14.03.1978
Sameinað þing: 56. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2887 í B-deild Alþingistíðinda. (2120)

214. mál, Rafmagnseftirlit ríkisins

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans. Ég gleðst yfir því, að hann skuli vera samþykkur í höfuðatriðum því meginmáli sem kemur fram í þessari ítarlegu grg. og skýrslu.

Hann vitnaði í, sem ég átti von á, þá nefnd sem starfar að skipulagi orkumála í heild sinni. Það er auðvitað ofureðlilegt að sú nefnd fái þetta verkefni til meðferðar. Ég hef ekkert við það að athuga. Hins vegar er mér ljóst, að það eru margir, sem starfa í Rafmagnseftirliti ríkisins, sem eru örlátið hræddir við að þetta mál verði ekki tekið sérstaklega fyrir og athugað alveg sérstaklega og því flýtt, af þeim ástæðum að það verkefni, sem nefndin er með í heild, er mjög viðamikið og vandmeðfarið, en það er allt skipulag orkumála hér á landi. Það hefur glögglega komið fram í umr. hér á Alþ. í vetur, að um þetta skipulag er verulegt ósamkomulag milli t. d. stjórnarflokkanna. Menn óttast auðvitað að í þessari nefnd verði seint samkomulag um þessi atriði, sem þarna skipta auðvitað höfuðmáli, varðandi heildarskipulag orkumála í landinu öllu. Því er það ósk mín til nefndarinnar — vegna þess að formaður hennar er hér inni — ósk mín til þessarar nefndar er einmitt sú, að nefndin taki þetta mál fyrir sérstaklega og reyni að flýta því sem allra mest.

Mér er sagt af þessum aðilum þeim sem ég þekki þar best, að hér sé brýn þörf á aðgerðum til úrbóta. Þeir benda á, að Rafmagnseftirlit ríkisins verði aldrei hlutverki sínu vaxið fyrr en það sé orðið algerlega sjálfstæð stofnun sem heyri beint undir iðnrh. og hafi fjárhagslegt sjálfstæði sem byggist annars vegar á tekjustofnum þeim, sem Rafmagnseftirlitið á í raun að hafa nú, en hefur ekki nema að takmörkuðu leyti, og öðrum þeim, sem eðlilegast mætti telja að Rafmagnseftirlitið hefði, eins og er gert ráð fyrir í þessari skýrslu. Þeir leggja einnig áherslu á að aukin verði fræðsla, bæði fræðsla í grunnskólum og öflug fræðsla í fjölmiðlum fyrir almenning. Þeir leggja einnig áherslu á að tryggt verði, að ekkert raforkuvirki verði í notkun tekið fyrr en Rafmagnseftirlitið hafi að fullu viðurkennt það. Og varðandi raffangaprófunina verði tryggt að Rafmagnseftirlitíð geti fylgst náið með öllum innflutningi raffanga, svo ekki verði meiri háttar óhöpp eða slys. Það er sannarlega ömurlegur listi sem ég hef séð hjá þessum ágætu mönnum um slys af þessum ástæðum, sem má beinlínis rekja til þess, að rafföng hafa verið flutt inn án þess að Rafmagnseftirlitið hafi getað komið við nægu eftirliti með þeim.

Einnig er lagt til að tryggður verði mannafli til Rafmagnseftirlits ríkisins til þess að virku og eðlilegu aðhaldi verði haldið uppi hvarvetna um land. Eftirlitsstörfin krefjast æ viðtækari sérþekkingar, svo að ráðning hæfra manna í þessi störf þarf að vera sem öruggust og um sumt lögbundin. Einnig vilja þeir taka fram, að það sé nauðsyn að skýr ákvæði verði sett um valdsvið stofnunarinnar og möguleika hennar til að beita nauðsynlegum aðgerðum til þess að lögum um rafmagnseftirlit sé framfylgt að fullu, jafnframt hjá raforkuvirkjunum sem í raffangaprófun. Það er af þessum ástæðum og ýmsu öðru, sem ég hef fengið alveg sérstakar upplýsingar um hjá rafmagnseftirlitsmanninum eystra, sem ég gjörþekki, sem ég beini þessum áskorunum til hv. form. orkumálanefndar, að þessu máli út af fyrir sig verði hraðað sem allra mest, þó ég sjái vissa annmarka á því, að það sé tekið til meðferðar eitt sér.