27.10.1977
Sameinað þing: 10. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í B-deild Alþingistíðinda. (207)

22. mál, uppbygging þjóðvega í snjóahéruðum landsins

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Þessi till. á þskj. 22 er nú endurflutt á þessu þingi, fékk ekki afgreiðslu í fyrra. Ég þarf ekki að hafa langt mál um innihald hennar. Tveir af flm., framsögumaður og hv. þm. Tómas Árnason, hafa þegar drepið á mörg meginatriði sem í þessu þingmáli felast.

Ekki komu á óvart hinar mjög svo fróðlegu tölur, sem hv. þm. Ingi Tryggvason upplýsti okkur um, um viðhald veganna og um rekstrarkostnað bifreiða eftir því hvort ekið er á bestu tegund vegar eða þeim lakasta. Það, sem mesta athygli vakti í sambandi við flokkun veganna, var einmitt þetta, að í lakasta flokknum skyldu vegalengdirnar vera mestar, 2800 km eða um það bil. Í þessum fjórum flokkum, sem Vegagerðin hefur flokkað vegina í eftir ástandi, þá skulum við hugleiða það, að lakasti flokkurinn, hinir slæmu vegir sem Vegagerð ríkisins kallar svo, það eru í rauninni varla vegir nema að nafninu til. Margir þeirra eru kannske 30 ára gamlir og meira, hafa haft viðhald í lágmarki og eiga það margir hverjir sammerkt að mynda á vetrum þessa örlagaríku þröskulda sem Tómas Árnason talaði um, sem skapa sama fólkinu ár eftir ár og áratug eftir áratug meiri örðugleika og tíðari örðugleika heldur en margir gera sér grein fyrir.

Það hefur oft og réttilega verið talað um það, að gerð varanlegra vega þýddi mikinn sparnað. Sá sparnaður á ekki aðeins við um vegi með bundið slitlag, þó að oftast sé áhersla lögð það. Sparnaðurinn kemur engu síður fram í því, eins og hér hefur verið bent á, að snjómokstur og þær stóru fjárfúlgur, sem fara í hann árlega, fara minnkandi eftir því sem fleiri vegir eru byggðir upp úr snjó, eins og við köllum það, jafnvel þó að ekki sé komið bundið slitlag.

Ég fyrir mitt leyti tel það eðlilega þróun að við vinnum að því fyrst og fremst að byggja upp vegakerfið og leggja síðan á það bandið slitlag. Með þessu vil ég þó engan veginn hafna þeirri hugmynd, að okkur beri að leggja áherslu á að koma varanlegu slitlagi á þá vegi sem fjölfarnastir eru og umferðarþunginn mestur. Hitt er svo annað mál. þegar við tölum um arðsemi vega, en arðsemi vega er, að því er ég best veit, reiknuð að miklu leyti einmitt eftir umferðarþunganum og það má til sanns vegar færa, að eftir því sem fleiri bílar fara um veginn því meira bensíni er eytt og því meira kemur inn af bensínskatti, sem að nokkru leyti kemur vegunum til góða, þó að of lítið af honum renni til Vegasjóðs. Það er líka óumdeilanlegt að rekstrarkostnaður bílanna er margfalt minnstur þegar ekið er á slitlögðum vegum. Hitt hefur að mínu mati alltaf verið nokkuð hæpið, að reikna þessa arðsemi eftir umferðarþunga yfir sumarmánuðina, en í vegalögum, 3. gr., er greinilega kveðið svo að orði, með leyfi forseta:

„Stefnt skal að því að leggja bundið slitlag á þá vegarkafla, þar sem innan 10 ára má búast við 1000 bíla umferð á dag yfir sumarmánuðina.“ Að sjálfsögðu verður umferðin þarna mest yfir sumarmánuðina. Á sumrin taka Íslendingar sig upp og ferðast um landið sitt, og síst skal ég lasta það eða gera lítið úr mikilvægi þess. En vetrarmánuðirnir skipta ákaflega miklu meira máli fyrir fólk sem er búsett í snjóþyngstu héruðunum allan ársins hring. Þá eru það ekki skemmtiferðir, sem um er að ræða, heldur lífsnauðsynlegar ferðir sem ekki verður hjá komist.

