13.03.1978
Neðri deild: 66. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2871 í B-deild Alþingistíðinda. (2102)

40. mál, skólakostnaður

Frsm. (Ellert B. Schram):

Hæstv. forseti. Öllum er kunnugt um að það eru tvær aðferðir til hér á þingi, ef menn vilja hafna frv. eða „drepa“ þau, eins og hv. síðasti ræðumaður tók til orða. Önnur aðferðin er sú, að leggja einfaldlega til, að frv. verði fellt eða till. verði felld. Hin er að láta till. daga uppi í viðkomandi n. Sú aðferð er oft notuð af tillitssemi við flm., eins og hv. alþm. vita mætavel.

Hins vegar hefur það skeð með þetta mál, að það hefur þrívegis verið flutt og þrívegis hefur menntmn. þessarar d. skilað áliti um að því skuli vísað til ríkisstj. til nánari athugunar. Þess vegna er það tilhæfulaus staðhæfing og röng ályktun, að menntmn. vilji drepa þetta mál. Ég get hins vegar ekki sjálfur farið leynt með þá skoðun mína, að ég tel það mikla annmarka á þessu frv., að það er útilokað að samþ. það eins og það er úr garði gert. Ég hef þó lýst því yfir í umr. um þetta mál og í umr. um önnur mál, að ég mundi fylgja hv. þm. Karvel Pálmasyni og öllum þeim öðrum sem koma með skynsamlegar till. um auknar fjárveitingar til skólabygginga og til íþróttabygginga. Þessi till. felur það ekki í sér. Það mun ekki standa á mér, ef slíkar till. koma fram, sem ráða bót á þeim mikla fjárhagsvanda sem íþróttamannvirkin eiga við að búa hvarvetna um landið. Þá mun ég fylgja þeim tillögum.

Sá hávaði, sem hv. flm. og síðasti ræðumaður gerir út af þessu máli og afgreiðslu menntmn., er algjörlega ástæðulaus þegar á það er lítið, að samkvæmt lögum skal ríkissjóður greiða helminginn af skólakostnaði og viðkomandi sveitarfélag hinn helminginn, en þegar um íþróttamannvirki er að ræða, eins og sundlaugar eru, þá greiðir íþróttasjóður til viðkomandi sveitarfélags eða viðkomandi íþróttafélags, sem byggir íþróttamannvirkið, allt að 70% af þeim helmingi. Hér er því meira bitamunur en fjár. Ég hef ekki reiknað það nákvæmlega út, en ég held að það sé öllum ljóst, að eins og reglan er núna, að helmingurinn sé greiddur af ríkinu og helmingur af sveitarfélagi, þá fylgir það á eftir, að Íþróttasjóður greiðir 50%, sem sveitarfélag greiðir aftur, allt að 70%. Þó þetta breytist þannig að reglan verði varðandi skólamannvirki um 75 á móti 25, þá er hér um sáralítinn mun að ræða sem skiptir sveitarfélögin ákaflega litlu máli. Okkur er hins vegar ljóst, sem höfum starfað hér í nokkur ár á Alþ., að það er sífellt vandamál að útvega fé til byggingar skólamannvirkja, listinn er mjög langur og óskir koma hvaðanæva að um að byggja skólamannvirki, og listinn er enn þá lengri frá þeim sveitarfélögum og aðilum sem vilja byggja íþróttamannvirki. Það er jafnvel svo komið, að slík mannvirki eru fullbyggð og búin að vera í notkun í mörg ár áður en Íþróttasjóður getur sinnt þeirri skyldu sinni að greiða sinn hluta í kostnaðinum af byggingu þessara húsa. Þess vegna er okkur miklu nær að reyna að leysa vandamál Íþróttasjóðs og afla honum meiri tekna, þannig að hann geti staðið við skuldbindingar sínar. Ég held að sú leið yrði miklu hagkvæmari og árangursríkari fyrir þau sveitarfélög sem hv. þm. hefur í huga.

Ég er ekki sammála þeirri reglu, að í lögum skuli vera ákvæði sem gerir greinarmun á styrkjum til aðila eftir því, hversu stórir viðkomandi staðir eru. Ég tel það vera ranga reglu í lögum og óviðeigandi. Þess vegna get ég lýst því alveg feimnislaust yfir, að ég er andvígur þessu frv. eins og það liggur fyrir, en ég styð vissulega þá hugsun að gera sveitarfélögum frekar kleift en nú er að ráðast í slíkar byggingar. Mun ég fylgja flm. og síðasta ræðumanni í slíkri tillögugerð, ef hún er skynsamlega úr garði gerð.