08.03.1978
Neðri deild: 65. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2834 í B-deild Alþingistíðinda. (2083)

101. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Flm. (Sighvatur Björgvinsson) :

Herra forseti. Tveir hv. þm. hafa tekið til máls um frv. þetta, hv. þm. Pálmi Jónsson og hv. þm. Páll Pétursson, og hafa báðir mælt gegn efni þess. Þar sem ræður þeirra beggja gáfu tilefni til þess, að veittar væru upplýsingar sem annaðhvort hafa farið fram hjá þeim eða þeir viljandi misskilið, þá er það erindi mitt í ræðustól nú.

Hv. þm. Pálmi Jónsson sagði m. a., að tilgangurinn með þessu frv. væri sá einn að minnka útflutningsuppbæturnar, sem greiddar eru vegna útflutnings á landbúnaðarafurðum. Þetta er rangt. Ef tilgangurinn hefði verið sá einn að minnka útflutningsuppbæturnar, þá hefði verið nærtækast að gera það með þeim hætti að lækka aðeins prósentutöluna, sem við er miðað þegar útflutningsuppbætur eru ákveðnar, að lækka viðmiðunartöluna, 10% af heildarframleiðsluverðmæti landbúnaðarafurða, niður í t. d. 8%, 7%, 6% eða 5%. Ef tilgangurinn hefði verið sá einn, eins og hv. þm. sagði, að minnka útflutningsuppbæturnar, þá hefði þetta að sjálfsögðu verið gert. Ég hélt að það kæmi glöggt fram í frv., bæði í sjálfum frvgr. og í grg. með frv., að tilgangur þess er að gera breytingu á því verðábyrgðarkerfi sem í gildi hefur verið á undanförnum 18 árum. Það er megintilgangurinn með þessu frv. Ég vil benda hv. þm. á þá einföldu staðreynd, að það er verið að ræða um slíkar breytingar ekki aðeins hér á Alþ., heldur einnig á svo til hverjum einasta fundi sem haldinn hefur verið víðs vegar um land af bændum sjálfum og samtökum þeirra, þannig að þeir aðilar sem mest er um rætt að standi á bak við óbreytt fyrirkomulag þessara mála, bændurnir sjálfir, gera það ekki lengur. Þeir ræða nú um það að haga þessari verðábyrgð með öðrum hætti en gert er nú og breyta þessu ásamt ýmsu öðru í landbúnaðarstefnunni sem hefur verið ríkjandi hér á Íslandi á umliðnum árum. Það er því engin goðgá að um slík mál sé rætt hér á Alþ. Hér er ein hugmynd fram sett. Ég er ekki endilega að fullyrða að hún sé sú eina rétta, en ég tel það lágmarkskröfu til fulltrúa bænda á Alþ. eða þeirra þm., sem vilja telja sig öðrum fremur fulltrúa bændastéttarinnar, sem ræða um þessi mál, að þeir geri annað en syngja alltaf þennan sama nei-nei-söng, þegar málefni landbúnaðarins koma til umr. — þeir sýni sjálfir einhverja viðleitni til þess að koma með nýjar og betri hugmyndir.

Það er sök sér þó að menn misskilji efni frv. Hitt er öllu verra. þegar menn leggja út í langar umr. um frv. eins og þetta og standa svo hér uppi í ræðustól í hv. d. berir að því. að þeir hafa ekki einu sinni lesið frv. Þetta kom fyrir hv. þm. Pálma Jónsson. Hann sagði t. d. að ef frv. yrði að lögum mundi niðurskurður á útflutningsuppbótum frá því, sem núgildandi kerfi gerir ráð fyrir, og yfir til þess, sem þetta frv. gerir ráð fyrir nema 1 milljarði kr., ef frv. yrði samþykkt mundu útflutningsbætur verða lækkaðar um 1 milljarð kr., úr 3 milljörðum í um það bil 2 milljarða. Þetta sýnir og sannar að hv. þm. fer hingað upp í ræðustól til þess að halda langa ræðu og leggjast gegn frv. því, sem hér er flutt, án þess að hafa komist lengra í að lesa frv. en rétt um miðja fyrstu síðu, vegna þess að meginefnisatriðið í 2. gr. frv. er einmitt að koma í veg fyrir að slíkur niðurskurður verði. 2. gr. frv. gerir ráð fyrir því, að það meginkerfi verðábyrgðar, sem 1. gr. fjallar um, verði komið á í áföngum. Yrði frv. samþ. nú á þessu þingi, mundi niðurskurður á útflutningsuppbótum þannig ekki nema 1000 millj. kr., eins og hv. þm. Pálmi Jónsson sagði, heldur 231 millj., vegna þess að 2. gr. frv. gerir ráð fyrir að tilgangi 1. gr. verði náð í áföngum á 4–5 árum.

