09.03.1978
Sameinað þing: 55. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2855 í B-deild Alþingistíðinda. (2090)

83. mál, raforkusala á framleiðslukostnaðarverði til stóriðju

Flm. (Páll Pétursson) :

Herra forseti. Það eru orðnar um þetta mál, eins og ég bjóst við nokkrar umr. Að mörgu leyti er ég ánægður með þær. Þó finnst mér að þær hafi ekki snúist eins mikið og ég hefði kosið um kjarna þessa máls sem ég hef hér verið að reifa, þ. e. a. s. framtíðarfyrirkomulag á raforkusölu í landinu. Tveir fyrrv. iðnrh. hafa gert mér þann heiður að taka til máls um þessa till. Það kann að vera að sumir af þeim, sem líka hafa andmælt mér, eigi eftir að verða iðnrh., ég veit það ekki gjörla. En allt um það, enn ber of mikið á milli okkar.

Ég fagna ákaflega ábendingum hv. þm. og hæstv. fyrrv. iðnrh. Jóhanns Hafstein, þar sem hann lagði áherslu á það, að sú n., sem fengi þetta mál til umfjöllunar, athugaði gaumgætilega þróunina undanfarin ár. Ég er alveg hjartanlega sammála hv. þm. um þetta. Hann er gamalreyndur hér á Alþ. og ábendingar eins og þessi eru mjög til eftirbreytni. Sannast sagna er sumt í nefndarstörfum okkar með helst til miklum losarabrag og mikill fróðleikur mundi aflast og margt mundi skýrast betur með því að rannsaka svona hluti ofan í kjölinn.

Þegar járnblendiverksmiðjusamningurinn við Union Carbide var til umræðu, þá lagði ég það á mig að kynna mér aðdraganda álverksmiðjunnar í Straumsvík og rakti nokkrar hliðstæður í ræðu. sem ég flutti þá. Jafnframt athugaði ég nokkuð hagkvæmniútreikninga t fyrravetur, þegar járnblendisamningurinn við Norðmenn var til umr. Þá lagði ég það á mig að athuga hagkvæmniútreikninga, sem gerðir voru að vísu við nokkuð aðrar aðstæður, en þó að mörgu leyti áþekkar, þ. e. a. s. um arðsemi þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum. En þá kom í ljós, að innri arðsemi afkastavaxtar — svo að ég noti tæknilegt orðalag — var áætluð h. u. b. sú sama í þessum tveimur fyrirtækjum. Á þetta minnir mig að ég hafi bent.

Hv. 6. þm. Reykv., Jóhann Hafstein, las úr tímariti sem ÍSAL gefur út. Ég hafði lesið í Dagblaðinu þessa grein sem hann vitnaði til, en ég vissi ekki einu sinni að ÍSAL gæfi út tímarit. Hv. þm. var svo vinsamlegur að lána mér eintak, sem hann hafði í pússi sínu, og ég sé að þetta er vandað tímarit á góðum pappír. Það hefst á grein sem heitir: „Hvernig skiptist kakan?“ Hún er eftir — ja, mér sýnist undirskriftin vera Ragnar Halldórssonar. Þetta er stórkarlaleg snarhönd. Síðan kemur frásögn af því, að dr. Wellinger eða Woellinger sé hættur. Þá kemur grein um orkuverð og skatta. Og síðan kemur kynning á nýjum tæknilegum framkvæmdastjóra sem heitir dr. Kristján Roth. Síðan kemur mynd af jólatrésskemmtun í jan. s. l. og hún var eins og á undanförnum árum mjög vel sótt. Tæplega 1000 börn og 500 fullorðnir komu í þetta skipti og var fullþröngt í húsakynnum mötuneytisins. Þetta minnir mig nú á Biblíuna. Það hefur þurft nokkuð til að metta allt þetta fólk. Og það er sannarlega ekki óheppilegt upp á frjósemina að vinna í þessu fyrirtæki (Gripið fram í.) Það voru tæplega 1000 börn, sem komu þarna, tæplega 1000 börn. Síðan kemur greinin um rafmagnsverð til ÍSALs, en þar vitnar einhver H. Jetzek og birtir útdrátt úr ágætri grein Halldórs Jónatanssonar og Jóhanns Más Maríussonar. Síðan er ferðasaga af Matterhorni. Og þá kemur grein um öryggi á vinnustað. Þar er námskeið í skyndihjálp og sjúkraflutningum. Þá eru myndir. Ég les, með leyfi forseta, textana undir myndunum : Hér er verið að læra að binda um sár á höfði. Unnar Andrésson og Krista kona hans við kennslu í skyndihjálp, er undir annarri mynd. Og síðan er verið að mynda þar sem menn eru að skralla sjúklingi inn í bil. Undir þeirri mynd stendur: Hvert einasta handtak þarf að læra sem allra best, því að það getur skipt öllu þegar til alvörunnar kemur. Og endar með þessari hressilegu kveðju: Lifið heil. Birgir Thomsen.

