09.03.1978
Sameinað þing: 55. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2842 í B-deild Alþingistíðinda. (2087)

83. mál, raforkusala á framleiðslukostnaðarverði til stóriðju

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Í ítarlegri og ágætri framsöguræðu 1. flm. s. l. þriðjudag gerði hann grein fyrir þessari till. og þeim hugmyndum sem þar búa að baki. Mér er ljóst að flm. þessarar till. stefna fyrst og fremst að því að koma sölu orku, m. a. til orkufreks iðnaðar, í fastara horf en nú er. Hins vegar verð ég að segja það, að ég tel að sú hugmynd, sem hér er sett fram, að festa slíka sölu við a. m. k. meðalframleiðslukostnaðarverð heildarframleiðslu raforku í landinu, sé ákaflega erfið í framkvæmd, ef ekki óframkvæmanleg. Ég held að fara verði aðrar leiðir, sem ég mun koma að síðar.

Ég vil freista þess að sýna fram á, að eins og þetta er þarna sett fram verður varla komið á þeirri festu sem að er stefnt. Ég vil jafnframt segja það í upphafi máls míns, að mér finnst málflutningur stundum einkennast af vissum fordómum eða andstöðu við það, sem stundum er nefnt orkufrekur iðnaður almennt. Ég held að sú andstaða hljóti að vera á einhverjum misskilningi byggð, því orkufrekur iðnaður er að sjálfsögðu ekki allur af hinu illa. Okkar orka er með verðmætustu og dýrmætustu náttúruauðæfum okkar og hlýtur að verða ákaflega mikilvæg undirstaða iðnaðar í þessu landi. Ég hygg að við getum öll verið sammála um það. Mig grunar að þessi andstaða sé öllu fremur af þeim rótum sprottin, að ýmsir eru andsnúnir erlendri þátttöku í íslenskum atvinnuvegum eða stóriðju sem kölluð er stundum, þ. e. a. s. mjög stórum og viðamiklum fyrirtækjum sem henta illa í smáum íslenskum byggðarlögum. Undir þetta sjónarmið get ég sannarlega tekið að mjög miklu leyti, þó ég vilji skoða hvert tilfelli um sig. En mér finnst þetta raunar ekki vera til umræðu. hér, við erum að ræða um verð á raforku til orkufreks iðnaðar, m. a. Áburðarverksmiðju ríkisins, fyrirtækja eins og graskögglaverksmiðja og fjölmargt fleira annað en álver og þess háttar hluti. Þetta vil ég taka fram í upphafi, þannig að ég mun reyna að sneiða hjá því að ræða við þessa umr. um þetta mál almennt, um stóriðju sem slíka.

Hvað er þá meðalframleiðslukostnaður heildarframleiðslu raforku í landinu? Þetta kemur ekki, að því er mér finnst, nægilega fram, hvorki í þessari þáltill. né í þeirri framsögu sem hér var flutt. Er átt við heildarsmásöluverð raforkunnar til allra notenda í landinu og þá deilt í með heildarkílówattstundafjöldanum? Það yrði áreiðanlega nokkuð einkennileg tala. Ég efast um að nokkur greiði raforku eftir þeirri tölu. Þarna kemur inn í ýmislegt sem erfitt er að átta sig á. 1. d, verða menn að gæta þess að taxtar eru ákaflega breytilegir: almennur taxti eða heimilisnotataxti, taxti sem fyrst og fremst byggir á verði kwst., toppgjaldataxti, sem byggir aðallega á því, að menn fá heimild til að taka ákveðinn topp, og þeir sem geta nýtt það sem best yfir sólarhringinn fá lægra orkuverð með betri nýtingu, þ. e. a. s. orkuverð á hverja kwst. Það er til taxti sem heimilar að rjúfa raforkuna þegar toppar eru mestir eins og t. d. um hádegi þegar álag er mest á viðkomandi rafveitu, og er að sjálfsögðu verulega lækkað verð á raforkunni með tilliti til slíks. Þessi taxti er gjarnan notaður til upphitunar íbúðarhúsnæðis og kannske einhvers fleira. Það er til vélataxti sem borgar ákveðið fastagjald á stærð á rafmótor. Það er til taxti fyrir ótrygga orku o. fl., en ég ætla ekki að lengja þessa ræðu með að telja það upp, enda trúi ég því rannar varla, að flm. eigi við slíkt meðalgjald.

