30.03.1978
Neðri deild: 68. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2965 í B-deild Alþingistíðinda. (2196)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Hæstvirtur forseti. Á engu sviði hafa á mörgum undanförnum árum átt sér stað meiri og alvarlegri mistök en á sviði orkumála. hér hefur verið um að ræða ranga og arðlausa fjárfestingu í stórum stíl, óumdeilanlega. Þessi ranga og arðlausa fjárfesting hefur í reynd orðið að stórkostlegri byrði á lífskjörum almennings sem nú lifir í landinu og verður baggi á komandi kynslóðum um langa framtíð. Á það skortir ekki, að hæstv. ríkisstj. hafi verið vöruð við því, hvert stefndi í þessum efnum. Ég leyfi mér t. d. að minna. á ummæli mín haustið 1975 í umr. um stefnuræðu hæstv. forsrh. Þá vakti ég athygli á því, að á því ári, 1975, væri gert ráð fyrir 30% minnkun fjármunamyndunar í fiskveiðum og vinnslu sjávarafurða miðað við óbreytt verðlag frá fyrra ári, en samtímis var á því ári gert ráð fyrir 80% aukningu á sviði rafvirkjana og rafveitna. Þessi fjárfesting var þá stjórnlaus. Hún er enn í dag stjórnlaus, kannske enn þá stjórnlausari en hún var þá. Sannleikurinn er sá, að það er fyrir löngu orðið tímabært að hér á landi yrði myndað sérstakt orkumálaráðuneyti. Orkuframleiðsla og orkunotkun eru orðnar svo mikilvægur þáttur í þjóðarbúskap Íslendinga af mörgum ástæðum, að það er orðið verkefni ráðuneytis, heils rn., að fjalla um það, enda hefur sú þróun átt sér stað í nálægum löndum. Ég minni t. d. á Noreg í þeim efnum, að þessi mikilvægu verkefni eru í höndum sérstaks rn. Og hér á landi er vandinn í þessum efnum orðinn svo stórkostlegur, að í raun og veru ætti aðeins einu ráðh. að fjalla um orkumálin, og hann hefði nóg að gera við að leysa þann stórkostlega vanda, þann torleysanlega hnút sem þau mál öll eru komin í.

Alvarlegustu mistökin á sviði orkumála á undanförnum árum eru að sjálfsögðu Kröfluævintýrið. Ég skal ekki gera það að umtalsefni í einstökum atriðum, það hefur verið þrautrætt hér á Alþ. og annars staðar. En á það vil ég minna, að það er enn óupplýst mál, hver ber í raun og veru ábyrgðina á því ævintýri, þar sem 10—11 milljarðar eru bundnir í fjárfestingu sem ber næstum engan arð. Er nauðsynlegt að á því fari fram gagnger, ítarleg og nákvæm rannsókn, hver ber í raun og veru ábyrgð á þessu mesta fjármálahneyksli þessarar aldar, en það er Kröfluvirkjun eins og að henni hefur verið staðið, eins og framkvæmdir allar þar eru og eins og ástand mála er þar nú. Sagan verður að fá að vita það. Þeir, sem nú lifa í landinu, verða að fá að vita það, hvaða aðilar það eru sem bera ábyrgð á þessu fjármálahneyksli, þ. e. a. s. hvort það er núv. ríkisstj. eða hvort það er fyrrv. ríkisstj. Um það skal ég engan dóm fella, það er ekki hægt nema ítarleg rannsókn á málinu fari fram, sem ég tel nauðsynlega. Þetta mál skal ég annars ekki ræða frekar í þessu sambandi, heldur víkja að nokkrum öðrum nýlegum ákvörðunum í þessu efni, — ákvörðunum sem hv. fyrirspyrjandi gerði ekki sérstaklega að umtalsefni.

