16.03.1978
Sameinað þing: 58. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2920 í B-deild Alþingistíðinda. (2161)

150. mál, endurskoðun skattalaga

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir að gefa svör við spurningum mínum. Ég viðurkenni einnig, að í tíð þessarar ríkisstj. hefur stundum verið fjallað um breytingar á skattalögunum. Það er ekki svo, að engar breytingar hafi verið gerðar á þeim á liðnu kjörtímabili. En hitt er auðvitað aðalatriði málsins, að þessar breytingar hafa verið harla smávægilegar. Þær hafa fyrst og fremst verið tæknilegar og ekki falið í sér neinar grundvallarbreytingar á skattakerfinu eða leiðrétt alvarlegustu agnúana sem bersýnilega eru á gildandi skattakerfi. Ég leyfði mér því að telja slíkar smábreytingar, sem oft eru á ferðinni í þinginu, alls ekki með þegar ég ræddi þessi mál áðan, vegna þess að það, sem beðið hefur verið eftir, er að sjálfsögðu heildarendurskoðun tekjuskattslaga og meginbreytingar á heim lögum. Og loforð hæstv. fjmrh. hafa að sjálfsögðu beinst að slíku verki, en það hefur látið á sér standa allan þennan tíma.

Hins vegar ber að þakka fyrir, ef ríkisstj. ætlar að hafa eitthvert frumkvæði í þessum efnum nú á næstu vikum og von er á frv. um skattamál þegar eftir páska, því að mér virðist á öllu að þögn Alþ. um skattamál geti tæpast verið meiri en hún hefur verið að undanförnu. Ég vek á því athygli að sú till., sem ég hef flutt um skattamál, er eina till. sem fram hefur komið um þetta efni í þinginu í vetur, — skattamálin hafa alls ekki verið til umr. Sér þó ekki nokkur þm. stjórnarflokkanna ástæðu til þess að ræða þessi mál eða gera grein fyrir hvaða breytingar menn kynnu að telja æskilegar á skattalögunum. Og eftirtektarvert er, þegar lögð eru fram mjög ítarleg gögn um skattgreiðslu fyrirtækja, að ekki er nokkur þm. sem stendur hér upp til þess að vefengja þessi gögn eða andmæla þeim niðurstöðum og ályktunum sem af þeim eru dregnar. Fyrir það ber að sjálfsögðu að þakka, ef þm. viðurkenna með þögninni að hér sé flutt rétt mál.