07.03.1978
Sameinað þing: 53. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2783 í B-deild Alþingistíðinda. (2041)

83. mál, raforkusala á framleiðslukostnaðarverði til stóriðju

Flm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Við hv. 1. þm. Norðurl. e. höfum leyft okkur að flytja till. til þál. svo hljóðandi, um raforkusölu á framleiðslukostnaðarverði til stóriðju:

Alþ. ályktar að kjósa 7 manna nefnd sem fái það verkefni að semja og leggja fyrir Alþ. frv. til laga um raforkusölu til orkufreks iðnaðar. Frv. þetta móti reglur er tryggi að ætíð verði greitt a. m. k. meðalframleiðslukostnaðarverð heildarframleiðslu raforku í landinu, þannig að öruggt sé að Íslendingar þurfi aldrei að greiða niður orkuverð til orkufreks iðnaðar.

Trygging þessi sé þannig úr garði gerð, að verðlag raforku sé endurskoðað árlega og raforkusölusamningar leiðréttir. Þá verði óheimilt að gera raforkusölusamninga til langs tíma.

Einnig verði unnið að því að breyta þeim orkusölusamningum, er þegar hafa verið gerðir, til samræmis við þessar meginreglur svo fljótt sem unnt er.“

Það hefur ýmislegt tekist vel hjá hæstv. ríkisstj., en annað hefur tekist miður. Reynslan af störfum hennar kemur óðum í ljós, og það er öðru mikilvægara að hafa vilja til þess að læra af reynslunni, bæði til eftirbreytni, þegar vel er gert og þá að halda áfram á sömu braut, en ekki síður, þegar mistök hafa verið gerð, að varast að þau endurtaki sig. Það er ekki sanngjarnt að heimta að allt gangi alltaf vel, en það er óviðunandi að sætta sig við það sem illa gengur. Því verður að kippa í lag.

Raunir þessarar ríkisstj. hafa einkum verið á sviði efnahagsmála og talsverður þáttur þess felst í einni setningu í stuttum stjórnarsáttmála. Ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar gerði langan og bjartsýnan stjórnarsáttmála, ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar gerði stuttan stjórnarsáttmála, en þó var þar einni setningu ofaukið, að orkumál skyldu hafa forgang. Þetta orðalag hefur í reyndinni orðið til þess, að ekki hefur tekist nægilega vel til. Það er óskynsamlegt að gefa einu rn. forgangsaðstöðu í sameiginlegan sjóð landsmanna, hvað þá forgangsaðstöðu til skuldasöfnunar erlendis. Það er líka óskynsamlegt að skrifa undir ávísun og láta aðra um að fylla hana út.

Orkumál eru mjög mikilvægur málaflokkur og nútímaþjóðfélag þarf á mikilli orkuöflun að halda. Lífshættir íslensku þjóðarinnar eru slíkir og náttúrufar landsins þannig, að við verðum að afla mikillar orku, en við þurfum að nota hana skynsamlega. Það hefur margt tekist mjög vel til í orkumálum á þessu kjörtímabili. Hitaveitur hafa komið upp og hafa verið reistar og stórkostlegur sparnaður vegna minnkandi olíunotkunar. Samtengingu landsins með raflinum hefur einnig miðað nokkuð, og er mér efst í huga byggðalínan. Annað hefur tekist miður, miklu miður, bæði hvað varðar allt of öra fjárfestingu, óðagot í framkvæmdum, misheppnaðan undirbúning sumra verka og síðast, en ekki síst í nokkrum tilfellum mjög óskynsamlega ráðstöfun á tiltækri orku.

Auðvitað þarf að virkja og það var nauðsynlegt að hefja undirbúning að beislun jarðgufu til rafmagnsframleiðslu, m. a. vegna þess að við þurfum að vita hvort hún er nýtanleg. Ágiskun um nýtanlega orku til rafmagnsframleiðslu er á þá leið, að 1/3 gæti fengist úr vatnsafli og 2/3 úr jarðhita, og ef jarðhitavirkjanir væru mjög miklum annmörkum háðar, þá þarf að halda margfalt sparlegar á vatnsaflinu og hugsa vandlega til framtíðarinnar.

