14.03.1978
Sameinað þing: 56. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2883 í B-deild Alþingistíðinda. (2113)

327. mál, raforkumál á Austurlandi

Fyrirspyrjandi (Halldór Ásgrímsson) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör hans. Það var út af fyrir sig misskilningur, að ég hefði beint viðbótarfsp. til hans, því ég, spyr í hinni skriflegu fsp, minni : Hyggst iðnrh. leggja til að virkjunin verði byggð og þá hvenær? Ég skildi hann svo, að hann hafi lagt það til í ríkisstj., að þessi virkjun yrði byggð og þá væntanlega á þeim tíma sem Rafmagnsveitur ríkisins leggja til. En jafnvel þótt um miklar framkvæmdir verði ekki að ræða á þessu ári, þá er ljóst að það er mikilvægt í sambandi við byggingu virkjana að panta vélar og bjóða slíkt út. Þess vegna er að mínum dómi mjög mikilvægt að ákvörðun í þessu máli verði tekin sem fyrst, ef það er svo, eins og mér skilst að hér hafi komið glöggt fram, að það séu nægilegar upplýsingar fyrir hendi til þess að taka þá ákvörðun.

Í sambandi við 2. liðinn legg ég á það áherslu, vegna þess að það hefur verið rætt mikið um svokallaða Austurlandsvirkjun og í sambandi við þær rannsóknir sem þar fara fram, að mér finnst nauðsynlegt að menn afskrifi það strax í upphafi að ætla sér að sameina að miklu leyti það vatn, sem rennur þar austur, og byggja þá stóru virkjun, sem þar hefur verið talað um. Mér finnst það tímasóun og peningaeyðsla að eyða miklum kröftum í það. Það verður náttúrlega að rannsaka þessa virkjunarmöguleika til hlítar. En að mínum dómi kemur vart annað til greina en að virkja það vatn sem mest í upprunalegum farvegi. Þess vegna finnst mér nauðsynlegt að menn séu ekki að eyða allt of miklum kröftum í það sem aldrei gæti orðið að veruleika. En ég segi þetta aðeins til áréttingar.

Við 3. liðinn hef ég engu að bæta. Ég undirstrika það, að þetta er að sjálfsögðu háð því fjármagni, sem er til framkvæmda, og þeirri forgangsröðun sem sett er upp við afgreiðslu fjárlaga, en ég legg á það áherslu að hér er um mjög mikilvæga línu að ræða og dísilkeyrsla, t. d. á Hornafjarðarsvæðinu, fer að verða mjög mikil og kostnaðarsöm fyrir þjóðarbúið.