14.03.1978
Sameinað þing: 56. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2892 í B-deild Alþingistíðinda. (2129)

348. mál, reglugerð um lágmarksstærðir fisktegunda

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Reglugerð nr. 262 frá 6. júlí 1977, um lágmarksstærðir fisktegunda, var breytt með reglugerð nr. 311 9. ágúst 1977, þannig að skarkoli var felldur niður í upptalningu um þær tegundir sem skylt er að hirða. Sérreglur voru settar um handfæraveiðar, þannig að heimilt er að sleppa þorski sem er undir 50 cm. Handfæraafli má aftur á móti ekki vera af þorski af stærðinni 50–58 cm nema sem nemur 40% af heildarafla hverrar veiðiferðar. Fari hlutfallið yfir 40% er það, sem umfram er, gert upptækt. Hið sama gildir samkvæmt reglugerðinni um þorsk sem er minni en 50 cm. Breytingar þessar voru gerðar vegna till. Hafrannsóknastofnunarinnar, þar sem álitið var að skarkoli, sem t. d. veiðist í dragnót, og þorskur veiddur á handfæri gætu lifað væri þeim sleppt í sjóinn aftur.

Eftirliti með framkvæmd reglugerðarinnar er þannig varið :

Eftirlit á sjó: Eftirlitsmenn rn. sem eru nú sjö talsins, fara út með hinum ýmsu tegundum fiskiskipa. Fylgjast þeir m. a. með því, að ákvæðum þessarar reglugerðar sé fylgt. Í þessu sambandi skal þess getið, að stækkun möskva í vörpu og dragnót hefur leitt til þess, að sáralítið fæst af smáfiski í botn- og flotvörpu og alls ekki dragnót, en þessi veiðarfæri voru varhugaverðust að þessu leyti.

Eftirlit á landi: Starfsmenn Framleiðslueftirlits sjávarafurða hafa eftirlit með stærðum þess fisks sem aflað er, eins og þeim ber samkvæmt 2. gr. laga nr. 108 frá 1974, um Framleiðslueftirlit sjávarafurða. Þar segir, að Framleiðslueftirlitið skuli í samráði við rn. hafa eftirlit með aflasamsetningu fiskiskipa. Gera þeir sjútvrn. aðvart, ef undirmálsfiskur er í afla skipa, sem síðan gerir þann afla upptækan samkvæmt ákvæðum laga nr. 32 frá 19. maí 1976, um upptöku ólöglegs afla.

Á árinu 1977 vorn gerð upptæk vegna ákvæða reglugerðar nr. 262 frá 6. júní 1977 67 tonn 293 kg af karfa að verðmæti 661480 kr., 1709 kg af þorski að verðmæti 47 852 kr. og 159 kg af ýsu að verðmæti 4941 kr., samtals 714 273 kr. Á árinu 1977 var gert upptækt eftirfarandi magn af humri og rækju vegna brota á ákvæðum leyfisbréfa um lágmarksmöskvastærðir þessara tegunda: Rækja 15 583 kg að verðmæti 1 067 328 kr., humar 78 kg að verðmæti 43 904 kr., eða samtals 1111232 kr.

Þá má bæta við þetta svar, þó ekki sé um það spurt, að á árinu 1977 var gert upptækt eftirfarandi magn síldar vegna brota hringnótabáta á ákvæðum leyfisbréfa um leyfilegan síldarkvóta: Það var að magni til 124 258 kg að verðmæti 7 919 924 kr.