, þegar það var lagt fram, og gerði grein fyrir þeim ástæðum sem liggja til þess, að lagt er til að þessi skipan sé upp tekin. Sé ég nú ekki ástæðu til að endurtaka það hér svo mjög. Það er svo, að í sambandi við nútímahugmyndir um réttarfar er gert ráð fyrir því, að dómarar hafi ekki með höndum önnur störf en dómsstörf. Þessu hefur alla tíð verið annan veg farið hér hjá okkur þegar um er að ræða dómsstörf í héraði, þar sem þeir embættismenn, sem fara með þau mál þar, sýslumenn og bæjarfógetar, hafa jafnframt með höndum umfangsmikil stjórnsýslustörf. Það er frá réttaröryggissjónarmiði sjálfsagt margt sem mælir með því, að það verði skilið að fullu og öllu á milli dómsvalds og framkvæmdavalds, en það hefur ekki þótt fært að stíga það skerf í einu hér á landi. Sú embættaskipan, sem um er að tefla, og sú umdæmaskipting, sem til grundvallar liggur, er rótgróin. Má ætla að það mætti nokkurri mótspyrnu ef hverfa ætti frá henni. Náttúrlega má segja að reynslan af því að hafa þessi störf hjá einum og sama embættismanni, eins og verið hefur hér á landi, sé að mínum dómi ekkert sérstaklega slæm. En hitt er auðvitað til bóta, að skilja þarna á milli, og í samræmi við nútímahugmyndir um það efni.

Í þessu frv. er farin eins konar millileið. Hin gamla umdæmaskipting er látin halda sér. Þeir embættismenn, sem þar sitja og starfa, eiga að halda áfram að starfa og sinna bæði stjórnsýslustörfum og dómsstörfum eins og áður, en það ern settir þarna inn nýir dómstólar sem eiga ekki að hafa önnur störf með höndum en dómsstörf, þessar lögréttur. Og með þessu er stigið skref í þá átt að skilja að framkvæmdavald og dómsvald. Gæti vel verið að þetta yrði áfangi á þeirri leið að gera þarna fullan aðskilnað á milli síðar meir ef mönnum þætti reynslan af þessari skipan góð. Enn fremur er auðvitað, og það er e. t. v. meginætlunin með þessari skipan og þeim breytingum á málsmeðferð í héraði, sem ákvæði eru um í öðru frv., sem var lagt fram sem fylgifrv. með þessu frv. og hefur annaðhvort verið lagt fram nú þegar eða er a. m. k. alveg á næstu grösum, að flýta fyrir afgreiðslu dómsmála og reyna að ráða bót á þeim seinagangi sem þar hefur á verið og gagnrýni hefur sætt og það með réttu.

Með þessari skipan, þessum nýju dómstólum, og svo þeirri breytingu á málsmeðferðinni í héraði, sem gert er ráð fyrir í áðurnefndu frv., er ætlunin að meðferð mála verði hraðari. Það hefur raunar verið gert nokkuð að því að reyna með ýmsum hætti að ýta á hraðari meðferð dómsmála að undanförnu, og má ætla að það hafi tekist að gera þar á talsverðar umbætur í héraði. En þá hefur það sýnt sig, að hætt er við að það mundi myndast flöskuháls annars staðar, þá hafi Hæstiréttur ekki undan í þeim málum sem til hans er skotið. En fram undir þetta má segja, að ekki hafi verið verulegur dráttur, óeðlilegur dráttur á afgreiðslu mála hjá Hæstarétti. Enn er það svo, að Hæstiréttur reynir að afgreiða opinber mál eftir því sem þau eru tilbúin til flutnings hjá honum. Hins vegar liggur það mikið fyrir af einkamálum hjá honum, að segja má að þar sé fyrirsjáanlegur upp undir árs dráttur frá því að slíkt einkamál er tilbúið til flutnings í Hæstarétti og þangað til málflutningur getur farið fram. Það er þess vegna fyrirsjáanlegt að mikil þörf er á því að létta störfum af Hæstarétti. Ef sú skipan yrði lögtekin, sem hér er gert ráð fyrir, þá má ætla að lögréttan yrði síðasta stigið í ýmsum þeim málum, sem nú er skotið til Hæstaréttar, og mundi þannig draga úr þeim málafjölda sem áfrýjað er til æðsta dómstigsins. Ef ekki verður hægt að ráða bót á þessu fyrirsjáanlega vandamáli með þessum hætti, þá sé ég ekki annað en að það hljóti að koma til innan tíiðar, að talið verði óhjákvæmilegt að fjölga hæstaréttardómurum, þannig að Hæstiréttur geti starfað alveg í tveimur deildum.

