09.03.1978
Sameinað þing: 55. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2860 í B-deild Alþingistíðinda. (2092)

201. mál, framhald Inndjúpsáætlunar

Flm. (Sigurlaug Bjarnadóttir) :

Herra forseti. Við flytjum hér þrír Vestfjarðaþm., Steingrímur Hermannsson, Þorv. Garðar Kristjánsson ásamt mér, till. til þál. um framhald Inndjúpsáætlunar. Till. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar, að ríkisstj. skuli hlutast til um að bændur á svæði Inndjúpsáætlunar skuli næstu 5 ár eftir að starfstíma áætlunar lýkur halda þeirri lánafyrirgreiðslu til ræktunar, sem þeir hafa notið frá Stofnlánadeild landbúnaðarins og Byggðasjóði. Hið sama skal gilda um lánafyrirgreiðslu næstu þrjú ár til byggingarframkvæmda á áætlunarsvæðinu.“

Í raun og veru er þessi till. fram borin í framhaldi af fsp. sem hæstv. landbrh. svaraði hér eigi alls fyrir löngu í Sþ. Mér þótti, er ég bar fram fsp., svör hæstv. ráðh. í daufara lagi og heldur neikvæð; þannig að við töldum rétt að freista þess að fá vilja Alþ. til þess sem talað er um, þ. e. a. s. framlengingar lána til bænda á svæði Inndjúpsáætlunar.

Það er rétt, sem kom fram hjá hæstv. ráðh., og okkur er kunnugt um að það eru ýmsar fleiri byggðaáætlanir nú í gangi eða réttara sagt í undirbúningi. Má þar nefna Hólsfjallaáætlun, áætlun fyrir Dalabyggð o. fl., þannig að við skiljum fyllilega, að það eru fleiri landssvæði sem þarna þurfa athugunar við og er nauðsynlegt að koma til aðstoðar við með einhverri sérfyrirgreiðslu.

Það er óhætt að fullyrða, að því er varðar Inndjúpsáætlun, að hún hefur skipt sköpum fyrir þær sveitir, sem hún náði til. Hún hefur stöðvað frekari fólksfækkun við innanvert Ísafjarðardjúp, sem varð um tíma uggvænlega mikil. Einnig gengu yfir þessar sveitir mjög þungbær kalár nú í lok síðasta áratugs, þannig að horfur voru á að bændur mundu jafnvel í hópum flosna upp og hverfa burt úr þessu byggðarlagi. Þessi 4–5 ár, sem áætlunin hefur verið í gangi, hafa ótvírætt sýnt fram á, að hún hefur komið að því gagni, sem að var stefnt, að stöðva þessa þróun, treysta búsetu í þessu byggðarlagi og auka bjartsýni manna á að þarna sé hægt að stunda lífvænlegan búskap.

Enda þótt allt sé gott um þetta að segja, svo langt sem það nær, er það því miður staðreynd, að ekki hefur verið staðið við fyrirbeit áætlunarinnar eins og hún var úr garði gerð í upphafi. Það hefur ekki verið staðið við gefin heit af hálfu fjárveitingavalds, sem voru forsenda þess að áætlunin kæmi að fullu gagni. Þannig var við upphaf áætlunarinnar gert ráð fyrir að veita bændum á áætlunarsvæðinu 25% staðaruppbót á afurðaverð. Þessi uppbót hefur orðið hæst 14.29%, en er nú komin niður í 7%. Sérstök fjárveiting á fjárlögum skyldi standa undir þessum uppbótargreiðslum. Hún nam á fyrsta áætlunarárinu 5 millj. kr., en hefur síðan verið 7 millj. árlega nema árið 1976, er hún féll niður í 6.6 millj. Það segir sig sjálft, að sú upphæð hefur á undanförnum verðbólgutímum engan veginn gegnt hinu tilætlaða hlutverki. Sömuleiðis hefur komið í ljós, að ýmsir kostnaðarliðir, svo sem flutningskostnaður byggingarefnis og aðrir aðdrættir, voru vanáætlaðir í upphafi og jafnan hefur skort fé til að standa straum af nauðsynlegri framkvæmda- og yfirstjórn. Af þessum sökum hefur lagst meiri kostnaður á bændurna en áætlað var í upphafi. Við förum þó ekki fram á í þessari till. að fá áfram þessa árlegu fjárveitingu á fjárl. Hins vegar er þess farið á leit, að bændur á svæði Inndjúpsáætlunar njóti áfram á næstu árum þeirrar sérstöku lánafyrirgreiðslu er þeim var tryggð samkv. áætluninni, þ. e. 10% viðbótarláns úr Stofnlánadeild landbúnaðarins og 15% láns úr Byggðasjóði. Sérstaklega er lögð áhersla á ræktunarþátt áætlunarinnar, sem hefur orðið mjög út undan í framkvæmd hennar af ýmsum orsökum, m. a. þeirri, að ekki fengust skurðgröfur og önnur nauðsynleg tæki, er til þurfti, fyrr en á þriðja ári áætlunarinnar. Nú á lokaárinu eru horfur á að ekki verði ræktaður á tímabilinu nema aðeins 1/5 hluti þess sem til stóð. Þess vegna er í till. gert ráð fyrir að lánafyrirgreiðsla til ræktunar haldist enn, um 5 n. k. ár, en 3 ár til byggingarframkvæmda. Mér er kunnugt um, að nokkrir bændur hafa á s. l. sumri lagt fram umsóknir um þessi lán og það mundi koma þeim meira en illa ef nú yrði öllu kippt til baka, og ég tel að ósýnt yrði um afleiðingarnar af því að botninn dytti hér með úr áætluninni án þess að nokkuð kæmi í frekara framhaldi.

