13.03.1978
Neðri deild: 66. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2872 í B-deild Alþingistíðinda. (2103)

40. mál, skólakostnaður

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Ég hef aldrei farið í grafgötur um afstöðu hv. þm. Ellerts B. Schram til þessa máls eða mála hliðstæðra þessu, sem varða hina smærri og verr settu staði. Það hefur komið fram og er mér ekkert nýnæmi, að hann er í afstöðu sinni til þessara mála andvígur því, að þessum hinum smærri stöðum sé gert kleift að standa jafnfætis því kjördæmi sem hann er þingmaður fyrir, þ. e. a. s. Reykjavík.

Hv. þm. sagði: Þetta er bitamunur, en ekki fjár. — Já, það má svo sem vel vera, að þessi hv. þm. telji svo vera. En við höfum nýjasta dæmið um þetta fyrir augum. Sjávarpláss, sem telur um 1100 íbúa og er vestur á fjörðum, þarf að borga 35 millj. kr. meira, eins og lögin eru í dag, en það hefði þurft að gera ef frv., eins og það liggur fyrir, hefði verið í gildi. Það er talsvert mikið fé. Ég hygg að íbúum þessa staðar þyki það ærin byrði að axla 35 millj. vegna þessa eina mannvirkis sem hér um ræðir, þó að hv. þm. Ellert B. Schram, 11. þm. Reykv., telji þetta bitamun, en ekki í fjár. Ég er a. m. k. viss um að flokksbræður hans vestra eru honum ekki sammála um það, að einungis sé um að ræða bitamun, en ekki fjár. Og þó að ég taki þetta sem dæmi, sem ég hef nú nefnt, þá blasir þetta hvarvetna við á öllum þessum smærri stöðum, sem ekki hafa getað byggt þessi mannvirki vegna kostnaðarins sem í kringum þau er. Ef út í þetta yrði farið eða í það yrði ráðist, þá blasir við að þessir smáu staðir þyrftu að leggja fram milljónatugi til að standa undir framkvæmdum af þessu tagi. Það er bitamunur, en ekki fjár, segir Ellert B. Schram. Það er hægur leikur að segja svona lagað hér á Alþ. En ég hygg að ef þessi hv. þm., og aðrir alþm. finnast sömu skoðunar og hann, ef þeir kynntu sér kringumstæður, aðstæður á þessum stöðum, aðbúnaðinn, þá hygg ég að þessum annars ágætlega gefnu þm. á borð við hv. þm. Ellert B. Schram yrði ljóst, að það eru rangar hugmyndir sem þeir hafa gert sér um aðstöðuna á þessum stöðum. Þeir hafa ekki komist í snertingu við raunveruleikann sem þarna er um að ræða. Kæmust þeir það, sem væri óskandi, er ég viss um að miklum mun betur gengi að koma þeim í skilning um það, að hér er á ferðinni slíkt réttlætismál öllu þessu fólki til handa, að ekki er sæmandi Alþ. að standa gegn því — ekki einu sinni hv. þm. Ellert B. Schram, þó þm. Reykv. sé, ég tala nú ekki um þm. þeirra kjördæma sem hér eiga hlut að máli og verst eru sett, allra síst er þeim sæmandi að beita sér gegn þessu, enda láta þeir lítt í sér heyra nú, þeir hinir sömu sem hér eiga hlut að máli.

Hv. þm. Ellert B. Schram sagði: Ég mundi taka undir skynsamlegar till. um aukið fjármagn til íþróttamannvirkja, ef fram kæmu. Þetta frv. er það ekki. Það er alls ekki skynsamlegt, segir þessi hv. þm., að gera íbúum þessara staða jafnkleift og öðrum að hafa þessa aðstöðu. Það er óskynsamlegt. — Hv. þm. má þó eiga það, að hann dregur enga dul á þetta viðhorf sitt, þessa afstöðu sína. En hvað eru þá skynsamlegar leiðir, skynsamlegar till. til úrbóta? Ég sagði það, held ég, í framsögu fyrir þessu frv. á sínum tíma, og hef sagt það raunar áður, að sú væri ástæðan fyrir því, að þetta frv. nær ekki fram að ganga, að menn telji ekki fjármagn fyrir hendi. Þá tel ég réttlætanlegt að hægja á ýmsum öðrum framkvæmdum í landi okkar, draga þar úr og láta þetta njóta forgangs. Ég er þeirrar skoðunar enn. Ég tel þetta slíkt nauðsynjamál, að þó að mörg önnur séu nauðsynleg, þá sé réttlætanlegt að draga úr á öðrum sviðum og láta þetta njóta forgangs.