Ég sagði það í upphafi ræðu minnar, þegar ég ræddi um þetta mál, í framsöguræðu minni, að við flm. frv. værum fúsir til þess að fallast á athugun á því, hvort hægt væri að taka þessi skref eitthvað skemmri í áföngum en lagt er til að gert sé í 2. gr. Ég vil sem sé leiðrétta þetta: Ef frv. yrði samþykkt eins og það er úr garði gert, þá mundu útflutningsuppbæturnar ekki lækka um 1000 millj. kr., heldur um 231 millj. Greiddar útflutningsuppbætur á mjólkurafurðir yrðu 330 millj. kr., nákvæmlega eins og gert er ráð fyrir að greiða vegna útfluttra mjólkurafurða. Útflutningsuppbætur vegna útfluttra sauðfjárafurða yrðu samkv. frv. 1740 millj. kr. í stað 2070 millj. kr., eins og núgildandi kerfi gerir ráð fyrir. Heildarlækkun sem sé 231 millj. Ég vil aðeins leyfa mér að benda á að þetta er ekki mjög stórt spor í þessum efnum, vegna þess að hæstv. núv. ríkisstj. hefur í fjárlagaákvörðunum sínum oft ákveðið að mismunurinn á hámarksverðábyrgð lögum samkv. og því fé, sem ráðstafað er til útflutningsuppbóta með fjárlagaafgreiðslu, sé meiri en þetta. Ég vil því biðja menn að athuga og lesa frv. og kynna sér það áður en þeir taka til máls til þess að reyna að andmæla því. Ég vil biðja menn að reyna að athuga, að einmitt 2. gr. frv. gerir ráð fyrir að þetta skref til að lækka útflutningsuppbætur, sem ég fyllilega viðurkenni að bændastéttin gæti ekki staðið undir ef það væri tekið í einu lagi, á samkv. frv. að taka í áföngum á 5 árum.

