27.10.1977
Sameinað þing: 10. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í B-deild Alþingistíðinda. (205)

22. mál, uppbygging þjóðvega í snjóahéruðum landsins

Flm. (Ingi Tryggvason):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. þm. Tómasi Árnasyni, Gunnlaugi Finnssyni, Pálma Jónssyni, Sigurlaugu Bjarnadóttur, Páli Péturssyni, Sverri Hermannssyni og Jóni G. Sólnes leyft mér að flytja á þskj. 22 till. til þál. um að flýta uppbyggingu þjóðvega í snjóahéruðum landsins. Þessi till. er samhljóða till. sem sömu flm. fluttu á síðasta þingi og fékk þá ekki afgreiðslu.

Það er öllum ljóst, sem þekkja vegakerfi landsins, að mikið verk er óunnið við uppbyggingu vega. Þó er sjálfsagt að segja frá því, að þótt mikið sé óunnið hefur vissulega mikið verið þegar unnið, og ef tillit er tekið til fámennisins í landinu verður það að segjast eins og er, að vegir eru hér langir og raunar sumir furðugóðir, a.m.k. sumarmánuðina. Samt er það svo, að um fá af þeim verkefnum, sem ríkisvaldið hefur með höndum, er jafntíðrætt manna á meðal, a.m.k. í hinum dreifðari byggðum, og einmitt vegagerðina. Og sannast mála er það, að til daglegra nota á vegakerfi landsins hafa menn mjög misjafna aðstöðu. Þar kemur bæði til að þó nokkuð af vegakerfinu er þegar upp byggt með því sem kallað hefur verið varanlegt slitlag, og er þó kannske ekki ákaflega varanlegt, og þeir vegir, sem ekki eru með þessu slitlagi, eru mjög misjafnlega færir, hvort heldur er á vetri eða sumri. Þar er uppbyggingunni misjafnlega langt komið af ýmsum ástæðum, og veðurfar veldur miklu um að þessir vegir eru misgóðir eftir árstíðum.

Við flm. þessarar till. teljum að því aðeins sé hægt að tala um að frumþörfum fólksins í landinu í vegasamgöngum sé fullnægt að vegir séu gerðir sæmilega vetrarfærir, þeir vegir a.m.k. sem verulega eru notaðir til aðflutninga og til daglegra samgangna manna á meðal. Auðvitað er það svo, að ýmsir þeir vegir, sem aðeins eru notaðir að sumrinu, hljóta að koma mjög aftarlega þegar talað er um endurbyggingu þjóðvegakerfisins.

Ég ætla að leyfa mér að endurtaka hér nokkur atriði úr því máli sem ég flutti hér í fyrra — með leyfi forseta — um ástand vegakerfisins.

Í yfirliti, sem Vegagerð ríkisins hefur gert um ástand vega í landinu, er þjóðbrautum og landsbrautum skipt í fjóra flokka eftir ástandi veganna. Vegagerðin kallar þetta gott ástand, nothæft ástand, ófullnægjandi og slæmt. Samtals eru þjóðbrautir og landsbrautir taldar 7838.6 km, þar af í góðu ástandi 2569.6 km, í nothæfu ástandi 1948.9 km, í ófullnægjandi ástandi 1039 km og í slæmu ástandi 2881.1 km. Athygli vekur að lengstir eru vegirnir í lélegasta flokknum, en næstlengstir í þeim besta. Lausn þess verkefnis að gera vegina góða eða nothæfa er komin vel á veg, eins og þessar tölur sýna.

Auðvitað eru hinir lélegu vegir mjög misjafnlega snjóþungir. Svo sem kunnugt er eru snjóþyngslin mest um norðanvert landið, frá Vestfjörðum til Austfjarða. Snjóþungir vegarkaflar eru þó í öllum landshlutum og snjóþyngsli eru misjöfn milli landshluta eftir árum. Athyglisvert er að í þeim 4 kjördæmum, sem ná frá Vestfjörðum til Austfjarða, eru rúmlega 62% af þjóðbrautum og landsbrautum alls landsins, en 68.4% af þeim vegum sem taldir eru ófullnægjandi eða slæmir. Þeir vegir, sem í þessa flokka koma, eru auðvitað lítt til þess gerðir að verja sig fyrir snjó. Sú staðreynd, að vegirnir eru lélegri í snjóþyngri héruðum landsins, undirstrikar því þörfina á því að beina í auknum mæli vegagerðarfé til þessara landshluta til að bæta úr brýnni þörf fyrir samgöngur og létta að verulegu leyti af þeim kostnaði, sem ríki og sveitarfélög hafa af snjómokstri í snjóavetrum, og jafna aðstöðu fólksins í landinu til þess að hafa afnot af vegakerfinu.