En þó er ekki rétt að um sé að ræða meðalframleiðslukostnað á raforku í heildsölu. Þá er ekki tekinn með framleiðslukostnaður sem hlýtur einnig að felast í flutningi raforkunnar til notenda, nema þá á háspennu. Ef um er að ræða meðalverð í heildsölu er einnig þar um ákaflega margt að ræða. Þar er um að ræða t. d. nýtingartíma. Í heildsölu er einnig greitt verð eftir toppi og svo annað verð fyrir orku sem fer síðan smám saman lækkandi, þ. e. a. s. eftir því sem toppurinn er betur nýttur. Verðið hreyfist eftir því, hve afhendingarspennan er há. Verðið fer eftir tæknilegum atriðum, eins og t. d. hvað fasafrávik er mikið. Fyrirtæki, sem geta komið í veg fyrir verulegt fasafrávik, sem er erfitt fyrir rafveiturnar að þola, fá verðlækkun.

Að sjálfsögðu liggur í hlutarins eðli, að verulegur fjöldi notenda raforkunnar borgar minna en þetta meðalverð. Það hlýtur að vera, annars væri það ekki meðalverð. Það fer náttúrlega eftir því, hve stórir þessir notendur eru. En er það þá ljóst, að þessir notendur, sem borga minna, kaupi þá raforku sem hentugast er fyrir viðkomandi veitu að selja? Nú er það gjarnan svo, að það er orkufrekur iðnaður sem getur lengt nýtingartímann. Það er staðreynd, því verður ekki mótmælt, og þess vegna hefur hann notið heldur betri kjara. Er hugsanlegt að einhverjir aðrir notendur geti boðið betri nýtingartíma eða notkun raforkunnar en slíkur iðnaður? Við þekkjum þá ekki marga hér á landi. Sjálfsagt er að stuðla sem mest að því.

Til að skýra þetta mál mitt aðeins betur vil ég vekja athygli á nokkrum grundvallaratriðum við vatnsaflsvirkjanir. Kostnaður við vatnsaflsvirkjun er 90% fjármagnskostnaður eða u. þ. b., 88–90%. Það er sem sagt fastur kostnaður sem skiptist á allar þær kwst. sem framleiddar eru, á hvaða tíma sólarhringsins sem er. Það er einnig mjög einkennandi við okkar kerfi, að nýtingartími er yfirleitt mjög stuttur, eða 4–5 þús. stundir, sem er ákaflega óhentugt, og þetta verður enn óhentugra þegar við aukum sölu okkar til rafhitunar húsa. Þar er nýtingartíminn einkum á veturna þegar vatnið er minnst, en langtum minni á sumrin þegar orkan er meiri aflögu. Þetta skapar mikið jafnvægisleysi í orkuframleiðslu sem mjög æskilegt er að reyna að losna við. Við getum líka nefnt dæmi — reyndar gerði ég það við líkar umr. á síðasta þingi að nefna þar dæmi, en ég ætla að reyna að gera það á dálítið annan máta núna. Við getum tekið íslenska orkuveitu sem hefur við skulum segja 4500 stunda nýtingartíma. Ef við miðum við Landsvirkjun eða Laxárvirkjun, þá er verðið, miðað við 4500 stundir í kringum 4 kr. hver kwst. Í það verð eru komin þegar þessi 90% af fjármagnskostnaði. Ef hins vegar tekst að framleiða kwst. á dauða tímanum, þ. e. a. s. á hinum 4500 stundum, þá yrði kostnaðarverðið þar í kringum 40 aura hver kwst. eða meðalverðið í kringum 2.20 fyrir þessar 2 kwst. sem ég hef nú tekið. Og þá er það sem sagt spurningin: Á þá að selja orkuna á 2.20 til allra, einnig hinna sem taka eingöngu orkuna á toppunum, sem er ákaflega óhagkvæmt, og eiga þeir, sem taka orkuna á afgangstímanum og hafa kannske lagt í verulegan kostnað til þess, einskis að njóta á móti? Ég held að slíkt sé röng stefna. Það má hins vegar vel hugsa sér að hækka orkuna á afgangstímanum eitthvað upp fyrir kostnaðarverð, þessa 40 aura, t. d. upp í 80 aura kwst. Þá mundi hinn almenni notandi fá lækkun frá 4 kr. niður í 3.611. Og við getum haldið svona áfram með dæmið. Við gætum hugsað okkur að selja afgangsorkuna á 1 kr. og þá fengi hinn almenni notandi lækkun niður í 3 kr. og 40 aura. Það má líta á þetta á ýmsa vegu, en staðreyndin er hins vegar sú, að það er ákaflega mikils virði fyrir rafveiturnar að losna við þessa afgangsorku, og orkufrekur iðnaður er einmitt sá iðnaður sem getur gert það og jafnað þannig út álagið. Ég vil taka það fram, að það, sem ég hef nú nefnt, er náttúrlega einfaldað dæmi, en það er í grundvallaratriðum svona. Í grundvallaratriðum er framleiðsla vatnsorkunnar og sala svona. Þetta er dálítið annað með dísilorku, því þar er hægt að stöðva orkuverið og spara að minnsta kosti olíu þegar það er stöðvað, og fjármagnskostnaður er þar minni.