Þá kom einnig fram í máli hv. þm. Pálma Jónssonar mjög alvarleg hugsanavilla, sem raunar kom einnig fram í ræðu hv. þm. Páls Péturssonar sem talaði á eftir Pálma Jónssyni, en það er þegar þeir gagnrýna mjög harðlega að fækka verði í bændastétt en fjölgun hjá neytendum. Það er ekki hægt að búast við því eftir því sem landbúnaðurinn vélvæðist meira, að það verði ávallt jafnmargir sem stunda landbúnaðarstörf á Íslandi og það gerðu áður fyrr, nema menn sætti sig við þá óumflýjanlegu staðreynd, sem slíku fylgir, að tækniframfarir komi ekki fram í því að draga úr vinnuafli, nema menn sætti sig við þá einföldu staðreynd, sem fylgir slíku, að hver og einn verkamaður eða launþegi í atvinnugreininni beri þá þeim mun minna úr býtum. Í útvarpsfréttum nú nýlega var frá því skýrt, að á tiltölulega skömmum tíma — ég man nú ekki hversu löngum tíma — hafi mjólkurframleiðendum fækkað um 1000. samt sem áður hefði mjólkurframleiðsla á þessum sama tíma í landinu stóraukist. Ef jafnmargir stunduðu mjólkurframleiðslu nú og gerðu við upphaf þess tímabils sem ég vitnaði til, 1000 fleiri framleiðendur, þá kæmi að sjálfsögðu minna í hlut hvers og eins fyrir þessa framleiðslu. Þá yrði að sjálfsögðu kaup bændastéttarinnar lægra. Varla er það það sem hv. þm. ern að keppa að. Þess vegna á það að sjálfsögðu ekki að vera gagnrýnisefni fyrir bændur, heldur fagnaðarefni, þegar neytendum landbúnaðarafurða fjölgar í landinu, vegna þess að ég býst varla við að nokkur búskapur mundi þrífast á því, að bændur seldu hver öðrum neyslumjólk, smjör o. s. frv. Það eru neytendur, sem eru undirstaða framleiðslunnar, — því að ef neytendurnir væru ekki, ef hinir mörgu bankamenn væru ekki, sem hv. þm. Páll Pétursson talaði um, hver á þá að kaupa framleiðsluna? Ég vil aðeins benda á, að þó að fækkað hafi í bændastétt hefur ekki orðið samdráttur í landbúnaðarframleiðslu, þvert á móti. Framleiðslan hefur stóraukist og ræktun landsins hefur einnig stóraukist á sama tímabili. Þetta er ósköp eðlileg og sjálfsögð þróun, og ég held að það væri betra fyrir íslenskan landbúnað og þjóðarbúið í heild ef t. d. þeir bændur, sem framleiða sauðfjárafurðir, gætu fundið markað fyrir allar afurðir sínar innanlands og nógu marga neytendur til að kaupa þessar afurðir við nógu háu verði, svo að bændur gætu fengið viðunandi laun, fremur en þurfa að flytja úr landi 40–50% af ársframleiðslunni fyrir miklu minna verð.

Þá sagði hv. þm. Pálmi Jónsson einnig, að tilgangurinn með útflutningsbótum væri sá að tryggja tekjur bænda. Þetta er alveg rangt. Tilgangurinn með útflutningsbótum er ekki sá að tryggja tekjur bænda. Tilgangurinn með útflutningsbótum er að veita ákveðna verðábyrgð gagnvart útflutningi, í þessu tilviki á afurðum landbúnaðar. Ef ætti að tryggja tekjur bænda fyrir sömu fjárhæð og hér um ræðir, um 3 milljarða kr., þá yrði það miklu betur gert á annan hátt en þann að verja þessu fé til þess að greiða með íslenskum landbúnaðarafurðum á erlendan markað, til þess að greiða þessar afurðir óbeint niður í erlenda neytendur, þar sem íslenska lambakjötið er á undirboði, eins og t. d. í Færeyjum, en þar er íslenskt lambakjöt boðið á lægra verði en færeyskt vegna þess að það selst ekki hér. Ef tilgangurinn væri sá, að þessir fjármunir væru notaðir til þess að tryggja tekjur bænda, þá væri miklu réttara að gera það með einhverju öðru móti, t. d. með því móti að greiða niður rekstrarafurðir til bænda, eins og þeir sjálfir hafa bent á, eða t. d. með því móti, sem vel getur verið nauðsynlegt hér á landi eins og það hefur verið nauðsynlegt annars staðar, bókstaflega að greiða bændum styrk fyrir að framleiða ekki. Þegar um er að ræða mjög mikla umframframleiðslu á tiltekinni afurð, þá getur þetta orðið. Ákvarðanir um slíkt eru teknar að sjálfsögðu með talsverðum fyrirvara. Það er ekki ákveðið viku af sumri eða eitthvað slíkt, hve framleiðslan verður mikil hjá sauðfjárbóndanum. Hann er búinn að fjárfesta og taka ýmsar ákvarðanir löngu áður, þannig að hann getur ekki lagað framleiðslu sína eftir árferðissveiflum á markaði hverju sinni. Það hefur oft reynst nauðsynlegt úti í hinum stóra heimi að styrkja einmitt framleiðslugreinar með því að greiða bændum bein framlög, beina fjárstyrki fyrir það að framleiða ekki afurðir sem ekki er hægt að fá markað fyrir. Það væru ýmsar svona hugmyndir sem kæmu til álita, ef tilgangurinn væri sá, að útflutningsbæturnar væru til þess að tryggja tekjur bænda. En tilgangurinn er ekki sá með útflutningsbótum, — hann er ekki sá, þó að ég viðurkenni að sjálfsögðu að ef þessar bætur væru felldar niður án þess að neitt kæmi í staðinn, þá mundi íslensk bændastétt hljóta mikinn skaða af.

