07.03.1978
Sameinað þing: 52. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2773 í B-deild Alþingistíðinda. (2021)

53. mál, innlend fóðurbætisframleiðsla

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Það er rétt sem hv. fyrirspyrjandi sagði, þetta svar hefur dregist mjög á langinn. Ástæðan var m. a. sú, að þegar það kom til mín upphaflega taldi ég það ófullnægjandi og óskaði eftir því að fá gleggra svar og betri grg. en þá kom fram. Þetta liggur nú fyrir. Ég mun nú lesa grg. sjálfa, en auk þess eru hér fskj. yfir tilraunir þær, sem gerðar hafa verið, sem verið er að útbýta nú meðal hv. þm. En grg. er svohljóðandi :

„Síðan grasmjöls- og graskögglaframleiðsla hófst hér á landi fyrir 12–15 árum hefur áhugi manna á þessari framleiðsluvöru verið töluverður. Þetta á bæði við um bændur og raunsóknamenn. Margar rannsóknir hafa verið gerðar á efnasamsetningu grasköggla og auk þess þó nokkuð margar fóðrunartilraunir með búfé. Hjálagt fylgir yfirlit yfir þær tilraunir, sem gerðar hafa verið með grasköggla í fóðrun búfjár.

Hér á eftir verður gerð örstutt grein fyrir helstu niðurstöðum rannsókna og tilranna eins og þær liggja fyrir nú:

1. Á vegum fóðureftirlitsins hafa mörg hundruð sýni grasköggla verið efnagreind og meltanleiki þeirra ákvarðaður. Samkvæmt þeim rannsóknum er meðalfóðurgildi 11/2 kg köggla í fóðureiningu. En skylt er að geta þess, að mjög mikill breytileiki er í kögglunum og er engan veginn unnt að tala um staðlaða vöru. Samkv. þessum rannsóknum getur fóðurgildi sveiflast frá 1.2 kg í fóðureiningu upp í 1.9–2 kg í fóðureiningu.

2. Meltanleiki graskögglanna hefur verið ákvarðaður í glervömb. Yfirgripsmiklar samanburðarrannsóknir á meltanleika í glervömb og í dýrum hafa gefið sömu niðurstöður.

3. Rannsakað hefur verið, hvort meltanleiki grasköggla og heys breytist ef það væri gefið saman. Rannsóknin leiddi í ljós, að mismunandi hlutföll virðast ekki hafa áhrif á meltanleika fóðurefnanna hvors um sig.

4. Graskögglar í fengieldistilraunum með sauðfé hafa gefið sambærilega frjósemi og sama magn af kjarnfóðri, bæði með þurrhey og vothey sem grunnfóður.

5. Allmargar fóðrunartilraunir með grasköggla hafa verið framkvæmdar á nautgripum. Í mörgum þessum tilraunum hefur fóðurgildi kögglanna reynst betra en reiknað fóðurgildi eftir glermagaákvörðun. Í sumum tilraunum með mjólkurkýr hafa fitubættir kögglar gefið sömu nyt og sama magn af kjarnfóðri. Í tilraunum með holdakálfa hafa fitublandaðir graskögglar gefið sama þyngdarauka og sama magn af kjarnfóðri.

Samandregið mætti segja, að graskögglar geti verið jafngildir kjarnfóðri handa sauðfé og nautgripum ef þeir eru gerðir úr úrvalshráefni. Aftur á móti verður að undirstrika, að þeir geta verið mjög breytilegir að gæðum.“

Þetta svar tel ég vera tæmandi, og fylgir hér svo skýrsla um tilraunir þær sem gerðar hafa verið. Verður henni útbýtt til hv. þm.