Þá er haus ritsins. Útgefandi er Íslenska álfélagið, ábyrgðarmaður Ragnar S. Halldórsson, ritstjórar Jakob Möller og Hans Jetzek. Svo eru myndir af starfsmönnum og Halli og Laddi hafa skemmt þeim. Steinaldarmenn, heitir ein greinin. Ég er nú ekki búinn að lesa hana. En svo er þess getið hér seint, að tveir starfsmenn hafi gengið nýlega í hjónaband, og auk þess er boðinn velkominn nýr borgari, þ. e. a. s. starfsmenn hafa líka átt eitt barn. Þetta er kannske þarflítill lestur og þó, vegna þess að það er út af fyrir sig ekki óeðlilegt að svo mikið fyrirtæki gefi út vandað blað og skemmtilegt rit fyrir starfsmenn sína, og sannarlega er það ekki vanþakkandi að öryggismálum sé sinnt á vinnustöðum. En svona fyrirtæki verða fljótlega mikið ríki í ríkinu, og mér finnst að þetta sanni það, sem ég sagði hér á þriðjudaginn var, hversu mikil áhrif svona fyrirtæki fá fyrr en varir í íslensku þjóðlífi, ekki einasta meðal starfsmanna sinna, heldur einnig út í frá. Fyrr en varir geta þau verið farin að hafa veruleg áhrif á stjórnmál í landinu, og það verður að stjórna því, eins og ég tók þá fram, a. m. k. með sérstakri hliðsjón af hinum miklu hagsmunum þeirra.

Eitt eða jafnvel fleiri — já, áreiðanlega fleiri en eitt af dagblöðum hér í Reykjavík héldu því statt og stöðugt fram eftir nýlegt prófkjör sjálfstæðismanna til uppstillingar fyrir alþingiskosningar í Rvík,að einn frambjóðandinn í þessu prófkjöri hefði verið alveg sér á parti studdur af forstjóra álversins, sem auk þess að vera forstjóri álversins er nú orðinn varaformaður Verslunarráðs Íslands. Og járnblendiverksmiðjan í Hvalfirði eða forstjóri hennar hefur farið fram á það, að sérstakir menn séu settir til þess hjá fjölmiðlum, ekki einasta hjá ríkisfjölmiðlunum, heldur líka hjá dagblöðum landsins, að kynna sér málefni Járnblendifélagsins til þess að hafa sem best samband við fyrirtækið. Þetta heitir víst á amerísku „Publie relations“ — og var nú ekki ráð nema í tíma væri tekið að við færum að kynnast því fyrirbrigði í framkvæmd.

Hv. 6. þm. Reykv. rakti — og raunar hafa fleiri hv. þm. gert það — tekjur af útflutningi álversins í Straumsvík á undanförnum árum og þær gjaldeyristekjur sem þarna hefðu myndast. Ég hef furðað mig á því, eftir að ég lenti í þeirri ógæfu að þurfa að fletta Hagtíðindum atvinnu minnar vegna, að þar er talinn mikilvægur þáttur í heildarútflutningi okkar Íslendinga útflutningur á áli og álmelmi. Mig langar að nota þetta tækifæri til þess að undirstrika það sérstaklega, að ég tel að þetta eigi að teljast að vísu, en það á ekki að teljast á sama skala og annað sem flutt er út frá þessu landi. Það á ekki að vera í þessari mynd, heldur á það að vera svona eins og á spássíunni. Það er vegna þess að andvirðið fyrir ál og álmelmi stansar ekki nema að litlu leyti í landinu. Þar með verða verslunarskýrslur ekki eins trúverðugar og ég hefði kosið að þær væru.