Þar er meiri hráefniskostnaður svo hlutföllin verða þar töluvert önnur.

Margsinnis hefur verið sagt að frá störum raforkuverum verður raforkan dýr og óhagkvæm ef hún nýtist ekki á hæfilegum tíma, og ég þarf ekki að endurtaka það sem um það hefur verið sagt, þetta er staðreynd. Það er því eðlileg spurning, hvort virkja eigi stórt eða við eigum að virkja í smærri áföngum. Þetta er sannarlega umræðuvert og kemur náttúrlega að því, sem ég hef lengi talið kjarna þessa máls, skipulaginu. Við þurfum að líta fram í tímann og gera okkur grein fyrir því, hvernig við notum orkuna. Það er, held ég, langsamlega mikilvægasta atriðið.

Ég sagði áðan, að mér finnst of einstrengingslega snúist gegn orkufrekum iðnaði þegar um þessi mál er talað. Ég vil leggja áherslu á það, að ég tel orkufrekan iðnað ákaflega þýðingarmikinn fyrir íslenskan iðnað og íslenskt þjóðarbú, t. d. áburðarframleiðsluna, og ég efast um að áburðarframleiðslan stæði undir því, að borga þetta meðalverð sem hér er talað um. Ég efast um það. Það þýðir náttúrlega hækkun á áburði til bænda eða auknar niðurgreiðslur. Og hvernig verkar það á þjóðarbúið í heild? Ég er því einnig hlynntur að verksmiðjur eins og graskögglaverksmiðjur, sem geta sparað verulegan innflutning á fóðri, njóti þess, ef þær geta nýtt orkuna á þeim tíma þegar hún er aflögu og nauðsynlegast er fyrir rafveiturnar að koma henni í verð. Mér finnst sjálfsagt að þær fái að njóta þess.

Ég vil taka undir það, sem fram kom s. l. þriðjudag hjá hv. 6. þm. Reykv. Við vonum áreiðanlega öll, að járnblendiverksmiðjan í Hvalfirði verði arðbært fyrirtæki, og mér sýnist ekki óeðlilegt að hún njóti einnig þess, að þar má selja verulegan hluta af afgangsorku, sem sannarlega leiðir til þess að verð á orkunni til almennings frá Sigöldu eða stærri virkjunum verður lægra.

Hér er mikið rætt um ÍSAL. Í því sambandi ætla ég ekki að blanda mér mikið inn í umr. Þó vil ég nefna fáeinar staðreyndir.

