07.03.1978
Sameinað þing: 53. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2800 í B-deild Alþingistíðinda. (2046)

171. mál, íslenskukennsla í fjölmiðlum

Flm. (Sverrir Hermannsson) :

Herra forseti. Það er ekki að undra, þó að mönnum verði mismæli þegar þeir nefna fjölmiðla eins og t. d. sjónvarpið og detti þá í hug einhverjar erlendar þjóðir og þeirra mállýskur á undan okkar eigin, eins og dæmin sanna um beitingu þessa verðmæta fjölmiðils.

En á þskj. 336 er till. til þál. um íslenskukennslu í fjölmiðlum, sem flutt er af 5 þm. úr öllum þingflokkum. Till. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að sjá svo um að sjónvarp og útvarp annist kennslu og fræðslu í öllum greinum móðurmálsins. Þrettán manna ráð, kosið hlutfallskosningu á Alþ., skal hafa með höndum stjórn þeirra mála.“

Í grg. segir svo m. a.: „Engum dylst, að íslensk tunga á nú í vök að verjast. Á þetta sérstaklega við um talað mál, framburð og framsögn. Einnig fer orðaforði þorra fólks þverrandi og erlend áhrif hvers konar vaxandi. Engum orðum þarf að fara um lífsnauðsyn þess, að stemma stigu við slíkri óheillaþróun og snúa við inn á þá braut íslenskrar málhefðar, sem ein verður farin, ef íslensk menning á að lífa og dafna.

Ríkisútvarpið hefur lagt nokkuð af mörkum til fræðslu og kennslu í íslenskum fræðum, tungu og bókmenntum. Er það góðra gjalda vert. En það er skoðun flm., að betur megi ef duga skal, og á það einnig við um meðferð tungunnar yfirleitt í munni þeirra, sem í útvarp tala.

Áhrifaríkasti fjölmiðillinn, sjónvarpið, hefur hins vegar í engu sinnt fræðslu í meðferð íslenskrar tungu. Virðist jafnvel ekki lögð sérstök rækt við orðfæri eða framburð þeirra, sem þar starfa. Á þessu þarf að verða gjörbreyting. Langsterkasta áróðurstækið, sem fluttst hefur inn á gafl á hverju heimill landsins, þarf að taka tröllataki til eflingar íslenskri menningu, sérstaklega til viðreisnar íslenskri tungu, en það er brýnasta verkefnið nú.

Lagt er til að kosið verði hlutfallskosningu á Alþ. þrettán manna ráð, sem hafi með höndum stjórn þessara mála í fjölmiðlum. Verkefnið er viðamikið, og þykir flm. því ástæða til, að allmargir eigi hlut að máli, enda hefur þjóðin til þess arna á að skipa mörgum hæfum mönnum.“

Eftir að till. þessi var fram lögð hef ég orðið var við mjög mikinn áhuga á framgangi málsins utan þings og innan. Og víst er um það, að áhugi á ræktun móðurmálsins er mjög mikill og almennur og ekki síst á íslenskum bókmenntum, fornum og nýjum. Með lestri þeirra og vandaðri kynningu verður tungan best efld. Af nógu góðu og frábæru er að taka í íslenskum bókmenntum. Töluvert er nú að vísu orðið af hinu og hefur raunar alltaf verið, en ástæðulaust er þó að gera sér miklar áhyggjur út af vondum bókum, því að margur góður rithöfundur og skáld hefur byrjað á leirburðarstagli.

Hér verður íslensk málsaga ekki rifjuð upp. Undanfarin ár hefur sem betur fer farið fram umr. á hinu háa Alþingi um íslenska tungu, stafsetningu og málsögu. Umr. hefur orðið mjög til góðs og sprottið af þrætum um stafsetningu, en klíkumenn í röðum embættismanna hafa fengið því ráðið, að óvarlega hefur verið um þau mál vélt undanfarin ár. Þrætan um litla stafinn z hefur mjög stemmt stigu við herferð hinna æviráðnu á hendur íslensku máli rituðu. Z er að vísu ekki aðalatriði, en ekkert er svo smátt í íslensku máli að ekki skipti samt höfuðmáli.

Um það ætti ekki að þurfa að deila, að mæltu máli íslensku hefur hrakað að undanförnu og á það aðallega við í munni yngri kynslóðar þéttbýlis. Málskóli heimilanna og þó einkum hinna öldruðu er þar af lagður, en erlend áhrif hvers konar hafa vaxið að sama skapi. Ástæður fyrir erlendum áhrifum eru augljósar og gætir í því efni ekki síst áhrifa frá hinum sterka fjölmiðli, sjónvarpinu, einmitt því tækinu sem getur getið okkur kost á straumhvörfum í þróun og meðferð málsins, ef farið verður að efni þessarar tillögu.