Það er e. t. v. rétt hjá báðum fyrrv. iðnrh., sem hér hafa tekið til máls, og ég dreg það ekki í efa — hjá Jóhanni Má og Halldóri Jónatanssyni í þeirri grein, sem hér hefur verið gerð að umtalsefni, að tekjur hafa verið verulegar af af þessu fyrirtæki. En þetta fólk, sem þarna vinnur, þessir menn, þetta ágæta vinnuafl, hefði náttúrlega skapað gífurlegar tekjur í þjóðarbúið, hvaða starf sem það hefði unnið á þessu árabili. 4 milljarðar eru kannske nokkuð há tala, verulega há tala. En ég vil vitna til þess, að okkar skárri skuttogarar báru að landi hátt í 1/2 milljarð á s. l. ári, og þá þarf ekki ýkjamarga skuttogara til þess að koma á móti fyrirtækjum eins og þessu. (Gripið fram í.) Þeir þurfa líka gjaldeyri til síns rekstrar. Ég er ekki að draga í efa að þær borgast upp, vélarnar í Búrfelli, og sú hefur vafalaust líka verið hugmynd Jóhanns Hafsteins, sem var hæstv. iðnrh. — ef ég man rétt — þegar þessi samningur var gerður. Hann hefur vafalaust ætlað þeim að borga þetta. En ég vil ekki líta á Búrfellsvirkjun sem sérstaka, afmarkaða einingu í raforkukerfi landsmanna. Ég vil láta hana vera í sömu spyrðu og aðrar virkjanir á Íslandi. Og það veit ég að hv. 2. þm. Vestf., Steingrímur Hermannsson, vill líka, vegna þess að við verðum líka að taka tillit til rafmagns sem framleitt er við Sigöldu. Við verðum líka að taka tillit til rafmagns sem framleitt er við Kröflu. Þau eru dýr þessi 7 mw., því er ekki að leyna. Við verðum líka að taka tillit til rafmagns sem framleitt er við Hrauneyjafoss. Ég hygg hins vegar að hv. þm. Jóhann Hafstein hafi ekki reiknað með, þegar hann gerði samninginn við Alusuisse, því vélasliti sem mér skilst að hafi verið örara við Búrfeil en gert var ráð fyrir, þannig að viðhaldskostnaður þessarar virkjunar mun verða talsvert miklu hærri en menn gerðu ráð fyrir á sínum tíma. Ég er ekki að álasa þessum heiðursöldungum fyrir þá samninga sem þeir gerðu. En ég hygg að reynslan hafi sýnt, að það hefði mátt hafa þessa samninga betri og þá fyrst og fremst með því að hafa þá hreyfanlega. Það er sjálfsagt alveg rétt, að Norðmenn hafa líka einhvern tíma fyrr á árum gert samninga, sem hafa reynst illa, og jafnvel kannske enn þá verri samninga en við gerðum við álverið. En Norðmenn hafa áttað sig og Norðmenn hafa sett sér reglur. Og það er kannske meginatriðið í þessum málflutningi okkar hv. 1. þm. Norðurl. e., Ingvars Gíslasonar, að kynna þær till. og þá aðferð sem Norðmenn treysta sér til þess að hafa á málinu. Hv. þm. Steingrímur Hermannsson taldi mjög mikil tormerki á að hægt væri að koma þessu á hér. Ég er ekki að tala um að við eigum að taka nákvæmlega taxta Norðmanna og innleiða hann hér. Það eru mismunandi aðstæður í þessum tveimur löndum. En þær eru líka að sumu leyti mjög svipaðar og við getum haft reglur Norðmanna mjög til hliðsjónar við þá lagagerð sem till. hnígur að.

Setjum svo, að það verð; sem álverið greiðir eða greiddi t. d. 1976, sem þá var 32% af verði því sem RARIK varð að greiða og Reykjavíkurborg fyrir orku frá Landsvirkjun, hafi verið sanngjarnt. Ef við gefum okkur það, að þetta hafi verið eðlilegt og sanngjarnt verð og allt gengið vel og samningurinn verið réttur, þá hefur hv. þm. Jóhann Hafstein okrað á þessu fyrirtæki þegar hann gerði samninginn. 1969 greiddu þeir 68%. Það er þessi munur sem gefur skýrasta mynd af hver þróunin hefur orðið. Séu 32% rétt tala, þá er 68% röng tala.