Þá lagði hv. þm. Pálmi Jónsson í að gagnrýna þá útreikninga, sem fylgja með í fskj. með frv. þessu, töflurnar á bls. 6, 7 og 8, á þeirri forsendu að ég hefði valið þessar útreikningsreglur og sett Hagstofu Íslands fyrir hvernig hún ætti að reikna út þá útkomu sem þar kemur fram. Það er alveg furðulegt að nokkur þm. skuli geta gert sig sekan um slíkt sem hv. þm. Pálmi Jónsson gerir, að þegar lagðir eru fram útreikningar frá virtustu sérfræðistofnunum þjóðfélagsins á þessu sviði, þá svarar hann út í hött með þeim hætti að ásaka þann, sem leggur þessa útreikninga fram, fyrir að hafa villt um fyrir þessum sérfræðistofnunum — í þessu tilviki Hagstofu Íslands — og fengið Hagstofu Íslands til að gera einhverja útreikninga í samræmi við fyrirframgefnar niðurstöður þess sem um útreikningana biður. Ég vil aðeins taka það fram, til þess að það komist inn í þingtíðindi, þó að hv. þm. sé ekki staddur hér í salnum, að þetta er algjörlega rangt. Ég hafði engin afskipti af því, hvaða útreikningsaðferðum Hagstofa Íslands beitti við útreikningana á töflunum á bls. 6, 7 og 8 sem fylgja þessu frv. Ég óskaði aðeins eftir því, að starfsmaður Hagstofunnar gæfi mér upplýsingar um þau efni sem þar er frá greint. Hann gerði það, gaf mér þessar upplýsingar sem eru í þessum töflum, reiknaði þessar töflur út og sendi mér þær, og ég birti þær hér. Ég vil aðeins taka það fram, að hann vakti t. d. sjálfur athygli mína á því, að tafla I sýndi fram á að hámarki verðábyrgðar hefði verið náð alls í 8 ár af 14 árum á tímabilinu frá 1963–1977 og það væri mun meira en haldið hefði verið fram opinberlega í blöðum, útvarpi og sjónvarpi. Hann benti mér á þetta sjálfur, þessi starfsmaður Hagstofunnar. Þetta er ekki niðurstaða sem ég panta hjá einum eða neinum. Og ég vil vinsamlega biðja þm., sem vilja ræða um svona mál á einhverjum sæmilega skynsamlegum grundvelli, að vísa ekki upplýsingum eins og koma fram í þessum töflum á bug aðeins á þeirri forsendu, að hér sé um falsanir frá Hagstofu Íslands að ræða, sem unnar hafi verið samkvæmt pöntun frá mér. Það er raunar alveg furðulegt, að menn sem vilja telja sig málsvara, forsvarsmenn bændastéttarinnar í slíkum málum, skuli leyfa sér að beita slíkum röksemdum og þeim skuli detta í hug að bændur eða raunar nokkrir landsmenn trúi slíkum viðbárum.

Eins og kemur fram í töflu II á bls. 7, þá hefur það ekki aðeins gerst á þessum 14 árum, að útflutningsbætur úr ríkissjóði hafi hækkað í krónum úr 160 millj. í 2301 millj., heldur hafa þessar útflutningsbætur hækkað í raunverulegum verðmætum frá ári til árs. Þær hafa hækkað miðað við framfærsluvísitölu 2. febr. ár hvert 1. febr. 1964 sett fram sem 100 — þær hafa hækkað allt upp í 68.9% umfram það sem þær voru við upphaf tímabilsins, árið 1963–1964, þó að það tímabil hafi verðábyrgðin náð því hámarki sem lög leyfa. Á þetta leyfi ég mér að benda, vegna þess að þessi staðreynd kom fram í þeim útreikningum sem Hagstofa Íslands lét mér í té.