Staðreyndin er sú, því verður ekki á móti mælt, sem kom fram hjá hv. 6. þm. Reykv., að ef Búrfellsvirkjun er tekin ein sér, miðlunin inni í Þórisvatni, línurnar til þéttbýlisins hér og varastöðin við ÍSAL, þá greiðir álbræðslan í orkuverði allan stofn- og rekstrarkostnað þessara mannvirkja á 25 árum. Ég hef engan heyrt mótmæla því. Þetta eru tölur sem fá má skýrar frá Landsvirkjun, hafa verið settar fram, og ég hef engan heyrt mæla því gegn. Þarna er deilan um allt annað. Þarna er deilan um hvort við viljum iðnað eins og álbræðsluna í þetta land sem er 100% í eigu erlendra aðila og er ákaflega stórt fyrirtæki og ýmsum þykir kannske of viðamikið fyrirtæki fyrir lítið íslenskt þjóðarbú. Þetta er bara allt annað mál, finnst mér. Mér finnst við alls ekki geta mótmælt hinu. Spurningin er hins vegar: Hefðum við heldur viljað vera án Búrfellsvirkjunar og þá jafnframt án álbræðslu en fá Búrfeilsvirkjun með álbræðslu? Þetta er kannske spurningin. Staðreyndin er sú og því verður ekki heldur mótmælt, að ekki fékkst lánveiting til Búrfells á sínum tíma án þess að sýna fram á góðan nýtingartíma orkuversins eða sýna fram á, að unnt væri að selja verulegan hluta af orkunni og þá fyrst og fremst afgangsorkuna til einhvers neytanda. Þetta vitum við öll. Mér finnst við vera að deila um keisarans skegg þegar við erum að deila um þessa hluti. Spurningin er bara hin: Var rangt að virkja Búrfell og fá með álbræðslu? Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess hér. Ég er að ræða hér um orkuverðið, og ég vil taka það fram, að ég vildi gjarnan að Íslenska álfélagið greiddi hærra verð fyrir orkuna en það gerir nú. Hins vegar hefur á þessu orðið veruleg breyting, m. a. með því að 1975 var samþykkt hér á hinu háa Alþ. breyting á samningnum við álbræðsluna, sem gerir ráð fyrir því að tengja raforkuverðið álverði. Hefur það þegar leitt til verulegrar hækkunar á verði til álbræðslunnar. Álbræðslan greiðir núna kr. 1.25 aura á hverja kwst. Það er mikil hækkun frá 24 aurum, sem var á sínum tíma, — að vísu er annað verðlag. Þetta er í erlendum gjaldeyri og einnig háð því hvernig hann breytist. Orðin er sem sagt veruleg hækkun á því verði sem var.

Það er einnig hárrétt, sem kom fram hjá hv. 1. þm. Suðurl., að álbræðslan hefur greitt mikið inn í íslenskt þjóðarbú á þessum árum sem hún hefur starfað. Ég hef hér nýlegar tölur, frá 1969, sem sýna að greiðslur sundurliðaðar í orku, skatta, vinnulaun og annað nema samtals á gengi hvers árs 15 milljörðum 489 þús. kr. til sept. 1977. Ég hugsa að það fari því nærri lagi, ef þetta er fært upp, að það séu 30–40 milljarðar. Og við höfum náttúrlega ekki lagt mikið fjármagn í álbræðsluna og það er af þeirri ástæðu sem sumir, eins og hv. 6. þm. Reykv., eru því fylgjandi, að erlendir aðilar eigi slíkt fyrirtæki að öllu leyti og taki á sig áhættuna. Ég er því mótfallinn. En ég viðurkenni að vísu fúslega að það hefði verið hið mesta brjálæði fyrir okkur Íslendinga að eiga meiri hluta í álbræðslunni. Hún hefur gengið heldur illa, markaðir hafa sveiflast. A. m. k. hefur ekki komið fram hagnaður af verksmiðjunni hér. Ég skal ekkert segja um það, hvort eigendur taka hann annars staðar, þetta er hringur sem hefur flesta hluti í sínum höndum, en ég þori að fullyrða að við Íslendingar hefðum ekki staðið undir því að reka slíkt fyrirtæki. Sá kostur var tekinn að taka ekki áhættu og leyfa erlendum aðilum að eiga þetta eingöngu, og það er sannanlegt að álbræðslan hefur greitt mjög mikið í íslenskt þjóðarbú.

