29.03.1978
Sameinað þing: 59. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2936 í B-deild Alþingistíðinda. (2172)

96. mál, launakjör og fríðindi embættismanna

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég mun ekki hafa mörg orð um þetta mál nú, þó að hér sé tvímælalaust mjög stórt mál í sjálfu sér á ferð. Það er rétt, sem hv. 1. flm. sagði, að þetta mál um launakjör og fríðindi embættismanna skarast mjög við annað þingmál, sem hann ásamt fleirum hefur lagt fram um hámarkslaun. Ég tel bæði þessi mál góðra gjalda verð, að þau skuli koma fram á þingi. En þessi till., eins og hún liggur fyrir hér, snertir ekki nema lítinn hluta þessa stóra máls. Það er að vísu alveg rétt, ég er sammála því, að þar sem hæst launaðir embættismenn eiga í hlut eru launagreiðslur og launakjör öll allt of óljós, en þetta á við um allt okkar launakerfi. Við þurfum að fá margfalt hreinni línur alls staðar. Við finnum þetta ekkert síður meðal hinna svokölluðu vinnandi stétta. Þar á ég við Alþýðusamband Íslands og hliðstæð samtök launþega. Ég átti tal ekki alls fyrir löngu við trésmiðameistara, sem sagði mér beinlínis að í vor eftir kjarasamninga hefði hann orðíð þess vísari að sú launahækkun, sem hann fékk, tímakaupshækkun hans, væri jöfn að krónutölu heildarlaunum byggingarverkamannsins sem vann við hliðina á honum. Og honum fannst þetta ekki vel gott. Honum fannst að þarna væri misvægið orðið meira en lítið og hann hefði fengið fullmikið miðað við verkamanninn sem vann við hliðina á honum.

Þetta er auðvitað svo augljóst mál, að mann furðar á því þegar rekið er upp ramakvein í röðum Forsvarsmanna verkalýðsins þegar talað er um að nauðsyn sé að breyta fjölmörgu í vinnulöggjöf okkar og kjarasamningum öllum. Þarna er orðið slíkt myrkviði að enginn ratar um, og ekkert er auðveldara fyrir ófyrirleitna kröfugerðarmenn en ná lengra í kröfum sínum en góðu hófi gegnir, að ekki sé meira sagt. Því tel ég að þessar till. báðar gætu orðið þarft innlegg í umr. um þessi mál, sem nauðsynlega þurfa að fara fram með fullum heilindum allra sem að launamálum standa í landinu, vinnuveitenda og launþega sameiginlega.

Hér er talað um að setja eigi reglugerð varðandi kjör hinna hæst launuðu embættismanna. Hvað er átt við með „hæst launuðu“, hvar á að setja mörkin? Og þetta vekur allt ótal spurningar. Hvernig ætti að framkvæma þessa till? Þó held ég að tiltölulega auðvelt væri, jafnvel þótt við gerðum engar grundvallarbreytingar á þessu að kveða á um ákveðin atriði, eins og þau t. d., að embættismönnum og öðrum fast launuðum mönnum beri ekki laun fyrir aukastörf sem þeir vinna í sínum eðlilega vinnutíma. Og við alþm. getum tekið þetta til okkar. Ég veit ekki betur en enda þótt þingnefndir allar séu ólaunaðar, sem vera ber, séu alþm. iðulega skipaðir í nefndir og ráð sem vinna vafalaust mikilvæg störf, en fyrir þessi nefndastörf, séu þau unnin á eðlilegum dagvinnutíma bæði alþm. og annarra, ber okkur auðvitað engin laun að taka. Það eru svona atriði, sem mætti taka út úr og athuga og kippa í lag. Auðvitað er mönnum í sjálfsvald sett, hvort þeir þiggja laun af þessu tagi. En það er nú einu sinni svo, að þegar hefð er komin á eitt eða annað er heldur fátitt, að menn skeri sig úr, og er jafnvel illa séð, sé það gert, af hópnum sem heild. En þarna sem annars staðar er auðvitað mikilvægt og sjálfsagt, að hver einstaklingur hafi leyfi til og hann hafi kjark til að fara eigin leiðir. Það kann að vera hægt að breyta hefð án þess að lagaboð komi til.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta frekar, en þetta er vafalaust merkilegt mál, þessar till. báðar, sem ég vil endurtaka að eru góðra gjalda verðar og fyllilega þess virði að taka til athugunar við umr. um þessi launamál og kjaramál öll í landinu. Ég hygg að kjaramál séu komin í ógöngur, sem við allra hluta vegna og ekki þá hvað síst þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu, verðum að sjá einhverja leið út úr. Og þar kemur auðvitað til vilji okkar í verki til þess að standa við stór orð um jafnrétti og réttlæti í þessum málum þegar að okkur sjálfum kemur.