13.03.1978
Neðri deild: 66. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2865 í B-deild Alþingistíðinda. (2098)

52. mál, ættleiðingarlög

Frsm. (Ellert B. Schram):

Hæstv. forseti. Ég geri hér grein fyrir nál. allshn. um frv. til ættleiðingarlaga.

Nefndin hefur fjallað ítarlega um frv. og fengið umsagnir frá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar, Jafnréttisráði og Lögmannafélagi Íslands. Þá hefur n. kallað á sinn fund Lúðvík Ingvarsson prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og Ármann Snævarr hæstaréttardómara, sem er form. þeirrar nefndar sem samdi frv.

N. hefur rætt um tilgang og áhrif ættleiðinga annars vegar og fósturs hins vegar. Sumir nm. vilja taka undir þau sjónarmið sem telja ættleiðingu ýmsum annmörkum háða með hliðsjón af lagalegum og félagslegum afleiðingum.

Lög um ættleiðingu hafa verið í gildi hér á landi frá árinu 1953 og er sú löggjöf sniðin eftir norrænni löggjöf. Ættleiðing er viðurkennd og framkvæmd hjá þeim þjóðum sem búa við svipaðar félagslegar og réttarlegar aðstæður og við Íslendingar. Íslenskt þjóðfélag hefur vissa sérstöðu vegna fámennis og skyldleika, sem gerir ættleiðingu vandmeðfarnari ef og þegar rofin eru öll tengsl við kynforeldra. M. a. af þeirri ástæðu leggur n. áherslu á að bæði kynforeldrar og kjörbörn séu rækilega frædd um lagaákvæði ættleiðingar og að börn séu frædd um kynforeldri sin, svo framarlega sem því verður við komið.

Nefndin taldi æskilegt að fram fari hér á landi ítarleg umr. og athugun á áhrifum ættleiðinga og hvort t. d. fóstur sé aðferð sem betur henti íslenskum aðstæðum. Ekki er lagst gegn þessu frv., enda nauðsynlegt að löggjöf um ættleiðingu sé lagfærð, á meðan sú leið er farin í grundvallaratriðum. Að því leyti er frv. til bóta og mælir allshn. með samþykkt þess með tveimur minni háttar breytingum.

Einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma. Svava Jakobsdóttir var fjarverandi þegar n. lauk afgreiðslu, en þrír nm., hv. þm. Ingvar Gíslason, Sighvatur Björgvinsson og Páll Pétursson, skrifa undir nál. með fyrirvara. Fyrirvari þeirra mun einkum vera fólginn í því, að þeir vilja, eins og fram kemur í nál., taka meira tillit til þeirrar aðferðar sem felst í því að börn séu tekin í fóstur, og að því leyti hefur n. bent á þá leið og vill gjarnan að það sé athugað nánar. Um þetta eru þó ekki allir nm. sammála.

Þessu til viðbótar skal aðeins tekið fram, að ættleiðing hefur verið viðurkennd í öllum nálægum löndum og í þeim þjóðfélögum sem búa við svipaðar aðstæður og við Íslendingar. Löggjöf á Norðurlöndum hefur tekið nokkrum breytingum á undanförnum árum, og þykir rétt og eðlilegt að íslenska löggjöfin um ættleiðingu sé lagfærð í þá átt sem við og norrænir frændur okkar eru sammála um. Lúta lagfæringarnar flestar að því að tryggja betur rétt barnsins frá því sem nú er.

Þá er þess að geta, að Evrópuráð hefur gert sérstaka samþykkt um ættleiðingu og það sem í henni á að felast, vissar meginreglur. Ísland er aðili að ráðinu og eðlilegt að við fylgjum þeim samþykktum sem þar eru gerðar, enda er okkar löggjöf, bæði nú og eins það sem felst í þessu frv., í öllum aðalatriðum í samræmi við það sem felst í yfirlýsingum og ályktunum Evrópuráðsins.

N. hefur skilað tveimur brtt., sem eru minni háttar og verða að teljast til leiðréttinga á frv. Tel ég ekki ástæðu til þess að lýsa þeim. Þær koma á sérstöku þskj. Þessu til viðbótar hefur n. láðst að gera breyt. á gildistökuákvæði frv., en í frv. segir: „Lög þessi taka gildi 1. janúar 1978: Þessu ákvæði verður augljóslega að breyta. Leyfi ég mér að leggja fram skriflega brtt. um það, að greinin hljóði svo: Í staðinn fyrir orðin „1. janúar 1978“ komi: 1. janúar 1979.