En það er fyrst og fremst orkuverðið sem hér er til umræðu. Ég vil geta þess í þessu sambandi, að ég hef í dag fengið frá Landsvirkjun yfirlit yfir verð á orku frá Landsvirkjun við breytilegan nýtingartíma. Eins og ég sagði áðan, þá er þetta háð ýmsum atriðum, m. a. afhendingarspennu. Við 220 þús. volta spennu er verðið núna við 4500 stunda nýtingartíma 3.77 kr. hver kwst. Það gildir það sama fyrir alla. Miðað við 5500 stunda nýtingartíma lækkar verðið niður í 3.21 kr. hver kwst., og miðað við 8000 stunda nýtingartíma er verðið kr. 2.42 hver kwst. Þetta er verð sem allir geta gengið að, sem samninga gera við Landsvirkjun og tryggja ákveðinn nýtingartíma við 220 þús. volta spennu. Verðið til álbræðslunnar er 1.25 kr. og þar er um 8500 stunda nýting, sem sagt, það er svona rúmlega helmingurinn af því sem það ætti að vera samkvæmt hinni föstu gjaldskrá. Ég tek það fram, að þetta er allt saman forgangsorka, allt saman bundin orka sem ekki má rjúfa nema við alveg sérstakar aðstæður. Járnblendiverksmiðjan greiðir nú eftir gengisfellinguna fyrir forgangsorku kr. 2.67 kr. fyrir hverja kwst. og er það sambærilegt við taxtann 2.43, þ. e. a. s. járnblendiverksmiðjan er í dag komin upp fyrir taxta Landsvirkjunar í forgangsorkuverði, hvað sem verður svo á næstu árum. Ég hef alltaf verið því heldur andsnúinn og harma það, að verð til járnblendiverksmiðjunnar er bundið við norskar aðstæður og norska samninga. En engu að síður er þetta svona núna. Landsvirkjun býður einnig afgangsorku, sem hún kallar svo, við 220 þús. volt á 55 aura hverja kwst. Afgangsorka til járnblendiverksmiðjunnar er hins vegar 67 aurar hver kwst., en þess ber þó að gæta, að sú afgangsorka er að ýmsu leyti tryggari en afgangsorka sem boðin er á 55 aura kwst. Þetta er til fróðleiks fyrir hv. þm. þegar rætt er um þennan stöðuga samanburð á raforkusölu til orkufreks iðnaðar og verðs frá Landsvirkjun. Það má náttúrlega bæta því hér við, að áburðarverksmiðjan borgar sama og álbræðslan — 1.25 kr. núna hverja kwst.

Hér hefur ákaflega mikið verið gert að því að vísa í Norðmenn, og ég tók mig til á þinginu í fyrra og las álíka kafla úr þeirri skýrslu, sem hv. frummælandi var með hér, og hann las upp. Þar má finna mikinn fróðleik. Ég er honum sammála um það. En ég hef nú notað tækifærið síðan, því ég hef verið nokkrum sinnum í Noregi og reynt að kynna mér þessi mál, og mín niðurstaða hefur orðið sú, að þar er engu saman að jafna. Þegar maður fer að kynna sér málin og tala við þá menn, sem eru í þessu, þá er bókstaflega engu saman að jafna. Norðmenn losna við alla þá orku, sem þeir bókstaflega geta, á toppverði til Danmerkur og meginlandsins, það er allt samtengt. Þeir búa því alls ekki við sömu aðstæður í sínu raforkukerfi og við, því fer víðs fjarri.

