29.03.1978
Sameinað þing: 59. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2941 í B-deild Alþingistíðinda. (2175)

96. mál, launakjör og fríðindi embættismanna

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég vil lýsa því sem minni skoðun, að með þessari þáltill. sé hreyft athyglisverðu og að ýmsu leyti mjög knýjandi máli — máli sem er vissulega viðkvæmt. Ég tel að ekki eigi að fjalla um það á hv. Alþ. á svipaðan hátt og mér fannst bera of mikið á hjá hv. síðasta ræðumanni, þar sem hann tengdi það einstökum hv. þm. um of. Ég held að flestir, sem hugsa um þessi mál og þekkja nokkuð til þeirra, geti verið sammála um að ástandið í þessum efnum sé algerlega óviðunandi og þar þurfi að breyta verulega til.

Ég skal ekki fara nánar út í að lýsa þessu ástandi eins og það blasir við mér. En erindi mitt upp í ræðustólinn í sambandi við þetta mál er að leggja áherslu á og undirstrika, að það er enginn aðili í þessu þjóðfélagi sem getur breytt því ástandi, sem nú er í þessum efnum, að neinu marki annar en hæstv. ríkisstj. og hv. Alþ. Þaðan verður forustan að koma ef einhverjar breytingar á að mega gera sér vonir um á næstunni. Þetta tal um að einstakir menn afsali sér að taka við launum, sem þeir fá fyrir nefndastörf eða stjórnarsetur, er algerlega óraunhæft. Þarna þarf að setja um almennar reglur sem gildi í þjóðfélaginu, og upphafið að þessum almennu reglum á að koma héðan. Þess vegna vil ég sem stuðningsmaður hæstv. ríkisstj. skora mjög alvarlega á hana að taka þessi mál öll til athugunar, setja hæfa menn í það að líta nánar á þau.

Ég er sammála síðasta ræðumanni um það atriði, að nær útilokað sé að þessi þáltill. verði samþykkt á þessu þingi. En ég tel að málavextir séu til þess, að hæstv. ríkisstj. ætti að beita sér fyrir athugun þessara mála, án þess að hún þurfi að fá sérstaka samþykkt frá Alþingi um það.