07.03.1978
Sameinað þing: 53. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2808 í B-deild Alþingistíðinda. (2052)

171. mál, íslenskukennsla í fjölmiðlum

Tómas Árnason:

Herra forseti. Ég er einn af flm. þessarar þáltill., sem hér hefur verið lýst og talað fyrir, og hef í sjálfu sér ekki mikið innlegg fram að færa til viðbótar við það sem þegar hefur verið sagt. En ég get þó ekki stillt mig um að minnast nokkrum orðum á það, hversu gífurleg bylting hefur orðið á öllu, sem snertir samskipti íslenskrar tungu við aðrar þjóðtungur, ef svo mætti að orði komast.

Við, sem komnir erum vel yfir fimmtugt og eldri, munum vel þá daga, þegar útvarpið kom til landsins. Ég man t. d. vel eftir því, þegar ég heyrði fyrst í útvarpi. Ég var þá að sjálfsögðu kornungur krakki, en ég man vel eftir því. Í minni sveit var um nokkurn tíma eitt útvarp á einum bæ og þangað flykktust menn til þess að hlusta á útvarpið.

Á þeim árum, þegar ég var að alast upp — og eftir 1930 og fram undir síðari heimsstyrjöldina — þótti það tíðindum sæta heima, og mun einnig hafa verið meira og minna um landið, ef menn fóru til Reykjavíkur. Það þótti alveg sérstakur viðburður, ef einhver maður úr sveitinni eða byggðarlaginu fór til Reykjavíkur, hvað þá heldur lengra eða til útlanda. Þetta var nú ekki alltaf svo á Seyðisfirði og þar í grennd, eins og kunnugt er,því að þaðan voru veruleg samskipti á nokkru tímabili við útlönd. En svona var þetta á þessum árum, sem ég er nú að vitna til. Og ég hygg, að það hafi verið svo í flestum héruðum, að einangrunin var svo mikill, að menn höfðu ekki útvarp og menn ferðuðust lítið. Svona var þetta í öllum megindráttum um aldir og raunar alveg frá því að landið byggðist. Þótt sumir ferðuðust átti allur almenningur þess engan kost.

Ég man einnig vel eftir því í fyrsta sinn sem ég sá kvikmynd. Kvikmyndirnar komu um það leyti sem útvarpið kom til sögunnar, fyrst þöglar og síðan með tali, eins og allir þekkja.

Með síðari heimsstyrjöldinni verða alger straumhvörf í þessum efnum. Landið er hernumið, kemur her inn í landið, talandi auðvitað aðra tungu, og hér hefur verið varnarlið frá þeim tíma eins og kunnugt er. Flugsamgöngur eflast svo mjög, að áður en varir eigum við flota flugvéla sem fljúga milli landa svo að segja á hverjum einasta degi og ferðalög aukast stórlega, bæði Íslendinga til annarra landa og einnig ferðamanna til Íslands. Flotinn okkar, bæði fiskiskipaflotinn og einnig millilandaskipin eða vöruflutningaskipin, stóreflist. Allt þetta hefur í för með sér stórkostlega aukin samskipi við aðrar þjóðir. Þetta verður ekki nefnt neinu öðru nafni en hrein bylting á örfáum árum, sem þýðir auðvitað það, að tungan verður fyrir miklu meiri áhrifum í ýmsum efnum en verið hefur um aldir. Til viðbótar kemur svo sjónvarpið, eins og kunnugt er, og kvikmyndirnar í vaxandi mæli, og svona mætti lengi telja. Á örfáum árum, ef miðað er við Íslandssöguna, verður slík gerbreyting í þessum efnum, að það er engin samlíking við það, sem við höfðum vanist, Íslendingar, allar götur frá landnámstíð.