Hv. þm. Ingólfur Jónsson hefur náttúrlega sannað það með verkum sínum, að honum þótti raforkuverð í álsamningnum vera orðið of lágt. Ég man þá tíð, að hann fór ásamt með fleiri góðum mönnum til Sviss, og ef ég man rétt var hv. þm. Steingrímur Hermannsson í þeim hópi, til þess að ræða við Svisslendinga um hækkun á þessu rafmagnsgjaldi. Og þeir fengu nokkru áorkað, því að þeir hækkuðu þetta um 8%, úr 24% upp í 32%, en þar á móti kom að þeir gáfu heimild til að láta 25 mw. orku til viðbótar og til lengingar á kerskálunum, þannig að böggull fylgdi skammrifi.

Mér finnst að sendiför þeirra Steingríms og Ingólfs, hv. þm., hafi verið sönnun þess, að þeir hafi ekki verið ánægðir með orkuverðið, og ég efa það ekki, að báðir þessir menn hafa gengið eins langt og þeir mögulega gátu í því að hækka þetta orkuverð og gæta hagsmuna lands síns eftir því sem þeir höfðu kringumstæður til. En þeir höfðu ekki traustari grundvöll að standa á, vegna þess að undirbúningurinn var ekki betri en þetta.

Það hefur komið hér fram, að álsamningurinn væri undirstaðan að Búrfellsvirkjun, og hv. þm. Steingrímur Hermannsson hefur farið um það mörgum orðum, að hann hefði verið alger forsenda. Það kom raunar fram í umr. í fyrra um svipaða till., sem við Ingvar fluttum þá, að svo hefði verið. Þetta kemur ekki heim og saman við ummæli hæstv. fyrrv. iðnrh., Ingólfs Jónssonar, þegar hann hélt framsöguræðu í umr. um lagasetninguna um virkjun við Búrfell, en það rakti ég allt saman rækilega í fyrra og las upp þau ummæli, sem hann hafði sem svar við spurningu frá þáv. þm: Birni Jónssyni, þar sem hann fullyrti að þarna væru ekki tengsl á milli. Hins vegar hefur Steingrímur Hermannsson upplýst, að það hafi verið menn frá Alþjóðabankanum víð þessa samningagerð og haft á henni vakandi auga og hafi samningar víð Alusuisse verið skilyrði fyrir láni. Við hvað var þá lánveiting til Sigöldu tengd? Var hún kannske tengd við orkusölusamning? Þetta lá í orðum hv. þm. Steingríms Hermannssonar. (Gripið fram í.) Að vísu er nokkuð önnur aðstaða, en ekki er mikill eðlismunur á henni. Og hverju verða þá lánveitingar við Hrauneyjafoss tengdar? Hv. þm, Ingólfur Jónsson fullyrti, að haldið yrði áfram að gera stóriðjusamninga. Ég vona að hann reynist ekki sannspár um það. Og hann er áreiðanlega ekki sannspár um það, að hann sé búinn að koma mér á sitt mál, því að ég mun mæla áfram enn um sinn gegn ráðslagi eins og þessu.

Hv. þm. Steingrímur Hermannsson ræddi á faglegu máli um raforkusölu. Kom margt fróðlegt fram í ræðu hans eins og hans var von og vísa. En þó virðist mér að hann hafi misskilið nokkur atriði í mínum málflutningi. Ég hélt að það kæmi fram í okkar till. og grg. hennar, að við erum að tala þarna um heildsöluverð miðað við samsvarandi afhendingarskilmála, samsvarandi spennu, samsvarandi kringumstæður. Það er útúrsnúningur hjá hv. þm. Steingrími Hermannssyni, ef hann heldur að okkur hafi dottið í hug að ætlast til þess, að stóriðjufyrirtæki færi að borga heimilistaxta. Það var alls ekki ætlun okkar. Hann hefur naumast kynnt sér málflutning okkar nógu skilmerkilega, ef hann heldur þessu fram. Ég þóttist vitna mjög skilmerkilega í reglur Norðmanna, og þær hljóða einmitt um orkusölu til stóriðju sérstaklega, til orkufreks iðnaðar sérstaklega. En í mínum huga er meginatriðið að finna hreyfanlega vísitölu, sem breytist eftir aðstæðum. Raunar var hv. þm. Steingrímur Hermannsson í lok fyrri ræðu sinnar kominn á nokkuð svipaða skoðun, þar sem hann var farinn að tala um gjaldskrá sem allir gætu gengið að. Það verður auðvitað að vera breytanleg gjaldskrá, en hún verður að vera breytanleg á öllum flokkum eftir kringumstæðum og það er auðvitað mergurinn málsins.

