07.03.1978
Sameinað þing: 52. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2780 í B-deild Alþingistíðinda. (2032)

350. mál, viðsræður við Ísal hf.

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson) :

Herra forseti. Í umr., sem urðu um Blönduvirkjun fyrr á þessu ári, upplýsti hæstv. iðnrh. að stefnt væri að því, að Hrauneyjafossvirkjun yrði tilbúin 1982 og mundi verða fullnýtt 1986 án sérstakrar stóriðju í tengslum við hana. Nú er það kunnugt, að á undanförnum missirum hafa farið fram viðræður milli ÍSALs hf. og opinberra aðila um það, að álbræðslan yrði stækkuð eða bætt við hana svonefndum þriðja áfanga. En til þess að svo gæti orðið þyrfti hún aukna orku, og var þá fjallað um það, að þessa orku fengi hún frá væntanlegri Hrauneyjafossvirkjun.

Mér sýnist á þeim upplýsingum, sem hæstv. iðnrh. gaf hér við umr. um Blönduvirkjun — þ. e. að Hrauneyjafossvirkjun mundi ekki endast nema í 4 ár — að þá sé það hreint óráð að hverfa að því ráði að selja eitthvað af orkunni þaðan til stórvirkjunar. Þess vegna hef ég borið fram þessa fyrirspurn, hvort það séu nokkrar horfur á að samið verði við ÍSAL hf. um sölu á orku frá Hrauneyjafossvirkjun vegna ráðgerðrar stækkunar álbræðslunnar.