Ef við stöldrum aðeins við og lítum á aðstöðuna eins og hún er í dag, — 3–4 áratugum eftir mjög mikla einangrun, þarf ekki að lýsa henni fyrir hv. þm. Það glymja erlend tungumál í sjónvarpi, í útvarpi, í kvikmyndahúsum. Það flæða inn erlend blöð. Á hverjum einasta degi lesa menn þýddar greinar í dagblöðunum, sem margar hverjar eru þýddar í skyndingi, án þess að mjög mikið sé hugsað um málsmeðferð og málvöndun. Þegar allt þetta kemur saman í eitt, þá er hér um að ræða svo gífurlega breytingu frá því, sem áður var, að maður kemst ekki hjá því að leiða hugann að því, hvaða áhrif þetta muni hafa þegar til lengri tíma liður, eins og sjálfsagt er að gera í þessum efnum. Og það er hætt við að a. m. k. blæbirgði, eins og það er stundum orðað, og myndauðgi málsins mundi biða hnekki ef ekki verður slegin skjaldborg um íslenskuna.

Eins og margsinnis hefur verið rakið hér á Alþ. og viðar, má sjá þessa afar glögg merki nú þegar, að málið er að breytast að vissu leyti. Það er alveg sýnilegt, að uppbygging málsins eða „construetion“ hefur verið að breytast á tiltölulega fáum árum. Ég held að slík áhrif stafi aðallega af skyndiþýðingum og margföldum samskiptum okkar við fólk sem talar önnur mál, miðað við það sem áður var. Á örfáum árum hefur orðið sú gjörbreyting á högum þjóðarinnar í samskiptum við útlendinga, að full ástæða er til að óttast afdrif íslenskrar ungu, þegar horft er til framtíðar.

Fjölmiðlar hafa lagt talsvert af mörkum til fræðslu í íslenskri tungu og bókmenntum, eins og kunnugt er. En það er engin spurning um að þó blöðin hafi mikil áhrif, útvarpið hafi mikil áhrif, kvikmyndir o. s. frv., þá er enginn fjölmiðill sem kemst í hálfkvisti við sjónvarpið. Það er að mínu mati langsamlega áhrifamesti fjölmiðillinn og e. t. v. áhrifameiri en allir hinir til samans. Þegar af þeirri ástæðu er hér um að ræða málefni sem við flm. álítum að eigi fullt erindi til Alþ. og vonumst til að fái hér góðar viðtökur og verði samþykkt.

Ég horfi talsvert á sjónvarp eins og fleiri og get jafnvel hrósað sjónvarpinu fyrir ýmislegt gott, sem þar birtist, þótt þar sé misjafnt efni. Það er nokkuð viðurhlutamikið fyrir dvergþjóð eins og Íslendinga að halda uppi góðri sjón­ varpsdagskrá, og ég hygg að hún sé alls ekkert síðri en efni standa til, þó að hún sé mjög misjöfn. Hins vegar finnst mér að fréttaefni sjónvarpsins beri oft með sér meiri áhuga á því, sem miður fer eða miður kann að fara í þjóðfélaginu, heldur en hinu, sem er jákvætt og horfir til bóta. Það er eins og það sé fréttnæmara, það sem er neikvætt. Það er eins og það sé fréttnæmara og fólk hafi meiri áhuga á því að hlusta á og tala um það, sem er neikvætt, heldur en um hitt, sem er jákvætt.

Það er engin spurning um að það hvílir þung ábyrgð og skylda á svo áhrifaríkum fjölmiðli sem sjónvarpið er í ýmsum efnum. Þess vegna er það, að okkur flm. þessa máls finnst að sjónvarpið eigi að leggja mjög ríka áherslu á málvöndun. Margir sjónvarpsmenn tala hið ágætasta mál, eins og kunnugt er. Það er rétt og skylt að taka það fram. Það er þó ærið misjafnt efni sem við heyrum og sjáum í sjónvarpinu. Í þessari till., er gert ráð fyrir því, að kosin verði sérstök stjórn eða ráð til þess að hafa með höndum stjórn þessara mála. Ég hefði álitið, að a. m. k. fyrst um sinn væri eðlilegt að þetta væri ólaunað ráð, eins konar heiðurssamkoma kunnáttumanna um íslenskt mál og málfar, og væri skynsamlegt að líta á það sem slíkt meðan séð verður hvort verkefni þessarar stofnunar verður svo yfirgripsmikið, að ástæða sé til þess að launa sérstaklega fyrir þau störf sem þar verða unnin.