Út á við tekur hæstv. iðnrh. að sjálfsögðu þær ákvarðanir sem ég mun hér á eftir gera að umtalsefni. Út á við hefur hann tekið þær ákvarðanir. Blöð hafa hins vegar talað um deilur hæstv. iðnrh. og hæstv. fjmrh. í sambandi við sumar þessara ákvarðana a. m. k. Ég skal engan dóm á það leggja, hvort fjölmiðlar fara hér rétt með eða hvort um getgátur einar er þar að ræða. En ég tel — og legg á það þunga áherslu — að þingheimur á heimtingu á því að fá að vita hvernig slíkar ákvarðanir eins og þær, sem ég mun nefna hér á eftir, hafa verið teknar, hver ber raunverulega ábyrgð á þeim, hvernig að þeim hefur verið staðið.

Hér er samsteypustjórn tveggja stærstu flokka þings og þjóðar. Iðnrh. er, eins og allir vita, úr hópi Sjálfstfl. Það vekur hins vegar athygli, að þegar málið hefur borið á góma hefur engin rödd heyrst úr herbúðum Framsfl. varðandi þessi mál. Það er kominn tími til þess, að það heyrist frá ráðh. eða öðrum fulltrúum Framsfl., hver afstaða hans hefur verið í þeirri stefnumótun sem átt hefur sér stað undanfarið og í þeim helstu mistökum sem gerð hafa verið í þessum efnum og ég skal nú á eftir nefna dæmi um.

Í þeim ríkisstj., sem ég átti sæti á sínum tíma, hefðu slík mál sem hér er um að ræða og ég mun nefna hér á eftir dæmi um, verið rædd í ríkisstj. í heild og ákvörðun tekin í ríkisstj. í heild og síðan mundu flokkar ríkisstj. hafa talið sig ábyrga fyrir ákvörðununum, m. ö. o. talið sig bera ábyrgð á þeim. En hvað hefur gerst hér? Þegar raforkumál hefur borið á góma og mistök í þeim, óstjórnina í þeim, sukkið á því sviði, þá heyrum við aðeins í öðrum stjórnarflokknum, en ekkert frá hinum. Það er þessi gáta, það er leyndarmál á bak við þessa þögn sem tími er kominn til að ljóstrað verði upp um. Þess ber að vísu að geta í þessu sambandi, að meðan vinstri stjórnin sat bárust fregnir til fjölmiðla um atkvgr. ráðh. í ríkisstj. og vissar ráðstafanir voru rétttættar með því, að atkvgr. hafi leitt í ljós, að meiri hl. ráðh. hafi lýst sig fylgjandi slíkri ákvörðun og bæri því ábyrgð á henni, en minni hl. í ríkisstj. ekki. Ég minnist þess, að þegar um slíkt fréttist vakti ég einu sinni hér í umr. athygli á því, að hér væri algert nýmæli í íslensku stjórnarfari, að greidd væru atkv. í ríkisstj. um einstök mál, meiri hl. réði, en einhver minni hl. í ríkisstj. teldi sig enga ábyrgð bera á þeim ráðstöfunum sem um var að ræða. Þetta hefur aldrei gerst í þau 15 ár sem ég hef áður setið í ríkisstj., og ég spurði mér eldri menn um það, hvort þetta hefði gerst t. d. í ríkisstj. fyrir 1956, og enginn vissi dæmi um að mikilvægar ákvarðanir væru teknar með þessum hætti af ríkisstj. Þetta var nýmæli sem komst á eftir 1971. Það hefur að vísu ekki heyrst um það á starfstíma þessarar ríkisstj. Þó kynni að vera, þó leynt hafi farið, að þannig sé stjórnað, að sumar þessara ákvarðana byggist á meirihluta ákvörðun innan ríkisstj. Ég skal auðvitað ekkert um þetta fullyrða. En það er nauðsynlegt, vegna þess að þing og þjóð á að vita við hvers konar stjórnarfar hún hýr, að það sé upplýst hvort þetta á sér stað eða ekki, hvort þetta hefur átt sér stað í þeim dæmum sem ég nú skal leyfa mér að nefna, þrem dæmum, þar sem ég tel í öllum tilfellum hafa verið um rangar ákvarðanir að ræða, alvarleg mistök.

