09.03.1978
Sameinað þing: 55. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2863 í B-deild Alþingistíðinda. (2093)

201. mál, framhald Inndjúpsáætlunar

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. — Ég vil strax við þessa umr. lýsa stuðningi mínum við þessa till. Það fer ekkert milli mála, finnst þeim sem þekkja til þess, sem hér um ræðir, þess, sem lýtur að Inndjúpsáætluninni sem heild, að nauðsynlegt er að þeir, sem hér eiga hlut að máli, njóti þessarar fyrirgreiðslu sem hér er gert ráð fyrir enn um nokkurn tíma.

Ég skil nú ekki af hverju hv. 9. landsk. þm. hefur ekki gefið mér kost á því að verða flm. að þessu máli. Hv. þm. deildi á mig ekki alls fyrir löngu, sagði að það sýndi ókurteisi mína, að ég leyfði hv. þm. ekki að vera á öllum þeim málum sem ég væri 1. flm. að. Ég átti því fremur von á því, að hún brygði ekki á sama ráð. En það skiptir ekki máli.

Ég vil taka undir það, sem hér hefur komið fram og fram kemur í grg. með þessari þáltill., að þetta er nauðsynjamál. Það er enginn vafi á því, að með Inndjúpsáætluninni var treyst verulega búseta og framleiðsla bænda í Ísafjarðardjúpi, sem ella hefði orðið til þess að stór hluti af þeim hefði orðið að flæmast í burtu. Það er því ekkert lítið mál, að þessu lykti ekki á annan hátt en þann, að séð verði fullkomlega fyrir því af hálfu ríkisvaldsins, að þær umbætur, sem þarna hefur verið unnið að og er unnið að enn, komi að fullum notum. Ég sem sagt vænti þess og þykist vita raunar, að þessi till. hljóti greiðan gang í gegnum þingið. En ég vildi samt nota tækifærið núna við þessa umr. til að lýsa stuðningi mínum við hana.