Framkvæmdahraði við stórframkvæmdir hefur einnig stundum keyrt langt úr hófi. Tímaskriftir við Sigöldu voru bara forsmekkurinn og þess finnast dæmi, að heilu vinnuflokkarnir eru á næturvinnukaupi allan sólarhringinn mánuðum saman. Þess eru algeng dæmi, að verkstjórnarþóknun sé reiknuð sem prósenta af vinnukostnaði verksins, þannig að verkstjóri fær upp í 17% af kostnaðinum. Geti verkstjóri gert verk 6 millj. kr. dýrara en ella fær hann í sinn eigin hlut 1 millj. Þessar aðfarir draga úr vinnusiðgæði, sprengja kaupgjald upp í landinu og leggja í rústir atvinnulíf í kringum sig, fyrir utan það að gera framkvæmdir óhæfilega dýrar. Og þannig eru framtíðinni bundnar stórhættulegar skuldabyrðar.

Fyrir 10–15 árum festi sú skoðun rætur í hugum margra Íslendinga, að til þess að beisla fallvötn landsins til raforkuframleiðslu yrðum við að virkja sem stærst og þá fengjum við ódýrara rafmagn sjálfir. Þetta sjónarmið hefur að flestu leyti brugðist. Stórir virkjunaráfangar hafa það í för með sér, að því aðeins er hver kwst. ódýrari að einhver kaupandi fáist strax að mestallri orkunni. Okkar litla þjóðfélag getur ekki hagnýtt virkjunarþrep upp á 100–200 mw á örskömmum tíma. Til þess vex notkun Íslendinga ekki nógu ört og til þess á nauðsynleg samtenging dreifikerfisins of langt í land, enda er hún geysidýr. Það ráð hefur verið tekið að selja verulegan hluta af orkunni frá hverri stórvirkjun út af fyrir sig til erlendra auðfyrirtækja, sem hér hafa verið fáanleg til þess að setja upp útibú. Þannig hefur orku verið ráðstafað til fyrirtækja sem við höfum ekkert með að gera og eru beinlínis skaðleg í efnahagslífi okkar, eins og ég mun síðar koma að í þessum orðum mínum.

Orkufrekur iðnaður getur verið með þrennum hætti. Í fyrsta lagi getur hann verið alfarið í eign Íslendinga sjálfra. Þessi leið er farin með áburðarverksmiðjunni og sementsverksmiðjunni. Þessi leið er geðfelldust og hin eina sem mér finnst eiga verulegan rétt á sér. Hún er þó þeim annmörkum háð, að þessi fyrirtæki eru mjög dýr í stofnkostnaði og hvert vinnupláss kostar mikið fé. Iðnaðinum má skipta í þrennt: Smáiðnað, þar sem stofnkostnaður er 2–20 millj. kr. á starfsmann, meðalstór iðnfyrirtæki, þar sem stofnkostnaður er 20–200 millj. á starfsmann, og stóriðja, þar sem fjárfestingin er yfir 200 millj. á hvern starfsmann. Þannig sjáum við talsverða annmarka fyrir Íslendinga að fara inn á braut verulegrar stóriðju. Þó er sjálfsagt að stækka áburðarverksmiðjuna í Gufunesi þannig að við getum fullnýtt þá aðstöðu, sem þar er, og orðið sjálfum okkur nógir með köfnunarefnisframleiðslu, en með stækkun sýruverksmiðju þar fyrir 1 milljarð gætum við lækkað framleiðslukostnað á hvert tonn áburðar um 1–2 þús. kr.

Það er fjarstæða þegar því er haldið fram, að uppbygging stóriðju geti orðið til þess að taka við verulegum mannafla á vinnumarkaði. Önnur leið til uppbyggingar orkufreks iðnaðar er að útlendingar eigi fyrirtækið alfarið. Þetta er sú leið sem farin hefur verið í Straumsvík og ekki gefist nógu vel, eins og ég mun víkja að síðar.

