14.03.1978
Sameinað þing: 56. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2889 í B-deild Alþingistíðinda. (2123)

347. mál, húsnæði Tryggingarstofnunar ríkisins

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þegar þessi fsp. barst ritaði ég Tryggingastofnun ríkisins og óskaði eftir umsögn forstjóra hennar um þetta mál. Í svarbréfi hans segir:

„Vísað er til bréfs hins háa ráðuneytis, þar sem leitað er umsagnar um aðstöðu fatlaðs fólks, m. a. í hjólastólum, til að geta rætt við starfsfólk stofnunarinnar, m. a. sérfræðinga og lækna.

Hús stofnunarinnar er, eins og kunnugt er, gamalt og staðsetning — við horn Laugavegs og Snorrabrautar — þröng. Þeim eðlilegu sjónarmiðum, sem fram koma í fsp., hefur ekki verið gefinn gaumur á byggingartíma hússins. Aðstaða innanhúss er eftir atvikum sæmileg miðað við aldur hússins. Lyfta er í húsinu og nota hana m. a. hjólastólamenn, þó gerð hennar hafi ekki verið við það miðuð og erfitt að ráða bót á því. Tilfinnanlegra er aðstöðuleysi fyrir rennibraut inn í húsið. Fyrir nokkrum árum var sérstaklega að þessu bugað. Aðstaða við Snorrabrautarbornið er í sjálfu sér auðveld, þó hún sé þröng. Ástæðan fyrir því, að ekki var ráðist í breytinguna, var að lítil og lítið áberandi rennibraut gæti verið stórhættuleg ellihrumu og sjóndöpru fólki.“

Í sambandi við þetta mál verður að geta þess, að í ársbyrjun 1975 óskaði tryggingaráð eftir heimild til þess að fram færi undirbúningur að nýbyggingu fyrir Tryggingastofnun ríkisins. Þetta var heimilað af heilbr.- og trmrn. og skipaði rn. nefnd, sem starfað hefur síðan vorið 1975 undir forustu forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar frá tryggingaráði, starfsmönnum Tryggingastofnunar ríkisins og heilbr.- og trmrn. Samkv. upplýsingum frá forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins starfar Garðar Halldórsson arkitekt hjá húsameistara ríkisins, ásamt Svavari Þorvarðarsyni, aðstoðarmanni hans, að þessu verkefni. Þetta nefndarstarf hefur gengið mjög hratt, og er nú talið að byggingarforsögn verði til í næsta mánuði. Nefndin hefur sótt um lóð í nýja miðbæjarhverfinu, en svar hefur ekki borist frá borgaryfirvöldum. Til bráðabirgða hefur forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins nú til athugunar að leita eftir kaupum á efstu hæð hússins Laugavegi 118, en það mun hægt að gera innangengt milli húss Tryggingastofnunar ríkisins og þessa húss. Húsakaup af þessu tagi mundi vera til bráðabirgða og leysa vanda stofnunarinnar um sinn. En nýbygging Tryggingastofnunar ríkisins er sú frambúðarlausn fyrir stofnunina sem stefnt er að, og þá mun að sjálfsögðu verða séð fyrir þeim þörfum fatlaðra, sem um er rætt í þessari fsp.