Hv. þm. Pálmi Jónsson svaraði því til, að það væri auðvitað ekkert mark takandi á þessu, það, sem ætti að horfa á í þessu sambandi, væri hvort hlutfall ríkisútgjalda á þessum tíma hefði vaxið meira eða minna en hlutfali útflutningsuppbóta. Og ég leyfi mér þá að spyrja: Finnst hv. þm. eðlilegt, að ef Alþ. tekur þá ákvörðun að auka t. d. framlög á fjárlögum til almannatrygginga, leggja út í miklar framkvæmdir á sviði sjúkrahúsabygginga, auka sjúkratryggingar, kaupa Víðishús — svo eitt annað dæmi sé nefnt — fyrir stórfé, þá eigi það að fylgja, að útflutningsbætur vegna landbúnaðarafurða hækki að sama skapi? Þetta er náttúrlega alveg furðuleg röksemdafærsla. Þetta er svipuð röksemdafærsla, raunar miklu verri röksemdafærsla en felst í því kerfi sem nú er í gildi, að ef vel árar til rekatöku, ef dúnbændur afla góðrar dúntekju, ef silungsveiði er góð, ef uppskera af tómötum og gúrkum í Hveragerði tekst óvenjulega vel, þá eigi útflutningsbætur á útflutt lambakjöt úr ríkissjóði að hækka. Það er alveg furðulegt, að menn skuli beita slíkum röksemdum og telja þær vera eðlilegar. Að vísu hefur löggjafinn talið eðlilegt, að ef tómataspretta væri góð í Hveragerði, ef dúntekja væri góð hjá frændfólki hv. þm. Sigurlaugar Bjarnadóttur í Vigur eða ef silungsveiðin væri góð, skilaði góðum arði í Vesturhópsvatni, þá skyldu útflutningsuppbætur á útflutt lambakjöt hækka. En mér finnst fráleit röksemdafærsla að halda því fram hér á hinu háa Alþ., að sama eigi að gilda ef framlög til almannatrygginga yrðu hækkuð, þá skuli einnig hækka í sama hlutfalli útflutningsuppbætur vegna landbúnaðarafurða, ef Víðishús er keypt, þá skuli það einnig hafa áhrif til hækkunar á fjárlög, þá skuli útflutningsuppbætur til landbúnaðarafurða hækka að sama skapi o. s. frv., o. s. frv. Þetta er auðvitað röksemdafærsla sem er algjörlega út í hött.

Hv. þm. Páll Pétursson talaði mikið um Álftanes, að aldrei hefði því verið spáð, að ættjörðin frelsaðist þar. Ekki skal ég deila við hann um það, hvort þeir, sem nú búa á Álftanesi eða hafa þar búið áður, eigi einhvern þátt í því öðrum fremur að frelsa ættjörðina. Hins vegar ætla ég að benda hv. þm. á það, ef hann ætlar að nota þessa samlíkingu þannig, að ekki sé mark takandi á neinni hugmynd, sem við Alþfl.-menn komum með í landbúnaðarmálum, bara af því að við erum Alþfl.- menn — að þá er farið að slá dálítið í þessar röksemdir. Alþfl.-menn geta að sjálfsögðu fengið ágæta hugmynd um landbúnaðarmál, ekkert síður en hv. þm. Páll Pétursson getur fengið góða hugmynd um tryggingamál eða eitthvað slíkt. Og ef hv. þm. Páll Pétursson hafnar hugmyndum okkar Alþfl.-manna á hann að gera það á öðrum grundvelli en þeim sem hann stóð á. Hins vegar hefur það verið siður manna nokkuð lengi í umr. um landbúnaðarmál að neita að ræða hugmyndir og till., sem þar eru fram settar, eingöngu vegna þess að þær séu settar fram af þessum, en ekki hinum. Það virðist vera að sumir vilji í þessum málum gera menn að einhverjum fyrsta og annars flokks borgurum, einhverjum patrisium og plebeinm. Það fer víst ekki á milli mála, hvern hv. þm. Páll Pétursson telur vera patrisía í þessum skilningi og hvern hann telur vera plebeia. A. m. k. efast hv. þm. varla um það, að sjálfan sig telur hann vera patrísía.