Þriðja leiðin er sú, að Íslendingar eigi fyrirtækin í félagi við útlendinga og þá með meirihlutaaðild. Þetta er sú leið sem Framsfl. hefur léð máls á. Þessi leið er að minni hyggju illskárri en að útlendingar eigi fyrirtækin einir, en þó er hún nógu slæm til þess að hana ber að forðast meðan einhver úrræði finnast önnur. Raunverulegur yfirráðaréttur er annmörkum háður. Fyrirtækið hér yrði einungis einn hlekkur í viðtækari keðju, aðföng og afurðasala yrðu í annarra höndum eðli málsins samkvæmt og auðhringurinn hefði líf í hendi sér, líf fyrirtækisins á Íslandi. Þessi leið er farin á Grundartanga með samþykki meiri hl. þingflokks Framsfl., þó að ég treysti mér ekki til þess að vera í þeim hópi sem samþ. byggingu verksmiðjunnar. Þetta fyrirtæki er þó ekki sett upp af bugsjón alþm. Stóriðjuhugsjónin heillar ekki nema örfáa alþm. Þetta fyrirtæki er auðvitað sett upp út úr neyð til þess að koma í lóg rafmagni úr of stórum virkjunaráfanga við Sigöldu og er að mörgu leyti neyðarsamningur, t. d. hvað varðar orkuverðið.

Reynslan af þeim samningum, sem Íslendingar hafa gert um sölu á rafmagni til orkufreks iðnaðar, gerir það brýna nauðsyn að sett verði löggjöf á þann hátt sem hér er lagt til. Markmið þeirrar löggjafar sé að tryggja, að þannig verði ekki haldið á málum í framtíðinni. Íslenskir samningamenn hafa reiknað út af mikilli hjartsýni orkuverð frá hverju orkuveri fyrir sig, sem í byggingu hefur verið, og gera síðan samninga til langs tíma um sölu á miklum hluta orkunnar á því verði, sem þeir vonuðu að hægt yrði að framleiða hana á í orkuverinu, og verðjafna það við eldri virkjanir sem afskrifaðar voru. Að sjálfsögðu verða orkuverin eðli málsins samkvæmt sífellt dýrari. Orka frá Sigölduvirkjun er dýrari en frá Búrfellsvirkjun o. s. frv., o. s. frv. Þessari þróun valda ýmsar ástæður: Verðbólga í veröldinni og sífellt óhagstæðari vaxtakjör, hagkvæmustu virkjunarvalkostirnir væntanlega teknir fyrst og svo geta — eins og menn vita — ófyrirsjáanleg atvik hent á náttúrunni, þannig að næsta virkjun verði dýrari þeirri síðustu. Þá hefur við val á virkjunarstað og hönnun virkjunar ráðið sú skoðun, að því stærri sem virkjunin væri, því ódýrari yrði hver kwst. í framleiðslu. En eins og ég sagði áðan: forsendan fyrir því, að svo geti orðið, er sú, að það þarf að selja alla orkuna strax.

Samningarnir, sem gerðir hafa verið við fyrirtæki í eigu útlendinga, hafa verið á þá lund, að raforkunotendur — hinir almennu raforkunotendur á Íslandi — hafa fyrr en varir verið farnir að greiða niður raforkuna til stóriðjunnar. Þegar Landsvirkjun seldi álverksmiðjunni fyrst raforku 1969 var orkuverðið 68% af því verði sem rafveiturnar guldu fyrir orkuna. Þetta hlutfall hefur breyst mjög síðan og komst árið 1975 niður 1 24%, en þá keypti álverið sér stækkunarleyfi á kerskála 2, eins og lítillega bar á góma hér í umr. fyrr í dag, og hækkaði þá verðið 1976 og varð 32% af því verði sem rafmagnsveiturnar þurfa að greiða Landsvirkjun. Þetta gefur nokkuð skýra mynd af þeirri þróun sem orðið hefur. Árið 1976 var raforkusala til stóriðju 56.1% af framleiddri raforku á Íslandi, en fyrir hana einungis goldin 10.3% af heildarsöluverðmæti. Þessar tölur um heildarsöluverðmætið eru að vísu ekki fyllilega sambærilegar vegna þess að auðvitað kostar mikið að dreifa orkunni og hún er afhent með mismunandi hætti, en þetta gefur þó nokkra mynd.

