08.03.1978
Neðri deild: 65. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2820 í B-deild Alþingistíðinda. (2066)

134. mál, lífeyrissjóður sjómanna

Frsm. (Ólafur G. Einarsson):

Hæstv. forseti. Félmn. hefur haft þetta frv. til umfjöllunar og orðið sammála um afgreiðslu þess. Álit n. er á þskj. 398. N. gerir till. um umorðun 1. gr.till. er byggð á umsögn um frv. sem barst frá fjmrn. Þótti rétt að leita álits fjmrn. vegna þess að ákvæði hliðstæð þeim, sem nú eru í 7. gr. laga um Lífeyrissjóð sjómanna, er að finna í lögum um þrjá aðra sjóði, þ. e. a. s. lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, lögum um Lífeyrissjóð barnakennara og lögum um Lífeyrissjóð hjúkrunarkvenna.

Þetta frv. var flutt til þess að fá því ákvæði laganna breytt, að skilyrðislaust þyrfti að tryggja lán sjóðsins með 1. veðrétti í fasteign, þar sem einkum húsnæðismálastjórn hefur undantekningarlaust krafist 1. veðréttar. Brtt. félmn. er þess efnis, að heimild til að ávaxta fé sjóðsins er nokkuð rýmkuð og auk þess er sú breyting gerð, sem raunar er einnig rýmkun frá frv., að verðtrygging þarf að vera innan við 65% af brunabótamati í stað 50%, sem frv. gerði ráð fyrir. Auk þess hefur brtt. n. í för með sér nokkru ítarlegri upptalningu. Samhljóða breytingar, sem n. gerir hér till. um, eru fluttar varðandi þá þrjá lífeyrissjóði, sem ég gat um, með sérstökum frv. sem eru á dagskrá þessarar hv. d. í dag.

Ég sé ekki ástæðu til að rekja þetta mál nánar, en félmn. leggur til, að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem n. leggur til á þskj. 398.