En ég vil aðeins benda hv. þm. Páli Péturssyni á það, að þeir tveir stjórnmálaflokkar, sem ráðið hafa ferðinni í málefnum bænda og málefnum íslensks landbúnaðar, eru Sjálfstfl. og Framsfl. Úr þessum tveimur flokkum hafa nær undantekningarlaust allir landbúnaðarráðherrar komið til skiptis. Þessir tveir flokkar hafa því til skiptis mótað hina opinberu stefnu í þessari atvinnugrein, — þá stefnu sem ríkisvaldið fylgir og fær aðra til þess að fylgja. Úr röðum þessara tveggja flokka hafa einnig komið allir hinir stéttarlegu foringjar bændastéttarinnar, þannig að engin ein starfstétt í landinu hefur um jafnlangan aldur notið jafn einhlítrar forustu, bæði fyrir félagsmálum sínum og í opinberum málum, og bændastéttin. Og hver er niðurstaðan? Niðurstaðan er sú, að bændur telja sjálfir að þeir beri ekki úr býtum nema um 60% af kaupi lægst launuðu stéttanna í landinu. Það er sú uppskera! Ég held að jafnvel patrisíarnir í Róm hefðu ekki verið neitt sérstaklega montnir af slíkri niðurstöðu. Ég er næstum því alveg viss um það, að Álftnesingarnir hefðu gert betur. A. m. k. er ég ansi hræddur um það, að hv. þm. Páli Pétursson fari ekki margar ferðir á fundi bænda þar sem mikil ánægja sé yfir þeirri stefnu í kjaramálum stéttarinnar og landbúnaðarmálum yfirleitt, sem hans flokkur og samstarfsflokkur hans í núv. hæstv. ríkisstj. hafa ráðið um áratugaskeið.

Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. þm., að t. d. hvað sauðfjárafurðir varðar, þá kallar íslenskur iðnaður eftir ýmsum vörutegundum, svo sem eins og gærum og ull. Gömlu söguna um, hvernig megi framleiða gærur án þess að kjöt fylgi er búið að nota svo oft að hún er ekkert sniðug lengur, enda er þetta vart fyndni á annarra manna færi en barnaskólanemenda. En ég vil aðeins leyfa mér að benda hv. þm. á það, að ef íslenskur iðnaður ræður því að bændur þurfa að framleiða 40–50% meira af kindakjöti — sem aukaframleiðslu — en neytt er í landinu vegna þess að svo mikil eftirspurn sé eftir ull og gærum, þá verður íslenskur iðnaður líka að greiða það sem það kostar. Það má ekki leggja þá byrði á neytendur eða ríkissjóð að standa undir slíku. Ég vil líka benda hv. þm. Páli Péturssyni á það, að mikið af gæruframleiðslunni er flutt út óunnið, mikið af ullinni er flutt út sem hráefni, óunnið eða að mestu óunnið, sem lopi og band. Og ég er sannfærður um að gærur og ull sem nemur þeirri kjötneyslu, sem íslenskur almenningur þarf á að halda, eru meira en nægilegt hráefni til fullvinnslu fyrir íslenskan iðnað. Ég hef ekki látið athuga þetta, en ég er alveg sannfærður um að þær söltuðu gærur, sem fluttar eru út, og það óunna ullarband, sem flutt er út, er meira en nemur því kjötmagni sem út er flutt á ári hverju, þannig að röksemdir um það, að íslenskur iðnaður þurfi á þessu að halda, eru ekki haldbærar. Ef hann þyrfti á þessu að halda, þá verður hann líka að greiða það verð sem bændur þurfa að fá til þess að geta látið íslenskum iðnaði þetta hráefni í té. Íslenskir neytendur — þeir sem drekka mjólkina, borða smjörið og kjötið — eiga ekki að þurfa að standa undir slíku.