Ég hygg að Ísafjarðardjúp sé mjög glöggt dæmi um það, að landbúnaðarhérað verður að þróast samsíða sjávarsíðunni og afla fólkinu, sem býr í sjávarþorpunum, nauðsynlegra afurða og þá fyrst og fremst mjólkur. Ég hef áður á hv. Alþ. sýnt fram á óhagkvæmni þess að flytja mjólk á milli landshluta, eins og gerst hefur í þessu tilfelli fyrir vestan, með 40–50 kr. flutningskostnaði á hvern mjólkurlítra. Það liggur í augum uppi, að hagkvæmara væri að örva mjólkurframleiðslu í aðliggjandi landbúnaðarsvæðum til þess að sjá markaðinum í sjávarplássunum við utanvert Djúpið fyrir nauðsynlegri neyslumjólk.

Það hafa að undanförnu komið fram raddir, sem ég hygg að mjög hafi verið hlustað eftir, sem benda á að stóru tæknivæddu búin í landbúnaði séu ekki endilega það sem koma skal. Bent hefur verið á með skýrum rökum, að það eru meðalbúin sem bera sig best og skila hagkvæmustum afrakstri. Það eru einmitt þessi meðalbú, sem gert er ráð fyrir að byggð verði upp þarna við Djúpið, 25–30 kúa bú eða 350–100 kinda bú eftir því hvort um sauðfjárbúskap eða kúabúskap er að ræða. Ég held að það sé mjög hættuleg villukenning, sem stundum hefur verið haldið fram af misvitrum mönnum hér á mölinni í Reykjavík, að íslenskt þjóðarbú geti þrifist með því að hlúa að sjávarútveginum einum, en landbúnaðurinn væri í rauninni óþarfur og við gætum flutt inn landbúnaðarafurðir frá öðrum löndum, sem standa sig betur á landbúnaðarsviðinu. Þetta er auðvitað óviturlega mælt og af litlum eða engum skilningi á því, hvað landbúnaður hefur verið og er nauðsynlegur til þess að jafnvægi sé í atvinnurekstri okkar sem heild. Ég vil benda á það, að enda þótt ýmsum þyki landkostir heldur litlir við Ísafjarðardjúp, þá er þó hægt að reka þar mjög þokkalegan og myndarlegan búskap, auk þess sem þar eru mörg hlunnindi annars vegar. Má benda á það til gamans, að í Skjaldfannardal er staðsett nyrsta gróðurhús veraldar. Þar eru ræktuð í hrollkaldri návist Drangajökuls suðræn blóm, tómatar, agúrkur o. fl., sem annars þyrfti að flytja að. Ef við nýttum því möguleikana þar sem þeir eru fyrir hendi, þá hygg ég að við næðum á margan hátt betra jafnvægi og eðlilegri jafnstöðu í okkar atvinnulífi.

Ég vænti þess, að þessari till., sem ekki fer fram á mjög mikið, en varðar bændur á þessu svæði mjög miklu, — ég vænti þess að henni verði vel tekið, þannig að bændur fái áfram þessa lánafyrirgreiðslu svo að ljúka megi framkvæmd þessarar áætlunar með sómasamlegum hætti. Ef stjórnvöld kipptu nú í taumana og drægju í land varðandi þessa lánafyrirgreiðslu, tel ég ósýnt um hverjum vandræðum það mundi valda á svæði áætlunarinnar.

Ég vil, herra forseti, leggja til að að lokinni þessari umr. verði till. vísað til hv. atvmn.