Það skal viðurkennt, að ýmsar framkvæmdir í landi okkar að því er varðar skólamál og fleira eru nauðsynlegar, en ég tel þetta þó slíkt nauðsynjamál, að það eigi ekki að vera hornreka fyrir öðrum framkvæmdum, þó nauðsynlegar séu. Sumir hverjir hv. þm., sem standa að áliti menntmn., eins og ég sagði áðan, hafna frv. Ég endurtek, að tekið er undir það sjónarmið manns í kerfinu, ráðandi manns, að óskynsamlegt sé að gera þetta. Auðvitað fara menn ekki að gera nokkuð sem þeir telja sjálfir að sé óskynsamlegt, og þar með er því hafnað. En sumir hverjir þessara hv. þm., sem skrifa undir nál. um að hafna þessu, töldu ekki óskynsamlegt að ráðast í það að byggja verksmiðju uppi á Grundartanga sem kostar tugi milljarða kr. Það var skynsamleg framkvæmd að áliti þessara hv. þm. sumra hverra, — a. m. k. skynsamlegri en sú sem hér um ræðir, að gera íslenskum sjómönnum í útgerðarstöðum kleift að læra sund. Það er miklu óskynsamlegra, segja þessir menn, en bygging járnblendiverksmiðju í Hvalfirði. Svona mætti lengi telja. Það er miklu skynsamlegra, segja sumir hverjir þessara hv. þm., að eyða nokkrum hundruðum milljóna í að kaupa handónýtt hússkrifli hér í Reykjavík — hið margumtalaða Víðishús. Það er miklu skynsamlegri fjárfesting en að byggja sundlaug fyrir sjómenn í sjávarplássum úti á landi, sem er óskynsamlegt í þeirra augum. Og svona mætti halda áfram að telja upp málin hvert á eftir öðru sem þessir hv. þm. — sumir hverjir a. m. k. hafa staðið að samþykkt á hér á Alþ. og krefjast fjár svo milljörðum skiptir eða tugmilljörðum. Fyrirsjáanlegt er að í náinni framtíð sýna slíkar í fjárfestingar ekkert nema tap. En skynsamlegar eru þær taldar eigi að síður, a. m. k. skynsamlegri en það sem þetta frv. fjallar um.

Í þessu nál. menntmn. er enn afturgenginn sá gamli draugur, að aldrei má rétta hjálparhönd þeim sem verst eru settir, í þessu tilfelli að byggja upp þessa aðstöðu, sem er langt, langt frá því að vera mannsæmandi, eins og hún er búin að vera um áraraðir á þessum stöðum. Þessir hv. þm. segja: Gjörið þið svo vel. Þið skuluð áfram búa við þessa aðstöðu eins og hún hefur verið í áratugi. Ef þið getið ekki lagt fram nokkra tugi millj. úr eigin vasa heima fyrir, — sem lagt er með aukinni skattheimtu á þá tiltölulega fáu einstaklinga sem þar um ræðir, — ef þið ekki getið það, þá skuluð þið hafa þetta áfram eins og það er. Það er svarið.

Ég endurtek að ég harma að fulltrúar þessara staða hér á Alþ. skuli taka undir þessa afstöðu og kyrja þennan söng með þeim sem harðast eru á móti því, að landsbyggðarfólki sé gert jafnt undir höfði og Reykjavíkurhringnum sem hefur búið við betri hlut um áratugi en það.