Hv. þm. Steingrímur Hermannsson ræddi um, að sumir snerust einstrengingslega gegn orkufrekum iðnaði. Ég verð sjálfsagt að taka það til mín, því að þetta er ekki fyrsta dagstundin sem við spjöllum um þetta mál, við hv. þm., og ég er ekkert hræddur við það að vera kallaður einstrengingslegur. En ég snýst ekki einstrengingslega gegn orkufrekum iðnaði af hvaða tagi sem er og vitna því til sönnunar í það, að ég var flm. haustið 1974 að till. um stækkun Áburðarverksmiðju ríkisins og flutti þá mína jómfrúrræðu hér í þinginu.

Hv. þm. Steingrímur Hermannsson rakti í nokkuð löngu máli það sem hann taldi vera í dag söluverð til járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði, sem hann taldi núna vera 2.67 aura á kwst. (StH: Forgangsorka.) Já, en samkv. orkusölusamningnum, sem prentaður er í frv. frá 98. löggjafarþingi, þá segir svo, með leyfi forseta: „Jafnframt fari greiðslur fyrir orku fram í norskum krónum í stað Bandaríkjadollara.“ Þar er verið að vitna til gamla samningsins. „Orkuverð þetta er 3.5 aurar norskir á kwst. og samsvaraði það þá ca. 6.61 mill sem er næstum hið sama og taka mun gildi í Noregi samkv. áðurgreindum reglum hinn 1. júlí 1977.“ Þetta er nú líklega mesta hneykslið í öllum þessum samningi, því að það var búið að fella úr gildi þessar reglur, sem þarna er verið að vitna til, þegar þær voru prentaðar uppi á Íslandi —- búið að fella þær úr gildi í Noregi. En sleppum þessu.

Ef við gáum nú hvað 3.5 aurar norskir — sem blákalt er tekið fram í þessum samningi að eigi að greiðast — jafngildi í ísl. kr., þá jafngilda þeir núna 166 aurum eða eitthvað því um líkt. Hv. þm. vitnaði til gjaldskrár sem Landsvirkjun er nýlega búin að setja upp. Þetta er gjaldskrá, sem komin er fram nú fyrir stuttum tíma og markast af því, að við Sigöldu er hafin rafmagnsframleiðsla sem hvergi er hægt að koma í lóg, og þar vilja þeir náttúrlega heldur fá lítið fyrir rafmagnið en ekkert og setja þetta þannig upp. En nú eru það tiltölulega fáir sem hafa það á valdi sínu — það er alveg rétt hjá hv. þm. Steingrími Hermannssyni — að nota 8000 stundir og hafa nýtingartíma upp á 8000 stundir. Ætli það geri ekki í kringum 22 klst. á sólarhring. Ég hef nú ekki trú á — það kann þó að vera — að íslenskir orkukaupendur séu tilbúnir að kaupa þetta á þessu verði, sem sannarlega er ekki hátt og þarna orðið nokkuð ámóta og orkuverðið til þessara stóriðjufyrirtækja. Stappar það náttúrlega í okkur stálinu sem höfum verið að henda á þetta, því að þarna er eins og við sjáum ofurlitinn árangur af öllu okkar tali.

Ég get ekki fundið, þó að ólíkar séu aðstæður hér og í Noregi að nokkru leyti, að þá megi ekki hafa þessar reglur til hliðsjónar. Úr því að Norðmenn treysta sér til þess að finna vísitölu og binda sig við hana, þá hljóta okkar bestu menn að geta komið sér niður á svipaða hluti og unnið verk sem gæti komið að gagni ekki siður en þetta norska verk. Það er mjög fróðlegt að kynna sér þær umr. og aðdraganda þessa máls og undirbúning í Noregi. Það væri mjög svo fróðlegt fyrir þm. hér á Alþ. að kynna sér málsmeðferð og málflutning í norska þinginu, því að undirbúningur þessa máls og aðdragandi er að mínum dómi mjög til fyrirmyndar. Ég hef lagt á mig að lesa öll þau þskj., sem að þessu hníga, og það var stórfróðlegur lestur.