Ég held að það sé stígið mjög mikilvægt skref með þessu frv., ef að lögum verður, bæði í átt til aukins réttaröryggis og til þess að hraða málsmeðferð. Það eru í þessu frv. ýmis ákvæði, sem ekki eru í gildandi lögum. Ég vil aðeins leyfa mér að vekja athygli á t. d. 57. gr., sem er algert nýmæli. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„1) Forsetar lögréttnanna hlutast til um að samdar séu ársskýrslur um starfsemi lögréttna landsins. Dómsmrh. skal kveða á um gerð skýrslnanna í reglugerð, eftir að leitað hefur verið umsagna lögréttnanna og Hagstofu Íslands.

2) Forsetar lögréttnanna hlutast til um, að dómsmrh. og allshn. Alþ. séu gefnar skýrslur um starfsemi lögréttnanna og einstök dómsmál, sem þær fjalla um eða hafa fjallað um, ef þessir aðilar beiðast slíkra upplýsinga.

3) Dómsmrh. er heimilt að gefa út eða semja við aðra um að gefa út árbækur lögréttnanna, þar sem m. a. má birta dóma, sem þykja hafa sérstaka þýðingu, ásamt öðrum upplýsingum um mál, svo sem gerðardómsmeðferð, og skýringar á dómum.“

Þetta er að sjálfsögðu nokkuð hliðstætt því, sem nú gildir um hæstaréttardóma, að þeir eru gefnir út. Ég held að slík birting og skýrslugerð, sem hér er gert ráð fyrir, geti verið til mikilla bóta, bæði almennt þannig að almenningur og þeir, sem sýsla með þessi mál, geti fengið leiðbeiningu í slíkum dómum, en auk þessi geti slík skýrslugjöf og birting verið til þess að skapa meira aðhald í þessum málum en ella og gefa þá Alþ. færi á að fylgjast betur með í þessum málum en það hefur átt kost á eða gert hingað til.

Það er að sjálfsögðu svo, að það eru mörg önnur nýmæli og algjör nýmæli í þessu frv., en ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til þess að rekja það nánar hér, þar sem ég gerði það nokkuð í framsöguræðu minni í þessari hv. d. á Alþ. í fyrra. Auk þess fylgir frv. mjög ítarleg grg., þar sem margvíslegan fróðleik er að finna og skýringar á einstökum greinum.

Ég leyfi mér sem sagt að vænta góðra undirtekta í þessu máli og vænti þess, að þetta frv. nái fram að ganga. Það er ekki nóg að gagnrýna meðferð dómsmála, og þó að það sé með réttu, heldur verða menn þá að vera við því búnir að gera þær endurbætur, sem þörf er á, þegar að því kemur að gerðar eru till. um slíkar endurbætur. Og má þá ekki horfa í það, þó að það kosti nokkra fjármuni.

Eins og ég hef áður drepið á, þá var annað frv. fylgifrv. með þessu frv., frv. til laga um breyt. á lögum um meðferð einkamála í héraði. Það frv. hefur einnig verið rannsakað í sumar af réttarfarsnefnd og verður lagt fram og tekið til meðferðar hér innan tíðar. Það má segja að eftir sem áður sé það fylgifrv. með þessu frv., sem hér liggur fyrir, en þó hafa verið gerðar á því þær breytingar, eins og koma mun í ljós þegar mælt verður fyrir því, að hægt á að vera að afgreiða það sérstaklega og án tillits til þess, hvort hv. d. eða hv. alþm. vilja fallast á þetta frv. um nýskipan dómstólanna eða ekki.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að æskja þess, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og til hv. allshn.