Hv. þm. sagði mig fara með hroðalega spá um magn af óseldu kindakjöti í landinu, þegar ég nefndi það í framsöguræðu minni, að mér fyndist sennilegt að það væri 30–35%. Í útvarpsfrétt nú fyrir nokkrum dögum var frá því skýrt, og haft eftir formælendum landbúnaðarins sjálfs, að á yfirstandandi ári þyrfti að flytja út kindakjöt sem næmi yfir 50% af ársframleiðslunni. Ég vil einnig benda hv. þm. Páli Péturssyni á það, að í töflu I á bls. 6, — þessari margumræddu töflu sem Hagstofa Íslands lét gera fyrir mig, eða réttara sagt einn af starfsmönnum hennar gerði — er einmitt sýnt hvernig útflutningsuppbæturnar hafa skipst á milli sauðfjárafurða annars vegar og nautgripaafurða hins vegar verðlagsárin 1963–1977, í tveimur næstöftustu dálkunum. Að vísu hefur orðið víxl á yfirskrift, — þar sem stendur „vegna sauðfjárafurða“ á að vera „vegna nautgripaafurða og öfugt, — en þar kemur fram, að síðustu tvö árin hefur meginhlutinn af útflutningsuppbótunum orðið vegna útflutnings á sauðfjárafurðum. Verðlagsárið 1976–1977 eru útflutningsuppbætur vegna útfluttra sauðfjárafurða taldar 1971 millj. kr., en vegna útfluttra mjólkurafurða aðeins 330 millj. Og 1976 eru útflutningsbætur vegna útfluttra sauðfjárafurða 1395 millj. kr., en vegna útfluttra nautgripaafurða aðeins 225 millj. Þetta sýnir hversu offramleiðslan hefur verið mikil á þessari einu afurð. Og nýjustu fréttir, — ég get ekki ábyrgst þær, ég heyrði þær eins og hver annar útvarpshlustandi, — nýjustu fréttir, sem fara af þessu gegnum ríkisfjölmiðlana, segja okkur að þarna sé um að ræða um 50% af heils árs framleiðslu af lambakjöti, — kindakjöti sem verði að flytja út á yfirstandandi ári.

Um róginn um óhollustu landbúnaðarafurða ætla ég ekki að ræða í þessu sambandi. Ég vil ekkert um slíkt dæma. Við skulum bara gera okkur grein fyrir því, að það hafa verið að skapast ákveðnar neysluvenjur í landi voru, sem eru öðruvísi í dag en þær voru. Það er ákaflega erfitt fyrir einn eða annan að standa gegn slíkum neysluvenjubreytingum, ekki síst þegar samfara þessum neysluvenjubreytingum er rekinn — ég vil ekki segja áróður, heldur upplýsingastarfsemi lækna og manneldisfræðinga sem ýtir mjög undir það, að þessi neysluvenjubreyting verði. Ég vil aðeins benda mönnum á það, að jafnvel veruleg verðhækkun á landbúnaðarafurðum nægir ekki til þess að snúa þessu hjóli aftur við. Það er ekki verðlagið, sem ræður úrslitum í þessu sambandi, heldur sú neysluvenjubreyting sem verið hefur að gerast í landinu að undanförnu. Og það þýðir ekkert að rembast eins og rjúpan við staurinn við að reyna að mótmæla eða koma í veg fyrir að þessi neysluvenjubreyting gerist. Þetta hefur verið að gerast, þetta er að gerast og líklegt er að þessi þróun haldi áfram bæði hér á landi og annars staðar. Ég er ekki með þessu móti að segja að landbúnaðarafurðir séu hættulegar eða eitraður varningur eða neitt í þá áttina, enda veit ég ekki um nokkurn mann sem heldur því fram, en menn halda því fram, að neysla á dýrafitu í óhófi sé ekki holl. Ég held að það sé mjög hæpið að hægt sé að hafa þau áhrif, bæði á manneldisfræðinga og á neysluvenjur almennings, að frá þessum neysluvenjum, sem hafa verið að skapast, verði horfið.