Ég ætla að segja frá nýjum tölum, sem ég hef um kostnað við snjómokstur á undanförnum árum. Samkv. upplýsingum Vegagerðar ríkisins varð heildarkostnaður við snjómokstur eða það, sem þeir kalla vetrarviðhald, á árinu 1975 322.7 millj. Á árinu 1976 var þessi kostnaður 319.2 millj. Og það sem af er árinu 1977 er sami kostnaður 322.8 millj. Þetta eru nokkuð merkilegar tölur. Að vísu má endurtaka það sem ég sagði áðan, að kostnaðurinn er misjafn eftir árferði hvers árs, en það kemur í ljós að þessi kostnaður hefur farið heldur minnkandi undanfarin ár, og það stafar auðvitað að nokkru leyti af því, að það hafa verið byggðir upp ýmsir þeir kaflar vegakerfisins sem erfiðastir eru til vetrarsamgangna. Séu þessar tölur færðar til verðlags ársins 1977, þá kemur í ljós að kostnaðurinn 1975 var 648 millj. á þessa árs verðlagi, 1976 var þessi kostnaður 482 millj. og það sem af er þessu ári 232 millj., en enginn veit hversu mikill kostnaður fellur þarna á það sem eftir er ársins. Það er auðvitað ekki hægt að taka allt of mikið mark á þessum tölum í sambandi við það, hvort við höfum lagt í góða fjárfestingu með þeirri uppbyggingu vegakerfisins sem farið hefur fram. En það er óhætt að segja að tölurnar bendi til þess að nokkuð hafi þegar skilað sér af þeim fjármunum sem lagðir hafa verið í uppbyggingu vegakerfisins.

Ég hef hér enn fremur upplýsingar frá vegagerðinni um mismunandi rekstrarkostnað bifreiða eftir því, eftir hvernig vegum bifreiðunum er ekið. Þar kemur í ljós að rekstrarkostnaður fólksbifreiðar á þúsund km samkv. verðlagi í byrjun ágúst 1977 er á þeim vegi, sem er með bundnu slitlagi, að mati Vegagerðarinnar 18775 kr. Þetta er einhvers konar meðaltal af fólksbílum. Ef þessum bíl er ekið á því sem Vegagerðin kallar góðan malarveg, þá hækkar þessi kostnaður upp í 22902 kr. á hverja 1000 km. Sé vegurinn aftur á móti það sem Vegagerðin kallar vondan malarveg, verður sambærilegur kostnaður 26633 kr. Þetta er kostnaðurinn án skatta. Sé hins vegar um það að ræða að búið sé að bæta við þeim sköttum sem hvíla á eldsneyti og bifreiðum, þá verða þessar sömu kostnaðartölur á þá lund, að kostnaður við að aka 1000 km á vegi með bundnu slitlagi er 35 214 kr. Sé vegurinn það sem kallað er góður malarvegur, verður sambærilegur kostnaður 43441 kr. Og sé malarvegurinn vondur malarvegur á máli Vegagerðarinnar, þá er þessi kostnaður 41064 kr. Þetta þýðir m.ö.o. það, að á vondum malarvegi greiðir sá, sem bílnum ekur, 24 431 kr. í skatt, en aki hann á góðum vegi, þ.e.a.s. með bundnu slitlagi, verður þessi skattur 16 439 kr. Mismunurinn er rétt um 8000 kr. sem sá greiðir meira, sem á slæma veginum ekur, heldur en hinn, sem ekur á vegi með bundnu slitlagi.

Auðvitað er það svo, að sá, sem verður að aka mikinn hluta ársins í snjó og erfiðri færð, hlýtur að öðru jöfnu að koma meira í flokkinn með lakasta þjóðvegi, kostnaður hans að verða tiltölulega meiri, meiri gjöld sem hann greiðir til hins opinbera. Þessi kostnaðarmunur er auðvitað ein ástæðan til þess, að það er ákaflega mikil nauðsyn ekki einungis að byggja vegina vel upp, svo að við höfum góða malarvegi, heldur einnig að setja slitlag á þessa vegi eftir því sem efni og ástæður leyfa.

Nú er það svo, að þeir, sem í snjóþyngri héruðum búa, telja það, eins og ég gat um áður, til frumþarfa að vegir séu svo uppbyggðir um sveitir og á þeim leiðum sem fólk ferðast mest og þarf að flytja sín aðföng og sínar framleiðsluvörur mest, að þessir vegir sé nokkurn veginn færir allan ársins hring. En næst á eftir þessu hlýtur að koma nauðsyn á því að sett verði bundið slitlag á vegina og þeir þannig gerðir stórum hagkvæmari fyrir bíleigendur en nú er.

Ég ætla ekki að orðlengja hér miklu meira um þetta efni. Ég vil endurtaka það að við höfum unnið stórátök í vegagerð, það er fyrirhugað á næsta ári að verja verulega auknu fé til vegagerðar á landinu, og okkur hefur þokað svo áfram á þessum árum að verulega munar um. Láta mun nærri að á árinu sem leið, þ.e.a.s. árinu 1978, hafi verið byggðir upp um 200 km af þjóðvegum landsins, og þessir vegir eru auðvitað dreifðir um allt land, en verulegur hluti kemur á þau héruð sem snjóþung eru. Þetta finnst sjálfsagt ýmsum að fari fremur hægt með þessu áframhaldi. En það þokast vissulega í áttina, ekki síst þegar tekið er tillit til þess, að mjög víða eru þeir kaflar, sem erfiðastir eru til vetrarumferðar, teknir og endurbættir.

Herra forseti. Ég legg til að þessu máli verði vísað til hv. fjvn. að loknum umr. nú.