12.10.1977
Neðri deild: 2. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í B-deild Alþingistíðinda. (21)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Nú eru hafnar hér umræður af miklu kappi um það sem menn telja réttlæti frá ranglæti því sem við hefur verið haft.

Það er nú þegar búið að leggja fram hér á Alþ. eitt frv. og eina þáltill. um breytingar 3 þeim efnum sem hér hefur verið um að ræða, þ.e.a.s. á kosningalögum til Alþingis. Hér hafa tveir gamlir þingskörungar, sem báðir að vísu ætla sér að hætta þingmennsku, talað í þessu máli og talað um geysilega mikla þörf á að hrinda nú þeim mikla ójöfnuði sem þeir telja að uppi hafi verið varðandi kosningarrétt til Alþingis. Menn tala hér mikið um mannréttindamál í þessum efnum, og vissulega er það mannréttindamál að hafa kosningarrétt. En það er á fleiri sviðum sem menn ættu að hugleiða hvort ekki er mikill ójöfnuður og mikið misræmi milli þegna þessa þjóðfélags eftir því hvar þeir eru búsettir á landinu. Það eru líka mannréttindi, a.m.k. í hugum landsbyggðarfólks, að það hafi sama rétt, svo ég orði það eins og hv. þm. Magnús Kjartansson orðaði það — og Reykvíkingar til sömu lífsskilyrða úti á landi á hinum ótalmörgu sviðum sem dreifbýlisfólk hefur búið við stórkostlega skert mannréttindi miðað við Reykjavík.

Það er því ástæða til þess að vekja nú á síðasta þingi kjörtímabilsins þessa ágætu hv. þm., sem eru svo spenntir fyrir breytingum á kosningalögum og jafnvel stjórnarskrá varðandi vægi atkvæða á þm. eftir búsetu, minna þá á að það er á ótalmörgum öðrum sviðum sem herfilegt óréttlæti, ójöfnuður af hvers kyns tagi er ríkjandi í þjóðfélaginu, annars vegar milli þess fólks, sem býr úti á landi, og hins vegar þeirra íbúa, sem búa hér á þéttbýlissvæðinu, á Reykjavíkurhringnum. Það er ekki nægilegt að einblína bara á einn þátt í þessum málum.

Ég er ekki að standa upp til þess að mótmæla því, að það þurfi að lagfæra ýmislegt í þessum efnum. En mér virðist að þessir ágætu menn, sem fyrst og fremst tala fyrir þeim breytingum sem þeir vilja láta gera í þessum efnum, einblíni á þennan ójöfnuð, sem þeir kalla, varðandi annars vegar Reykjavík, Reykjanes og hins vegar, eins og hv. þm. Ingólfur Jónsson sagði áðan, íbúa Norðurlandskjördæmis vestra og Vestfjarða. En hvað reikna þessir hv. þm. inn í vægi atkv., eins og þeir tala um? Hversu mikið er að þeirra áliti, hversu þungt vegur það við vigtun á vægi atkv. t.d. Reykvíkinga eða Reyknesinga, að allt stjórnsýslukerfi landsins er hér á þessu svæði? Hversu mikil áhrif hefur það t.d. hjá forsvarsmönnum bæjar eða sveitarfélaga á þessu svæði að vera í tengslum við stjórnsýslukerfið, svo nánum sem þeir geta verið í Reykjavík og á Reykjanesi, miðað við það sem sveitarstjórnarmenn annars staðar á landinu þurfa að búa við? Hversu þungt vegur þetta við vigtun á vægi áhrifa kjósenda og skiptingu hér á Alþ. milli kjördæma? Ég held nefnilega að þessir hv. þm. horfi gjörsamlega fram hjá því, hversu aðstaða kjósenda hér í Reykjavík t.d. er allt önnur í þessum efnum heldur en hún er úti á landi. Það þarf líka að taka til greina að mínu viti. hver áhrif þessa eru á þetta mál.

Ef þeir hv. þm. Jón Skaftason og Magnús Kjartansson telja að hér sé um að ræða skerðingin á mannréttindum íbúa Reykjavíkur og Reykjaness, þá bið ég þá að hugleiða sérstaklega hvort þeir komi ekki auga á það, að mannréttindi eru brotin eða skert á ótalmörgum öðrum sviðum, annars vegar samanborið við íbúa dreifbýlisins og hins vegar við íbúa hér á Reykjavíkur- og Reykjanessvæðinu. Eða eru þetta einu mannréttindin sem um er að ræða að séu skert í okkar þjóðfélagi? Ég held að því miður sé það ekki svo. Það er staðreynd, að það er geysilega mikill munur varðandi lífsafkomu manna í þjóðfélaginu eftir því hvar þeir eru búsettir, og það er líka skerðing á mannréttindum.

Hv. þm. Ellert B. Schram sagði áðan að sá mikli áhugi, sem virtist ríkja hér á hv. Alþ. varðandi þessi mál, sýndi, svo að ekki væri um að villast, hvað brýnast væri í hugum manna um þessar mundir. Allt annað í þjóðfélaginu fellur að hans mati í skuggann fyrir þessu. Og vel má vera að fleiri hv. þm. sem þessarar skoðunar. Ég er það hins vegar ekki.

Ég skal ekki, hæstv. forseti, eyða lengri tíma að þessu sinni í umr. um þetta, en ég taldi rétt, vegna þess sem hefur komið fram í þess um umr., að koma þessum hugleiðingum mínum á framfæri.