Það er svo komið, að orkuverð til stóriðju hér er verulega lægra en í nálægum löndum, t. d. helmingi lægra en í Noregi eða nálega helmingi lægra. Norðmenn hafa sett löggjöf um orkusölu ríkisrafveitnanna norsku til orkufreks iðnaðar, og þar gera þeir ráð fyrir ákveðnu lágmarksverði. Það var miðað við 6 aura norska 1. jan. 1976 við stöðvarvegg. Í ársbyrjun 1977 var þetta komið upp í 6.6 aura norska, en til samanburðar má geta þess, að í fyrravor var gerður raforkusölusamningur við norska fyrirtækið Eikem, þar sem raforkuverðið er 3.5 aurar norskir. Í Noregi yrði fyrirtækið að kaupa orkuna uppspennta við stöðvarvegg, en við þurfum að flytja raforkuna með ærnum kostnaði upp á Grundartanga. Þá hafa Norðmenn gjaldskrárflokk sem heitir „fastkraft med afbruddsklausul“, þ. e. með 6 mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti, og verð á þeirri orku er það sama og fyrir forgangsorkuna. Þriðji gjaldskrárflokkur Norðmanna er það sem þeir kalla „ikke garantert kraft“. Þetta er sami orkuflokkur sem 1 járnblendisamningnum heitir „afgangsorka“ og er næstum því gefin, en í Noregi goldin með 75% af forgangsorkuverði. Þetta atriði dróst mjög inn í umr. um járnblendiverksmiðju á síðasta þingi, og þá var sú skoðun, sem orkumálastjóri, Jakob Björnsson, hafði látið í ljós, rækilega sönnuð, að þetta væri sami orkuflokkur.

Þá kemur veigamesta atriði norsku reglnanna, — ég tek það fram, að við getum ekki að öllu leyti bundið okkur við þau tilvik, sem skapast hafa í Noregi, og það er alls ekki víst, að verð hér geti ekki verið með einhverjum öðrum hætti en í Noregi, þó að fjarstætt sé náttúrlega að hafa muninn eins mikinn og hér hefur komið fram, — en veigamesta atriði norsku reglnanna er um leiðréttingu á orkuverðinu. Verðið á að leiðréttast á hverju ári og fylgja norsku heildsöluvísitölunni nákvæmlega. Þá skal leiðréttingin ekki vera á sama ári nema 5%, en ef hækkun vísitölunnar er samanlagt í þrjú ár meiri en 15%, á að endurskoða hækkunarákvæðin og láta þau verka til framtíðarinnar. Þá skal undir öllum kringumstæðum endurskoða vísitöluákvæðin 1. jan. 1985. Í sjötta lagi er greiðsluskylda fyrir alla forgangsorku og forgangsorku með uppsagnarfresti, hvort sem hún er notuð af kaupanda eða ekki. Í sjöunda lagi er það í norsku reglunum, að hámarksgildistími samninga er 20 ár. Í áttunda lagi má magn orku til hvers fyrirtækis skiptast í 70% forgangsorku og 30% „fastkraft med afbruddsklausul“ og „ikke garantert kraft“. Þeir skapa sér sem sagt tryggingu til þess að geta selt þetta mikið af forgangsorku. Þá eru nokkur fleiri ákvæði, sem ég hirði ekki um að rekja hér, en get þó ekki látið hjá liða að nefna ákvæðin um orkuflutninginn, þ. e. a. s. að kaupendur eiga að greiða sérstaklega fyrir hann frá stöðvarvegg til verksmiðju. Fyrir flutning á orku á að greiða a. m. k. 8% af orkuverðinu að viðbættu 1% fyrir fyrir byrjaða 10 km, sé um lengri leið en 50 km að ræða. Þá er sérstaklega undirstrikað af iðnaðarnefnd norska Stórþingsins, að þessi regla ætti líka að gilda um endurnýjun á gömlum samningum.

