27.10.1977
Sameinað þing: 10. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í B-deild Alþingistíðinda. (209)

22. mál, uppbygging þjóðvega í snjóahéruðum landsins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég þarf að sjálfsögðu ekki að taka það fram, að ég styð þá till. sem hér er flutt. Hér er vissulega um nauðsynjamál að ræða og virðingarverða tilraun hv. flm. þessarar þáltill. a.m.k. til að lenda á hvað hér er um að ræða.

En það, sem ég vildi aðallega vekja athygli á í sambandi við flutning þessarar þáltill., er í fyrsta lagi, að allir hv. flm. eru stuðningsmenn núv. hæstv. ríkisstj. og þar af leiðandi í meirihlutaaðstöðu hér á hv. Alþ. til ákvarðanatöku um framkvæmdir og það sem gera skal. Í því sambandi er rétt að benda á, eins og fram kemur í grg. með þessari till., að á síðasta Alþ. var flutt sams konar þáltill. og líklega — ég hef ekki athugað það — allir sömu flm. nú eins og þá voru. Og þá var mikið um þetta rætt og engin dul á það dregin að hér þyrfti að ráða bót á frá því sem verið hefur. Síðan þetta gerðist er búið að afgreiða vegaáætlun fyrir næstu 4 ár af þessum sömu hv. þm. sem að þessari þáltill. standa og stóðu þá að því að skera niður framkvæmdir í vegamálum a.m.k. um 25% varðandi framkvæmdagetu. Og þessir sömu hv. þm, hafa staðið að því þrjú undanfarin ár að skerða framkvæmdir í vegamálum um helming að því er varðar magn frá því sem var 1974, þegar núv. hæstv. ríkisstj. tók við og þessir hv. þm. komust í valdaaðstöðu á Alþingi.

Mér finnst því ekki að vel fari saman annars vegar tillöguflutningur af þessu tagi hjá þessum hv. þm. og hins vegar að bera saman í reynd þær ákvarðanatökur sem þeir hafa staðið að með atkvæði sínu hér á Alþ. á undanförnum árum. Það, sem auðvitað skiptir meginmáli, er að verkin tali, og þau hafa sannarlega talað hér á undanförnum árum. Verk þessara hv. þm. hafa vissulega talað skýru máli varðandi vegaframkvæmdir á undanförnum þrem árum. Þó að hér sé vissulega um mjög gott mál að ræða, þá er tillöguflutningur þessara hv. þm. að mínu áliti algjör sýndarmennska miðað við það sem þeir standa að sjálfir varðandi ákvarðanatöku í vegaframkvæmdum — algjör sýndarmennska. Hér er verið að reyna að slá ryki í augu kjósenda í trausti þess að verkunum, sem þeir hafa staðið að hér á Alþ. í sambandi við vegaframkvæmdir, sé gleymt, en þetta standi upp úr. Það er að mínu viti full ástæða til að benda á þetta, því að þetta eru staðreyndir, þessu getur engin mælt í mót.

Mér finnst ekki fara saman tillöguflutningur þessara hv. þm. annars vegar og hins vegar þær ákvarðanatökur sem þeir hafa léð máls á hér á Alþ. í sambandi við vegamál undanfarandi ár. En vel má vera að þeir bæti ráð sitt við endurskoðun vegáætlunar nú á þessu hausti. Engin sinnaskipti urðu við afgreiðslu vegáætlunar á s.l. vori, en vonandi verður það svo sem hv. þm. Lárus Jónsson segir, að þeir séu alltaf að hressast. (Gripið fram í.) Já, því miður keyrum við ekki á betri vegi með yfirlýsingunum eintómum, það verður að fylgja eitthvað á eftir. Þær nægja ekki þó góðar séu út af fyrir sig. (Gripið fram í.) Já, ég var einmitt að koma að því. Kannske Eyjólfur hressist í þessu sambandi, kannske það verði svo að eitthvert mark verði á takandi þeim vilja sem a.m.k. sýnist vera hjá þessum hv. þm. með flutningi þáltill. af þessu tagi. Það á eftir að koma í ljós. En undanfarin þrjú ár hefur engin endurreisn átt sér stað í þingliði þessara hv. þm. Það hefur allt farið niður á við varðandi þetta. Vonandi bæta þeir ráð sitt varðandi endurskoðun vegáætlunar nú á þessu hausti og við sjáum í raun og veru að þeir meini eitthvað með tillöguflutningi hér á Alþ. af því tagi sem þessi þáltill. gerir ráð fyrir. því miður hefur það ekki sést enn.

Ég skal svo ekki, herra forseti, lengja þessar umr, meira. En það er nauðsynlegt að benda á og vekja athygli á tillöguflutningi af því tagi, sem hér er um að ræða, og hins vegar verkum þessara sömu hv. þm. þegar þeir hafa aðstöðu til þess að hafa áhrif á gang og framkvæmdir mála hér á Alþ. þegar þeir skipa meiri hl. Það hefur sannarlega ekki farið saman í þessu tilfelli.