14.03.1978
Sameinað þing: 56. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2882 í B-deild Alþingistíðinda. (2112)

327. mál, raforkumál á Austurlandi

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Ég mun svara 1. og 2. lið fsp. hv. þm. sameiginlega.

Undanfarið hefur Orkustofnun unnið að kortagerð, vatnamælingum og jarðfræðirannsóknum á vatnasviðum jökulsánna sem upptök eiga í norðanverðum Vatnajökli: Jökulsár á Fjöllum, Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal. Er nú að mestu lokið við að kortleggja vatnasviðin á mælikvarðanum 1:20000 með 5 m mismun milli hæðarlína. Á s. l. ári var unnið áfram að jarðfræðirannsóknum m. a. með kjarnaborunum á Eyjabökkum við Jökulsá í Fljótsdal og á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði Bessastaðaárvirkjunar. Þá hefur vatnamælingum verið haldið áfram og vatnshæðarmælum fjölgað.

Orkustofnun og Rafmagnsveitur ríkisins hafa sameiginlega látið gera samanburðaráætlanir um heildarnýtingu á vatnsorku umræddra jökulsáa. Markmið slíkra áætlanagerða er að leggja grundvöll að frekari virkjunarrannsóknum, sem æskilegt er að skipuleggja fram í tímann. Með samanburðaráætlunum er leitast við að ákvarða hagkvæmustu virkjunartilhögun, þannig að unnt verði að takmarka kostnaðarsamar framhaldsrannsóknir við líklegustu virkjunarstaði. Áhersla hefur verið lögð á að bera saman og gera grein fyrir hugsanlegum upphafsáföngum virkjana á Austurlandi og þá einnig leitað út fyrir vatnasvið jökulánna.

Hér hafa einkum komið til álita: virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal, Múlavirkjun, virkjun Fjarðarár í Seyðisfirði og virkjun Fossár í Berufirði — Berufjarðarvirkjun.

Bessastaðaárvirkjun virðist álitlegust þessara virkjana, og hefur frekari áætlanagerð beinst að henni. Hagkvæmast er talið að virkja úr Hólmalóni með þrýstivatnspípum að stöðvarhúsi sem fyrirhugað er skammt frá bænum Hóli í Fljótsdal. Vatni til virkjunarinnar verður safnað á Fljótsdalsheiði, eða nánar tiltekið með veitum úr Grjótá, Hölkná, Þórisstaðakvísl og Laugará og er meðalrennsli, að meðtöldu aðrennsli til Gilsárvatna og Hólmavatns talið nema 7.1 kílólítra á sekúndu.

Orkugeta Hólmsárvirkjunar hefur verið áætluð 335 gwst. á ári miðað við 130 gígalítra heildarmiðlun. Hefur orkuvinnslugetan þá verið skilgreind sem aukning á orkuvinnslu núverandi landskerfi, eftir að Hrauneyjafossvirkjun hefur hafið orkuvinnslu og orkuveitusvæði Austurlands verði tengt við landskerfi með Austurlínu. Uppsett afl er fyrirhugað 56 mw. og áætlaður stofnkostnaður nálægt 12 400 millj. kr. miðað við verðlag í sept. 1977. Til greina kemur að virkja í tveimur áföngum. Í fyrri áfanga er þá ráðgert að veita Þórisstaðakvísl í Gilsárvötn, sem yrðu stífluð og veitt í Hólmalón. Þaðan yrði virkjað á sama hátt og áður er lýst, en einungis lögð pípa að annarri vélasamstæðu af tveimur.

Með 40 gígalítra miðlun í Hólmalóni er áætluð orkuvinnslugeta fyrri áfanga 120 gwst. á ári, miðað við sömu forsendur og áður greinir. Stofnkostnaður fyrri áfanga með 28 mw vélasamstæðu er áætlaður nálægt 6800 millj. kr. að meðtöldum áföllnum kostnaði.

Svör við þriðju fsp. hv. þm. eru á þessa leið: 1. Línuleið fyrir 132 kílóvolta háspennulínu frá Eyrarteigi í Skriðdal um Djúpavog til Hafnar í Hornafirði hefur verið könnuð. Rafmagnsveitur ríkisins gerðu till. um 30 millj. kr. fjárveitingu í fjárlögum 1978 til mælingar á línuleiðinni, en till. var ekki tekin í fjárl. Ákvörðun um tímasetningu línulagningarinnar hefur ekki verið tekin.

2. Rafmagnsveiturnar gerðu till. til fjárlaga 1978 um lagningu háspennulínu frá Lagarfossvirkjun til Vopnafjarðar. Var gert ráð fyrir að heildarkostnaður með aðveitustöðvum yrði 632 millj. kr. Till. var ekki tekin í fjárl. fyrir 1978.

3. Rafmagnsveiturnar gerðu till. til fjárlaga 1918 um lagningu háspennulínu frá Þórshöfn til Bakkafjarðar, heildarupphæð 51 milljón kr., og er sú framkvæmd í fjárlögum fyrir árið í ár.

Hv. þm. spurðist fyrir um það til viðbótar þessum prentuðu fsp. hvort ég hefði lagt til í ríkisstj. að ákvörðun yrði tekin um Bessastaðaárvirkjun. Því vil ég svara að sjálfsögðu. Eins og ég gat um áður, barst umsögn rafmagnsveitustjóra ríkisins fyrir miðjan des. Þar er mælt með því. að ákvörðun verði tekin um 1. áfanga Bessastaðaárvirkjunar. Þessa grg. lagði ég fram í ríkisstj. þá strax á eftir og lagði til að samþykkt yrði till. Rafmagnsveitna ríkisins. Málinu var frestað og er til meðferðar hjá ríkisstj. Að því er snertir fjármagn til Bessastaðaárvirkjunar, þá sagði ég áðan, að af ástæðum, sem menn hlytu að skilja þar sem fjárlög og lánsfjáráætlun voru í raun þegar afgreiddar þegar þessi umsögn og gögn komu um miðjan des., er ekki í þeim — þ. e. a. s. í fjárlögum eða lánsfjáráætlun — ætlað fé til framkvæmda við Bessastaðaárvirkjun. Hins vegar tók hv. þm. réttilega fram, að gert er ráð fyrir fé til rannsókna. Ég hef gert ráð fyrir eins og ég hef tvisvar tekið fram. að nokkrum tugum milljóna a. m. k. verði varið til fullnaðarhönnunar og gerðar útboðsgagna nú í ár.