Ég vil vitna til samningsins við járnblendifélagið, sem gerður var í fyrravor. Þar var orkan seld á 3.5 aura, en ekki 6.6 aura, en á að hækka um 1/2 eyri 1982 og sérstaklega tekið fram, að sá 1/2 eyrir hækki á tímabilinu. Eftir það hækkar grunnverðið fimmta hvert ár samkv. úreltum reglum, sem Norðmenn eru búnir að fella úr gildi, um samninga sem gerðir voru á árunum 1962–1963. Þarna voru sem sagt hafðar til fyrirmyndar reglur sem þá voru fallnar úr gildi í Noregi. Samanburðurinn er þá í stuttu máli þessi: ef fyrirtækið væri reist í Noregi hefði það þurft að greiða, miðað við verðlag í fyrravor, 2.55 aura ísl. fyrir kwst. en af því að það rís í Hvalfirði þarf það einungis að greiða 1.30–1.40.

Það er lærdómsríkt að huga að því hvernig Norðmenn verðleggja heimilisnotkun, því að það er sambærilegt að bera saman hlutfallið innbyrðis á milli hinna einstöku flokka. Samkv. upplýsingum, sem Samband ísl. rafveitna hefur látið mér í té, var verðið til heimilisnota, miðað við gengi í ágúst s. l. 7.27 kr. ísl. í Noregi, en hér var meðalverðið á sama tíma 14.49 kr. og hjá Rarik 21.28 kr. Landsvirkjun selur rafveitunum kwst. á 3.91 miðað við nýtingu 5000 stundir á ári, en sambærilegur gjaldskrárflokkur í Noregi er 2.43 ísl. kr.

Enn lakara er að athuga viðskiptin við álverið. Eins og ég sagði áðan, fóru 56% af framleiddri raforku á Íslandi til stóriðju en fyrir hana voru einungis goldin 10.3% af heildarsöluverðmætinu. Þetta rafmagn til álversins var greitt með í kringum 30 aurum á kwst., en það væri greitt með 2.55 ísl. kr. í Noregi eftir samningi sem hefði verið gerður á sama tíma og stækkunarsamningurinn við álverið 1976. Þetta gefur nokkra mynd af því, hvernig við ráðstöfum orku okkar og hagnýtum auðlindir landsins.

Við þm. Framsfl. flytjum till. til þál. á þessu þingi um skipulag orkumála, og 1. flm. þeirrar till. er hv. 2. þm. Vestf., Steingrímur Hermannsson, en skipulag orkumála er einmitt önnur hlið þessa máls. Þessi till. er nú til umfjöllunar í n. og fóru fram um hana ágætar umr. fyrir jólin. Skipulagsleysi í orkumálum verður að lagfæra og koma á skynsamlegum vinnubrögðum í því efni. Ég vitna aðeins til niðurlagsorða þeirrar grg., sem fylgir þeirri till., en þar segir:

„Orkulindir landsmanna, bæði í fallvötnum og jarðaarma, eru einhver dýrmætasta eign þjóðarinnar. Mjög mikilvægt er að þessar orkulindir verði virkjaðar og notaðar af skynsemi og hagkvæmni. Því miður hefur þar skort mjög á. Fyrst og fremst virðist þetta eiga rætur sínar að rekja til þess, að yfirstjórn orkumála er þess vanbúin að takast á við verkefnið. Því verður að vinda bráðan bug að bættu skipulagi og yfirstjórn. Með þessum till. er stefnt að því að leggja grundvöll að slíkum skipulagi, sem án tafar þarf að vinna nánar í ýmsum smáatriðum og hrinda í framkvæmd.“ Og lýkur hér tilvitnun í grg.

Ég undirstrika sérstaklega það að virkja af skynsemi og hagkvæmni, en í því felst auðvitað að við virkjum fyrir okkur sjálfa og á þann hátt, að við vinnum ekki hervirki á landi okkar með framkvæmdum sem sökkva eiga verulegu grónu landi og gera landið þar með lakara til búsetu. En uppi eru hugmyndir um virkjanir á Íslandi, sem byggjast á ógurlegum miðlunarlónum þar sem nú eru dýrðleg gróðurlönd. Ég nefni hugmyndir um lón vegna stóriðjuvirkjunar í Blöndu, lón í Þjórsárverum, lón vegna stóriðjuvirkjunar á Austurlandi.

