30.03.1978
Efri deild: 72. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2950 í B-deild Alþingistíðinda. (2189)

237. mál, sala eyðijarðarinnar Kollsvíkur í Rauðsandshreppi

Flm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 452 leyfi ég mér að leggja fram frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til að selja eyðijörðina Kollsvík í Rauðasandshreppi.

Kollsvík er — fyrir þá sem ekki þekkja — staðsett utarlega við Patreksfjörðinn, gamall og þekktur útgerðarstaður þegar útgerð var á annan máta en nú er, með árabátum. Þar voru lengi nokkrar jarðir í byggð, en á síðustu árum voru þar tvær, Kollsvík og Láginúpur. Kollsvík fór í eyði fyrir nokkrum árum og var þá keypt af ríkissjóði. Á hinni jörðinni, Láganúpi, býr Össur Guðbjartsson góðu búi og er nú, eins og fyrr greinir, eina jörðin í byggð við Kollsvík. Össur hefur nýtt að hluta jörðina Kollsvík eftir að hún fór í eyði og hefur nú leitað eftir því að fá þá jörð keypta og mega þannig sameina hana sinni jörð. Þetta er að mati jarðanefndar og hreppsnefndar eðlileg ráðstöfun. Hafa báðir aðilar mælt með sölu eyðijarðarinnar Kollsvíkur til Össurar Guðbjartssonar. Með þessu móti bætir Össur að sjálfsögðu ábúðarjörð sína, Láganúp, verulega og heldur auk þess við mannvirkjum á jörðinni Kollsvík, sem eru að vísu sum orðin mjög úr sér gengin nú eftir að vera nokkur ár í eyði.

Ég þarf ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég geri ráð fyrir því, að sú n., sem fær málið til meðferðar, muni skoða öll þau gögn sem fyrir liggja. Þau verða að sjálfsögðu látin henni í té.

Ég vil mæta með því, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. landbn.