Eins og fram er tekið hefur útvarpið í ýmsu sinnt íslenskri tungu og bókmenntum og skal hlutur þess ekki lastaður, þótt vafalaust mætti betur gera. Þættir orðabókarmanna og hinir stuttu þættir um daglegt mál hafa verið afbragð og eins lestur úr bókum okkar, t. d. lestur Einars Ólafs Sveinssonar úr Njálu á sinni tíð, svo að eitthvað sé nefnt. Ef ég væri útvarpsráðsmaður mundi ég leggja til, að á hverjum vetri yrði Njála lesin, Bandamanna saga, Hrafnkels saga Freysgoða og enn fleiri fornrit okkar auk rita Laxness, Þórbergs og fjölda annarra höfunda síðari tíma.

Á annan tug ára er nú liðið síðan sjónvarpið hóf göngu sína. Fyrir utan flutning íslenskra leikrita hefur sjónvarpið í litlu sinnt bókmenntum okkar og alls enga fræðslu veitt í meðferð tungunnar. Má þó öllum augljóst vera, að í því efni hefur sjónvarpið yfirburðaaðstöðu. Þetta sinnuleysi er gagnrýni vert og raunar lítt skiljanlegt. En nú er lagt til, að á þessu verði gerbreyting. Í till. þessari er lagt til, að sjónvarpið sérstaklega verði tekið til afnota til kynningar á íslenskum bókmenntum og til gagngerðrar fræðslu í öllum greinum íslenskrar tungu.

Þess hefur orðið vart, að menn hafa verið nokkuð vokins um afstöðuna til þeirrar till., að þrettán manna ráð, kosið hlutfallskosningu á Alþ., hafi með höndum stjórn þessara mála í fjölmiðlum. Í þessu sambandi vil ég taka skýrt fram, að þessi háttur ætti að vera á hafður um skipan miklu fleiri nefnda og ráða en enn hefur tíðkast. Með því móti réði Alþ. svo sem vera ber og drægi um leið úr valdi embættismanna og ýmissa stofnana þar sem þeir hafa hreiðrað um sig, oft á tíðum án þess að til þess væri ætlast að valds þeirra gætti svo sem raun ber vitni um. Alþ. má heldur betur fara að gá að sér, þegar dæmi eru til þess að starfsmenn Alþ., ráðh., verða uppvísir að því að vera vikapiltar embættismanna. Ýmis öfl hafa otað sínum tota langt umfram það sem hið rétta ráðaafl, Alþ., mundi til hugar koma að veita þeim atfylgi til. Er mál að þeim ókjörum linni. Lýðræðið er ekki í heiðri haft nema áhrif og valdahlutföll á Alþ. njóti sín eðlilega á sem flestum sviðum þjóðlífsins.

Margir málsmetandi menn hafa varpað fram þeirri hugmynd, að á Íslandi kæmist á fót það sem þeir vilja kalla „málakademiu“. Má vera að ýmsum sýnist mikið lagt undir og yfirlætisfullt að hugsa sér að slíkt ráð, sem hér er lagt til að kosið verði, gæti orðið vísir að slíkri málakademiu. Orð eru þó til alls fyrst. Fáum þrettánmenningunum þetta mikilvæga verkefni í hendur og látum framtíðina skera úr um hvernig til tekst. Við eigum hið mesta mannval til hlutanna og um að gera að fá því verkefnið strax í hendur. Fyrir því legg ég höfuðáherslu á skjótan framgang þessa máls og skora á þm. að ljá því fylgi sitt.

Gera má ráð fyrir að ráðið skipti sjálft með sér verkum, velji sér formann og aðra starfsmenn og kjósi t. d. framkvæmdaráð úr sínum hópi. Um starfsemi sína er eðlilegt að ráðið setji sér reglur sem staðfestar verði af ríkisstj. Augljóst er að nokkur kostnaður mun fylgja framkvæmdinni. Mun sjónvarpið að sjálfsögðu látið bera meginhluta hans, enda fær það í hendur áhugaverðasta efni sem um getur og ýtir ýmsu næsta óþörfu til hliðar í staðinn, en kostnað við rekstur ráðsins hlýtur hið opinbera að bera, þ. á m. laun til ráðsmanna.

Ég legg svo til, herra forseti, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.