Einnig er þess að gæta, að í Noregi eru 40 eða 50 rafveitur og m. a. eru fjölmargar rafveitur í einkaeigu orkufreks iðnaðar, afskrifaðar rafveitur þar sem verðið er bókað á nokkra aura hver kwst. Þetta jafnast út hjá þessum fyrirtækjum á ákaflega hagstæðu verði. Það sama má segja hér. Vitanlega hækkar okkar verð þegar við gerum nýja samninga t. d. við járnblendiverksmiðjuna. Ef það verður gert, yrði það að sjálfsögðu á allt öðru verði. Og þetta jafnast þannig út. En staðreyndin er bara sú, að þarna er samanburður útilokaður. Við höfum alls ekki þann möguleika að lækka okkar orkuverð til neytenda með sölu á afgangsorkunni á fullu verði til landanna hér í kringum okkur. Danir slökkva undir köttunum, spara olíuna þegar þeir fá afgangsorkuna. Það gera meginlöndin flestöll. Víða er orkuskortur, m. a. vegna andstöðu við kjarnorkuver o. s. frv. Ég ætla ekki að fara að eyða tímanum í að lesa að nýju upp úr þessari skýrslu um gamla og nýja samninga, þótt fróðlegt sé út af fyrir sig.

Ég sagði áðan, að að mínu mati væri það fyrst og fremst skipulag þessara mála sem skipti mestu máli, og það vil ég endurtaka. Ég held að við þurfum að snúa okkur að því að samtengja öll raforkukerfi landsins, fá sem stærstan markað, fá sem mest not fyrir stærri virkjanir um land allt. Við þurfum að leggja áherslu á það að skapa öllum iðnaði, innlendum iðnaði náttúrlega fyrst og fremst — og ég kalla innlendan iðnað þann sem við eigum að meiri hluta — aðstöðu til þess að nota þá afgangsorku sem við höfum á verði sem lækkar orkuverð til almennings í landinu. Við þurfum að fá samræmda stjórn á þetta orkukerfi, þannig að hið sama gildi um land allt og þjóðarhagsmunir séu aldrei fyrir borð bornir, þess sé gætt sem heildinni hentar best og hagkvæmast er. Ég held að þetta sé raunar langtum mikilvægara atriði en að kjósa nefnd og gefa henni ákveðna formúlu til að starfa eftir, eins og hér er sett fram, sem ég hef reynt að færa rök að og ég held að sé óframkvæmanleg. Ég held jafnframt að það kæmi vel til greina að ég flytti brtt. við þetta í þá átt, að stefnt verði að því að koma upp einni gjaldskrá fyrir heildsöluraforku í landinu, sem allir geti gengið að. Það væri að mínu viti mjög athyglisvert skref. Hver sá alíslenskur orkufrekur iðnaður sem við kjósum að setja hér upp, en með þátttöku erlendra aðila, hvernig sem það er, gangi þá að ákveðinni gjaldskrá, fái sína lækkun miðað við lengri nýtingartíma, fái sína lækkun miðað við hærri afhendingarspennu, fái sína lækkun miðað við hagkvæmara afl, þ. e. a. s. minna fasafrávik og þess háttar hluti. Þetta finnst mér að ætti að athuga.

Ég get upplýst það hér, að fram fer mjög mikið starf núna á vegum Landsvirkjunar einmitt til að athuga hvernig slíkur taxti gæti orðið.

Ég hef kynnt mér þetta mál, m. a. eftir að þessi till. kom fram, og fengið mjög athyglisverðar upplýsingar, sem að vísu eru ekki komnar á það stig, að unnt sé að ræða þær opinberlega. Starfsmenn eru að kanna slíka leið, sem er ákaflega eðlileg og gæti verið grundvöllur að samræmdu verði sem ég veit að með þessari till. er stefnt að, og það tel ég gott markmið.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri. Segja mætti ákaflega margt um þetta, sérstaklega þegar farið er út fyrir aðalefnið og talað um orkufrekan iðnað almennt og hvort hann eigi rétt á sér hér. En eins og ég sagði í upphafi, þá ætla ég að takmarka mál mitt fyrst og fremst við orkuverðið. Ég hef áður reynt að koma hér á framfæri, að því að ég hef talið, vissum grundvallarskýringum á því, hvernig verð á orku frá vatnsaflsverum byggist upp, en því miður, verð ég að segja, hefur mér ekki sýnst það bera mikinn árangur hjá vissum aðilum og ég geri mér því ekki stórar vonir nú.