Aðeins í lokin vil ég svo biðja menn að hugleiða það sem ég sagði þegar ég vék að því, að það væri varla hægt að ætlast til þess að þjóðarbúið stæði öllu lengur undir þeim kostnaði sem hlytist af því að taka á sig verðábyrgð af varanlegri offramleiðslu á einni tegund afurða sem framleidd er í þjóðarbúinu, þegar sú offramleiðsla nemur 35–40% af því sem framleitt er í heild, þegar þarf að flytja út á verðábyrgð ríkissjóðs 35%, jafnvel upp í 50% af framleiðslunni, og það ástand hefur varað um talsvert langan tíma. Þetta er stefna, sem ekki er æskileg. Ég tel að engum hafi fundist það réttmætt fyrir 18 árum, þegar frv. um breyt. á framleiðsluráðslögunum með útflutningsuppbótakerfinu var samþykkt, þá hafi engum fundist æskilegt og ekki einu sinni líklegt, að sú þróun yrði að framleiðsla á kindakjöti á Íslandi yrði 35–40% umfram innanlandsþarfir. Ég held að enginn geti með réttu haldið því fram, að æskilegt sé að festa þetta til frambúðar.

Ég vil aðeins henda á hvað það mundi hafa í för með sér fyrir ríkissjóð ef aðrir atvinnuvegir, sem einnig flytja út afurðir, nytu verðábyrgðar með svipuðum hætti. Heildarframleiðsluverðmæti sjávarvinnslunnar á síðasta ári nam 83 milljörðum kr. samkvæmt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar. Ef þessi atvinnugrein ætti að njóta sambærilegrar verðábyrgðar og landbúnaðurinn, þyrfti á fjárlögum á yfirstandandi ári að verja í því skyni og útvega tekjustofn í því skyni sem næmi 8.3 milljörðum kr. Heildarframleiðsluverðmæti iðnaðarframleiðslunnar nam á síðasta ári 66 milljörðum kr. Nú vitum við að iðnaðurinn kvartar mjög undan því að búa ekki við eðlilegar samkeppnisaðstæður varðandi bæði innfluttar iðnaðarvörur á erlendum mörkuðum og heldur því fram, að það ástand, sem iðnaðinum er boðið hér á Íslandi, orsaki það að iðnverkafólki séu greidd lægri laun hér en það ætti skilið að fá og sé með lægst launaða fólkinu í landinu. Því má með réttu halda því fram, að það gæti verið rétt að tryggja þessu fólki tekjur — eins og sagt var í umr. hér á dögunum með því að veita iðnaðinum verðábyrgð á útflutning sinn. Sú verðábyrgð þyrfti að nema á fjárlögum yfirstandandi árs tæplega 7 þús. millj. kr. Samanlagðar verðábyrgðir sjávarvinnslu vegna útflutnings og iðnaðar vegna útflutnings þyrftu því á yfirstandandi ári að nema 15 þús. millj. kr. á fjárlögum íslenska ríkisins, ef þessar atvinnugreinar ættu að búa við sambærilegt kerfi og landbúnaðurinn. Þetta tel ég vissulega vera mikinn vanda ef upp kæmi.

Ég tel mjög óeðlilegt að verðábyrgð sé veitt með þeim hætti sem gert er í gildandi lögum. Þess vegna höfum við þm. Alþfl. lagt fram till. okkar um hvernig hægt sé að hverfa frá þessu ranga kerfi varlega og í áföngum. Ég óska eftir því, að hv. þm. geti rætt þessi mál málefnalega og illindalaust og umfram allt að þeir sýni bæði okkur flm. og Alþ. þá virðingu að lesa frv. fyrst, áður en þeir fara að tala um það.