Hv. 4. þm. Austurl., Tómas Árnason, benti m.a. á akstur skólabarna sem þarna er stórt atriði. Og ég vil bæta þar við ekki síður heilsugæslu í þessum landshlutum. Með nýjum heilbrigðislögum hefur stefna í heilbrigðisþjónustumálum breyst að verulegu leyti. Það eru settar upp heilsugæslustöðvar með tveimur eða fleiri læknum — einum að vísu sums staðar einnig, en staðreyndin er sú, að það er orðið lengra á milli lækna en var eftir gamla kerfinu. Þetta er skiljanlegt. Það er til þess ætlast að betri og fullkomnari þjónusta sé veitt á hinum nýju heilsugæslustöðvum, og það er ekki hægt að hafa þær eins þétt og gömlu héraðslæknarnir voru hér eina tíð. Hins vegar koma þessar heilsugæslustöðvar auðvitað alls ekki að gagni nema fólkið, sem á að njóta þjónustunnar sem þar er veitt, komist þangað nokkurn veginn örugglega bæði vetur og sumur.

Það er mjög veigamikið atriði, eins og hv. þm. Tómas Árnason benti á, að við erum nú á síðustu árum að breyta með ýmsum ætti okkar félagslegu uppbyggingu í landinu. Þessi félagslega uppbygging, bæði í almennum félagsmálum, skólamálum og heilbrigðismálum, byggist fyrst og fremst á að fyrir hendi séu þolanlega greiðar samgöngur. Þess vegna er ekkert um það að deila, að samgöngumálin og þá ekki hvað síst vegamálin eru sá málaflokkur sem við hljótum að beita okkur að af alefli eftir því sem fjárráð okkar leyfa. Að sjálfsögðu gerum við ekki allt í einu, en það hefur verið látið að því liggja, að á meðan aðalátakinu væri beint að orkumálunum yrðu vegamálin að bíða. Ég hygg að þeir, sem vegamálin bera hvað mest fyrir brjósti og samgöngumálin, hafi tekið þessa röksemd gilda. En röðin hlýtur að koma og er vonandi um það bil komin að samgöngumálunum. Og ég vil taka undir það, að ég fagna þeirri yfirlýsingu ríkisstj. frá s.l. vori, að vegáætlun yrði endurskoðuð og allverulega auknu fjármagni varið til vegagerðar á næsta ári. Það er ekki séð fyrir endann á því. Ég skal ekki fullyrða hvað úr því verður. Ég vona það besta, að þrátt fyrir róttækar aðhaldsaðgerðir í okkar efnahagsmálum, sem greinilega eru nauðsynlegar á næsta leiti, þurfi ekki að víkja frá þessari yfirlýsingu ríkisstj. Sannleikurinn verður sennilega sá, að verðbólgan verður búin að sjá fyrir þessum krónum sem áttu að koma aukalega, þannig að aukningin verður ekki eins mikil og kannske var ástæða til að ætla við fyrstu sýn.

En ég hlýt að láta í ljós það álit mitt, að þegar um þetta tvennt er að ræða, að byggja vegina upp úr snjó og hraða sér við að koma bundnu slitlagi á vegina sem þegar eru uppbyggðir, þá geri ég að sjálfsögðu ráð fyrir að báðar þessar greinar samgöngumálanna fái nokkurn framgang, að önnur verði ekki skilyrðislaust tekin fram yfir hina. Ég vil eindregið vonast til þess að uppbygging veganna í snjóahéruðunum verði ekki látin sitja á hakanum fyrir hinu sjónarmiðinu. Hún ætti að mínu mati að sitja fyrir, því að þarna held ég að ekkert álitamál sé að nauðsynin sé mest aðkallandi.