Ég vék að því hér á undan að fyrirtæki af gerð þeirra tveggja stóriðjuvera, sem hér hafa risið í eigu útlendinga eða eru að rísa, væru þjóðfélagsgerð okkar skaðleg á fleiri vegu. Þar á ég í fyrsta lagi við að þau eru of stór fyrir þjóðfélag af okkar gerð. Þau eru fyrr en varir risar í efnahagskerfinu — slíkir risar, að þjóðfélaginu verður að stjórna með hagsmuni þeirra sérstaklega fyrir augum.

Ég hef heyrt suma ágæta sjálfstæðismenn ræða um það hæði hér á Alþ. og utan þess, að Samband ísl. samvinnufélaga sé auðhringur og allt of stór. Því vil ég svara, að allar eignir Sambandsins og kaupfélaganna samanlagt eru að brunabótamati ekki nema eins og hálft álverið í Straumsvík. Þá er ekkert átt við þriðja kerskálann, svo maður tali nú ekki um aðra þætti þeirra fyrirtækja, sem Alusuisse vill koma hér upp og rætt er um í Integral-áætluninni, svo sem súrálsverksmiðju á Reykjanesi og að reisa virkjun á Austurlandi með tilheyrandi verksmiðjukosti á Reyðarfirði sem þeir vilja koma hér upp og einhverjir eru til viðtals um. Ég nefni til samanburðar, að álverksmiðja Norsk Hydro við Eyjafjörð eða annars staðar á Norðurlandi og tilheyrandi Blönduvirkjun, sem eingöngu yrði reist vegna hennar og ætti sér ekki annan hugsanlegan markað en stóriðju, mundi kosta fjórfalt á við það sem eignir SÍS og kaupfélaganna eru að brunabótamati.

Þá kem ég að því, hver áhrif fyrirtæki á borð við álverið hafa á kaupgjaldsþróun í landinu. Þetta eru heldur slæmir vinnustaðir og þau samfélög, sem rísa þar, eru ekki samfélög sérstakra hamingjumanna. Ég vil í þessu sambandi leyfa mér að vitna til félagsfræðilegra rannsókna frá háskóla í Noregi. Synir stóriðjuverkamanna eru ófúsari að taka við störfum feðra sinna og búa í heimabæjum sínum en synir nokkurra annarra feðra í öðrum stéttum. Ég hef aldrei hitt mann, sem óskaði þess sérstaklega, að börn hans sjálfs - hans eigin börn — yrðu vinnuafl í stóriðjuveri. Þetta eru óholl störf yfirleitt þannig að fyrirtækin telja sér ekki hagkvæmt að hafa sömu menn í vinnu í verri verkunum lengur en 15 ár. Af þessum sökum er eðlilegt að þessum mönnum verði að gjalda hátt kaup, enda er það gert til þess að halda í góða menn.

Það gerðist 1975, að starfsmenn áburðar-, sements- og kísilgúrverksmiðju fóru í verkfall og heimtuðu sama kaup og goldið var í Straumsvík. Ríkisstj. sá réttilega, að með þessu riðlaðist allt launahlutfall í landinu, og vildi ekki ganga að kröfunum og hæstv. félmrh. beitti sér réttilega fyrir setningu brbl. til þess að banna þetta verkfall. Þessi brbl. voru ekki virt. Alþýðusamband Íslands studdi verkfallsmenn til þess að brjóta lögin, og forseti ASÍ sagði að þau brytu í bága við réttarvitund almennings. Ríkisstj. var hryggbrotin í þessu máli og hefur það dregið ekki lítinn slóða á eftir sér. Verkfallsmenn unnu þar algjöran sigur.

