08.03.1978
Efri deild: 69. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2817 í B-deild Alþingistíðinda. (2063)

213. mál, þroskaþjálfar

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir um þroskaþjálfa, er samið í heilbr.- og trmrn. eftir beiðni Félags þroskaþjálfa og er að miklu leyti byggt á till. félagsins. Frv. þetta er að flestu leyti samhljóða öðrum lögum sem sett hafa verið á undanförnum árum til þess að tryggja hinum ýmsu heilbrigðisstéttum lögvernduð starfsréttindi.

Stétt þroskaþjálfa er tiltölulega ung hér á landi. Það mun hafa verið árið 1958, að settur var á stofn við Kópavogshælið svonefndur Gæslusystraskóli Íslands. Einn helsti hvatamaður að stofnun skólans var Björn Gestsson forstöðumaður Kópavogshælisins, og varð hann fyrsti skólastjóri og gegndi því starfi allt til ársins 1977.

Í fyrstu var það fyrst og fremst hlutverk þroskaþjálfa að veita skjólstæðingum sínum líkamlega aðhlynningu og hjúkrun. Gengu þær konur, er þessum málum sinntu, undir nafninu gæslusystur. Í dag eru störf þroskaþjálfa ekki síður uppeldisstörf. Má þannig segja að nafnbreytingin — þ. e. a. s. gæslusystur verða þroskaþjálfar — endurspegli breytt viðhorf almennings gagnvart þroskaheftum og auknum mannréttindum þeim til handa. Það eru ekki síst þroskaþjálfar sem stuðlað hafa að þessum breyttu viðhorfum.

Þroskaþjálfar eru eina starfsstéttin hér á landi sem sérstaklega er menntuð til þess að þjálfa, ala upp og veita þroskaheftum umönnun. Gert er ráð fyrir, að þroskaþjálfar starfi með þroskaheftum einstaklingum hvar sem þeir dveljast. Þannig er starf þroskaþjálfa ekki eingöngu við það miðað, að þeir starfi inni á stofnunum þar sem slíkir einstaklingar eru vistaðir. Þroskaþjálfar eru enn fremur eina starfsstéttin sem sérstaklega er menntuð til þess að veita stofnunum fyrir þroskahefta forstöðu, þar sem Þroskaþjálfaskóli Íslands er eini skólinn hér á landi sem veitir markvissa kennslu í uppbyggingu og starfsemi slíkra stofnana.

Engum blandast hugur um það, að störf þroskaþjálfa eru mjög vandasöm og krefjast einstakrar þolinmæði. Er því mjög brýnt að gerðar séu sérstakar kröfur um þjálfun og menntun þeirra aðila, er slík störf stunda.

Þroskaþjálfaskóli hefur á undanförnum missirum tekið miklum breytingum. Í upphafi var námið að mestu leyti bundið við vangefna og störfuðu þroskaþjálfar í fyrstu nær eingöngu með vangefnum einstaklingum. Fljótlega urðu þroskaþjálfar eftirsóttir til starfa með því fólki sem víkur frá því eðlilega á einhvern hátt, andlega eða líkamlega. Þroskaþjálfaskólinn hefur fylgt þessari þróun og miðast námið nú við fleiri tegundir fötlunar en vangefni. Það skal þó skýrt undirstrikað, að starf með vangefnum er og verður aðalstarfsvettvangur þroskaþjálfa.

Starf með þroskaheftum er ekki lengur afmarkað innan þröngra veggja stofnana. Það eru sífellt gerðar meiri kröfur til þess, að þroskaheftir einstaklingar fái að taka þátt í samfélaginu að svo miklu leyti sem þeir eru færir um það sökum fötlunar sinnar.

Samfélagið sem slíkt er að mörgu leyti vanbúið til þess að taka á móti þroskaheftum, og þarf að gera mikið átak til þess að berjast gegn gömlum fordómum sem beinast gegn þroskaheftum, en eru nú á öru undanhaldi. Það er ekki síst hlutverk þroskaþjálfa, að berjast fyrir breyttum viðhorfum samfélagsins, svo að þroskaheftir njóti þeirra þjóðfélagsréttinda sem þeir að sjálfsögðu hafa jafnt og aðrir samfélagsþegnar.

Þroskaþjálfar, sem starfa á stofnunum, þurfa að sjá til þess, að öllum þörfum skjólstæðinga þeirra sé fullnægt, bæði andlegum og líkamlegum. Auk þess að sjá um alhliða velferð þeirra, þurfa þroskaþjálfar að einbeita sér að hverjum og einum og skipuleggja þjálfunaráætlun fyrir hvern einstakling. Slíkar áætlanir ná yfir vítt svið, allt frá frumstæðustu athöfnum og upp í það að undirbúa hann til að flytja á fjölskylduheimili eða fara í störf á hinum almenna vinnumarkaði. Það er enn fremur í verkahring þroskaþjálfans að annast undirbúning til þess að hinir þroskaheftu einstaklingar geti tileinkað sér bóklegt nám. Hvað snertir bóklega kennslu sérstaklega, þá hefur þeirri reglu verið fylgt, að þroskaþjálfi starfi sem aðstoðarmaður sérkennara. Hvað snertir hjúkrun sérstaklega, þá er hún undirstaða tilveru þroskaheftra og ómissandi undirbúningur fyrir alla aðra meðferð og þjálfun. Það er í verkahring þroskaþjálfa að veita þessa hjúkrun. Þannig gefur þroskaþjálfi lyf samkv. fyrirmælum læknis. Enn fremur verður hann að fylgjast vel með breyttri líðan einstaklings og gera lækni og öðru starfsfólki grein fyrir því og á stundum taka sjálfstæðar ákvarðanir varðandi meðferð.

Störf þroskaþjálfa eru enn fremur í flestum tilfeilum verkstjórnarstörf, þar sem langflestir þroskaþjálfar veita forstöðu deild eða annarri einingu innan stofnunar, t. d. vinnustofu, leikskóla eða veita heilli stofnun forstöðu. Í námsskrá Þroskaþjálfaskóla Íslands er sérstaklega gert ráð fyrir undirbúningsmenntun til þessara starfa. Eitt hið mikilvægasta í þessum málum er að gott samstarf verði milli foreldra og aðstandenda, og má segja að það sé einhver nauðsynlegasta forsenda þess, að markviss árangur náist í þjálfun. Það er ekki hvað síst hlutverk þroskaþjálfans að vinna að og efla tengsl milli foreldra og stofnunar. Ýmist vinnur þroskaþjálfi að þessu einn eða í samvinnu við sérfræðinga.

Með hliðsjón af framansögðu er augljóst, að störf þroskaþjálfa eru viðtæk og ekki á færi nema sérmenntaðs og sérþjálfaðs fólks. Það er fyrst og fremst með hliðsjón af þessu sem frv. þetta er borið fram, til þess að tryggja á sem bestan hátt að störf á þessum vettvangi skili sem bestum árangri fyrir einstaklinginn og þjóðfélagið í heild.

Að svo stöddu sé ég ekki ástæðu til þess að fara frekari orðum um frv. eins og það liggur fyrir. Um einstakar greinar þess sé ég ekki heldur ástæðu til að fjalla á þessu stigi, en leyfi mér að vísa til aths. með frv.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. legg ég til að frv. verði vísað til hv. heilbr.- og trn. og 2. umr.