16.03.1978
Sameinað þing: 58. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2931 í B-deild Alþingistíðinda. (2167)

119. mál, sparnaður í fjármálakerfinu

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég finn ekki, þegar ég hugsa til baka, hvar ég gerði tilraun til þess að kenna hv. 1. flm. þessarar till. eitt eða annað, hvorki viðskipti, „business,“ né annað, þó að ég sé ekki að skorast undan því að gera það, enda er rétt hjá honum, að ég hef meiri reynslu á því sviði en hann. En það, sem er mergur máls míns, er að allt annað en fyrsta línan í þessari þáltill. er aukaatriði. Í henni segir, og ég endurtek það: „Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir sparnaði í fjármálakerfinu.“ Síðan kemur hvað stjórnin skuli gera og hvernig hún skuli fara að því. Þetta fyrsta er aðalatriðið. Skoðun mín er sú, að það sé ekkert sem hamli því, að ríkisstj. geri þetta án þessarar till. Ég vil meira að segja halda því fram, að henni beri skylda til þess að beita sér fyrir sparnaði á öllum sviðum. Það kom ekkert fram í síðari ræðu hv. 1. flm., sem mótmælir þeirri skoðun minni, að ríkisstj. hafi heimild til þess að beita sér fyrir sparnaði í fjármálakerfinu og beri raunar skylda til þess. Ef þetta er rangt skilið hjá mér þætti mér vænt um að það yrði leiðrétt. Flutningur þessarar þáltill. er því óþarfur og móðgandi fyrir ríkisstj. sem flm. styðja.