Það var krafa hjá BSRB í haust að vitna til þess, að verkamenn í þessum störfum hjá ríkinu hefðu hærri laun en aðrir ríkisstarfsmenn. Þannig keðjuverkar þetta. Við vorum svo lánsamir, við Íslendingar, að hleypa útlendingum aldrei varanlega inn í fiskvinnslu okkar eða útgerð héðan. Mér þykir ósennilegt, að okkur hefði auðnast að ná fullum yfirráðum yfir 200 mílna fiskveiðilögsögu okkar, ef útibú frá breskum útgerðarfyrirtækjum hefðu verið mjög umsvifamikil í fiskveiðum okkar eða fiskiðnaði.

Mér er ljóst, að það þýðir ekki að sakast um orðinn hlut. Þeir ágætu menn, sem að því stóðu á sínum tíma að þessi erlendu stóriðjufyrirtæki risu hér, gerðu það í góðri trú, en því miður átti bjartsýni þeirra ekki við fullkomin rök að styðjast. Þróunin hefur orðið sú.

Mér hefði persónulega verið ljúfast að mæla hér fyrir till. um ákvörðun Alþ. um það, að frekari stóriðjusamningar kæmu ekki til greina. Ég geri það þó ekki að þessu sinni heldur höfum við hv. 1. þm. Norðurl. e., Ingvar Gíslason, kosið þá leið að slá varnagla við því, að almenningur geti komið til með að verða að greiða niður orkuna til stóriðjunnar, og á það hygg ég að menn verði að sættast, af því að ég trúi því að það sé vilji okkar allra. hverjar skoðanir sem við höfum á erlendri stóriðju á Íslandi, eða við séum a. m. k. sammála um það að ekki sé vert að fórna því fyrir, að við þurfum að bera stórfelldan kostnað í raforkuverum vegna orkusölu til stóriðju. Það er geysilega mikilvægt, að það verði fundin einhver hreyfanleg framfærsluvísitala, fundið eitthvert form á útreikningi, eitthvert skynsamlegt form á útreikningi á framleiðslukostnaði raforku í landinu, sem síðan væri breytilegt, sem síðan breyttist eftir aðstæðum hverju sinni. Ég tel að reglur Norðmanna, sem við höfum kynnt hér séu mjög góðar og gætu verið heppileg og nærtæk fyrirmynd fyrir nefndina sem við viljum að kosin verði. Og þá verður að endurskoða þegar gerða samninga við ÍSAL og Elkem svo fljótt sem frekast er unnt og gera svo gott úr hlutunum sem mögulegt er.

Þessi till. — eða till. mjög svipaðs efnis — var flutt af okkur hv. þm. Ingvari Gíslasyni á síðasta Alþ. og var þá ekki útrædd.

Andstaðan við umsvif útlendinga í íslenskri atvinnuuppbyggingu er svipaðs eðlis eins og t. d. landhelgismálið. Við þurfum landgrunnið fyrir okkur sjálfa. Við þurfum líka orkulindir okkar fyrir okkur sjálfa í framtíðinni. Ég hef heyrt því slegið fram af einum stóriðjutalsmanninum, að það væri ómóralskt af okkur Íslendingum ef við ætluðum að sitja einir að orkulindum landsins í heimi þar sem óðum gengur á orkulindir. Ég tel það hins vegar ómóralskt af íslenskum ráðamönnum ef þeir hugsa ekki fyrst og fremst um framtíðarhag þjóðarinnar. Þetta er gott land, sem við eigum, og gott land, sem við megum ekki spilla með vanhugsuðum aðgerðum — land sem við eigum að búa í sjálfir og nytja sjálfir, bæði til sjós og lands. Þess vegna lít ég svo á, að atvinnuuppbyggingu og nýtingu fiskimiða, gróðurlands og orkulinda eigi að haga á þann hátt, að við reynum að byggja hér upp það þjóðfélag sem við viljum lifa í sjálfir og getum verið þekktir fyrir að skilja eftir handa afkomendum okkar.

Að lokinni umr. hér í dag óska ég eftir því að umr. verði frestað, og geri till. um að þetta mál verði sent atvmn. Sþ. til umfjöllunar.