08.03.1978
Neðri deild: 65. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2830 í B-deild Alþingistíðinda. (2080)

62. mál, grunnskólar

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Mér þótti hv. þm. Gunnlaugi Finnssyni vera furðumikið niðri fyrir út af ekki stærra máli en mér finnst vera hér á ferðinni.

Hv. þm. gerði fyrst að umtalsefni afgreiðslu hv. menntmn. á þessu máli. Það kom nokkuð til umr. við 2. umr. málsins og ætla ég ekki að gera það neitt sérstaklega að umræðuefni. Mér fannst n. taka rösklega á málinu, eins og hún átti að gera. Henni bar það og mættu fleiri n. taka sér þetta til eftirbreytni.

Hv. þm. segir að í raun sé deilt um það, hvort stofnuð skuli ný fræðsluskrifstofa í Hafnarfirði, og vísar í bréf fræðslustjórans í Reykjanesumdæmi sem skrifað er 4. maí 1977. Fræðslustjórinn gerir í þessu bréfi sínu að meginmáli þau rök fyrir flutningi frv. sem komu fram í grg. með flutningi þess, eins og hv, þm. las upp úr bréfinu, að þau séu aðallega að bæjarstjórn Hafnarfj. hafi samþykkt áskorun til Alþ. þess efnis að heimila að Hafnarfjörður verði sérstakt fræðsluhérað með sérstökum fræðslustjóra, Hafnarfjörður hafi árið 1369 stofnað eigin fræðsluskrifstofu o. s. frv. Síðan las hv. þm. tæpar fjórar vélritaðar síður, sem allar fjalla um þetta. En þetta er ekki meginatriði málsins, og það hélt ég að hefði þegar komið fram í umr. um daginn, þegar frv. var til 2. umr. í hv. þd. Það er að vísu getið um þetta atriði í grg. með frv., vegna þess að það kemur fram í beiðni bæjarstjórnar Hafnarfjarðar þegar farið er fram á við þm. kjördæmisins að þeir flytji þetta frv. Þetta tekur ekki meira en 5 línur í grg. og er vissulega ein röksemdin sem bæjarstjórnin færir fram máli sínu til stuðnings. En mér finnst að þessi upplestur hv. þm. á bréfi fræðslustjórans sé þessu máli lítt viðkomandi, vegna þess að þetta er ekki höfuðástæðan fyrir flutningi frv.

Það er alveg rétt, sem kom fram í þessu bréfi fræðslustjórans, að fræðslustjórinn, sem starfaði í Hafnarfirði áður en grunnskólalögin tóku gildi, hafði allt annað starfssvið en fræðslustjórinn hefur nú. Það er ekki verið að ljóstra upp neinu leyndarmáli hér með því að lesa þetta bréf upp. Þetta hefur alla tíð verið ljóst. En ég sé ekki að það þjóni tilgangi að vera að eyða tíma í að telja upp, hvert var starfssvið fræðslustjórans áður og hvert það er nú samkv. grunnskólalögum. Þetta á mönnum að vera alveg ljóst.

En meginástæðurnar fyrir því, að við flytjum þetta frv., eru í fyrsta lagi: Bæjarstjórn í 12 þúsund manna sveitarfélagi fer fram á það við þm. sína, að þeir flytji ákveðið mál á Alþ. Mér finnst þurfa meira en lítið til að hafna slíkum tilmælum. Og með þessari beiðni bæjarstjórnar er þetta tínt til, að Hafnarfjarðarbær hafi haft eigin fræðslustjóra áður, með að vísu allt öðru starfssviði. Í öðru lagi er ástæðan sú fyrir flutningi frv. — og það er meginmálið að mínu viti að bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur engin áhrif á val manna í fræðsluráð. Að mínu mati getur slíkt skipulag ekki gengið. Eins og ég tók fram í stuttri ræðu við 2. umr. málsins, þá var ætlunin, þegar grunnskólafrv. var hér til meðferðar á Alþ., að lögfesta landshlutasamtökin eða veita þeim ákveðna stöðu í sveitarstjórnarlöggjöfinni. Yfirlýsingar voru gefnar um það af hæstv. ráðh. í þáv. ríkisstj. En við þær yfirlýsingar var ekki staðið, ég skal ekki segja hvers vegna. Kannske hefur ekki verið meiri hl. fyrir því á Alþ. þá að lögfesta landshlutasamtökin, og ég held að menn séu nú almennt sammála um að það verði ekki gert, a. m. k. ekki í því formi sem þá var sóst eftir. Þróun mála hefur orðið sú, að þeir, sem þá höfðu áhuga á því að veita þeim lögfestingu með þeim hætti sem þá var ráðgert, hafa horfið frá því. En á því var byggt í framsögu frv. og þau ákvæði urðu að lögum. Þegar svo forsendur breytast, svo sem hér . hefur gerst, þá er ekkert óeðlilegt að farið sé fram á hreytingu á grunnskólalögunum að þessu leyti.

Ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa miklu fleiri orð um þetta. Þetta er meginástæðan í mínum huga og huga okkar flm. fyrir flutningi frv., að Hafnarfjarðarbær eða bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur engin áhrif á val manna í fræðsluráð. Það á ekkert skylt við starf núv. fræðslustjóra. Ég get vottað það, að hann vinnur starf sitt með sérstökum ágætum. Og það er alveg rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Gunnlaugi Finnssyni hér áðan, og það hafa vottað sveitarstjórnir í Reykjaneskjördæmi og það er ekki nokkur vafi á því, að fjölmörg störf, sem hann vinnur, eru sveitarfélögunum til góða. Þetta eru störf sem rn. átti áður að vinna, en vann ekki. Á þessu hefur orðið mikil breyting.

Hv. þm. var með hugleiðingar um það, hvort jafnvel flm. hafi horfið frá fylgi við eigin frv. Hann telur að það séu til dæmi um það í þingsögunni, að flm. hafi horfið frá fylgi við eigin frv. Það kann vel að vera. Og það kann vel að vera að það sé svo með einhvern flm. þessa frv. Þeir greina þá frá því, ef svo er.

Ég kann ekki við bollaleggingar hv. þm. um það, að hér sé ekki um raunverulega hagsmuni Hafnarfjarðarbæjar að ræða. Ég sé ekki að hann sé í neinni aðstöðu til að meta það. Þetta er einróma áskorun frá bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Ef þeir eru að gera einhverja alvarlega skyssu, þá þeir um það. En ég trúi því ekki að svo sé, og ég tel að hv. þm. Gunnlaugur Finnsson sé ekki í stakk búinn til þess að hafa vit fyrir bæjarstjórninni í þessu efni.

Um hugleiðingar um það, hvort Suðurnes gætu sameinast, hin sjö sveitarfélög á Suðurnesjum gætu sameinast um hliðstæða beiðni, þá kann vel að vera að svo fari. Ég sé í sjálfu sér ekkert athugavert við það. Ef sveitarfélögunum á Suðurnesjum sýnist að það sé heppilegra fyrirkomulag að einn fræðslustjóri sé fyrir það hérað, þá finnst mér að Alþ. eigi að taka það til athugunar.

Svo nefnir hv. þm. enn, að með samþykkt þessa frv. geti fleiri komið til heldur en Hafnarfjörður, og nefnir þar Kópavog og Akureyri. Ég tók þessi sveitarfélög sérstaklega sem dæmi í ræðu minni um daginn, en þau falla undir þetta heimildarákvæði þessa frv. Þau sveitarfélög hafa bæði yfir 10 þús. íbúa, en ég tók það sérstaklega fram, að þar væri aðstaðan önnur. Þau eru bæði þátttakendur í sveitarfélagasamtökunum á viðkomandi svæðum og hafa þess vegna bein áhrif á val í fræðsluráðið, og það er meginmálið líka. Og það hefur ekki orðið vart við neinn áhuga hjá þeim sveitarfélögum að stofna eigin fræðsluskrifstofu þótt þau fengju heimild til þess samkv. þessum frv., ef að lögum verður. En nóg um þetta.

Ég sé enga ástæðu fyrir hv. þm. heldur til þess að harma það, að varaformaður Sambands ísl. sveitarfélaga skuli vera 1. flm. þessa frv. Það þætti, held ég, skrýtið ef stjórnarmaður í Sambandi ísi. sveitarfélaga gengi beint gegn hagsmunum stórs sveitarfélags eins og hér er um að ræða.

Um það, hvort ekki sé einhver þversögn í því, sem ýmsir ágætir menn hafa nú að slagorði, að báknið skuli burt, þá getur vel verið að svo sé. En ég bendi á það, að þessir sömu aðilar, sem hann vísar þarna til, þm., tala líka um dreifingu valds. Ég held að ef þar yrði einhver árekstur á milli, þá mundi ég frekar kjósa dreifingu valdsins, og það er meginmálið.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta og sé ekki að ræða hv. þm. Gunnlaugs Finnssonar eða upplestur úr bréfi fræðslustjórans í Reykjanesumdæmi þurfi að breyta nokkrum sköpuðum hlut um afstöðu þm. til þessa máls.