Fyrsta dæmið um ákvörðun, sem ég tel hafa verið tekna með mjög hæpnum hætti, vægast sagt, er það, að Orkubú Vestfjarða tók að sér 500 millj. kr. í skuldum, — 500 millj., sem nú hafa hækkað vegna verðhækkana og gengisbreytingar í rúmar 700 millj. — Orkubú Vestfjarða tók að sér skuldir, sem nú nema um 700 millj. kr., en milli 2 og 3 milljarðar kr. voru skildir eftir hjá RARIK, hjá Rafmagnsveitum ríkisins. Rafmagnsveitum ríkisins var ætlað að greiða vexti og afborganir af þessum skuldum án þess að eiga að fá nokkrar tekjur af Vestfjörðum, ekki krónu, á móti þessum 2–3 milljörðum, sem RARIK var skikkað til að taka að sér vaxta- og afborganagreiðslur af. Auðvitað var þetta fráleit ákvörðun. Og þá var henni breytt, en með þeim vísdómslega hætti, að iðnrh. hæstv. skrifaði Orkusjóði bréf um að hann skuli greiða af þessum skuldum vexti og afborganir. Sú upphæð nemur í ár 350 mill j. kr. Það var engin tilraun gerð til þess að kanna hvort Orkusjóður hefði fé til að geta greitt þessar 350 millj. kr. í vexti og afborganir af þessari upphæð sem Orkubú Vestfjarða var ekki látið taka að sér. Hvernig var þessi ákvörðun tekin? Hvað er að baki þessa bréfs hæstv. iðnrh. til Orkusjóðs um að ætla honum að greiða í ár upphæð, sem er 350 millj., án þess að nokkur könnun sé gerð á því, hvort hann getur eða getur það ekki? Og á hverju stendur, eftir að allir vita, eftir að guð og menn vita að Orkusjóður getur það ekki? Er það hæstv. iðnrh. einn sem skrifar slíkt bréf án þess að bera það upp í hæstv. ríkisstj.? Þetta er nauðsynlegt að fá að vita. Þing og þjóð á heimtingu á að fá að vita hvernig slík ákvörðun er tekin í hæstv. núv. ríkisstj., hver ber ábyrgð á þessu bréfi. Og það, sem skiptir ekki minnstu máli að fá að vita, er: Var Framsfl. samþykkur þessari ráðstöfun eða var hann ekki spurður? Það skiptir meginmáli varðandi vitneskju um það, hvers konar stjórnarhættir ríki í landinu, að þetta sé upplýst. Ég endurtek: Skrifaði hæstv. iðnrh. þetta bréf á eigin ábyrgð, án samráðs við ríkisstj., eða hafði hann lagt málið fyrir hæstv. ríkisstj., sem ég vona og treysti hans vegna að hann hafi gert, og hver var þá afstaða Framsfl. til þessara ráðstafana?

Ég skal nefna annað dæmi. Eftir að fjárlög og lánsfjáráætlun voru afgreidd ákveður hæstv. iðnrh. að leggja nýjan rafstreng til Vestmannaeyja til þess að auka öryggi þeirra varðandi raforkuöflun og raforkunotkun. Kostnaður við þessa ráðstöfun nemur 250 millj. kr. Ég endurtek og vek athygli á að þessi ákvörðun er tekin eftir að Alþ. hefur gengið frá fjárl. og lánsfjáráætlun. M. ö. o.: Alþ. er sniðgengið. Og hvernig er kostnaðurinn greiddur? Hann er greiddur með því að taka lán, bæði innanlands og erlendis, og skuldabyrðin er auðvitað lögð á Rafmagnsveitur ríkisins, þó að vitað sé að þessi 250 millj. kr. framkvæmd færir Rafmagnsveitum ríkisins ekki eyri í tekjuaukningu. M. ö. o.: án vitundar Alþingis, óbeint má segja, gegn vilja Alþingis er tekin ákvörðun um 250 millj. kr. framkvæmd, stofnað til 250 millj. kr. skuldar og skuldabyrðin lögð á opinbert fyrirtæki sem raunverulega er gjaldþrota, því að sannleikurinn er sá um Rafmagnsveitur ríkisins, að væru þær einkafyrirtæki væru þær fyrir löngu orðnar gjaldþrota. Það var 1200 millj. kr. halli á s. l. ári, og skuldirnar eru komnar upp í tæpa 14 milljarða kr. Á fyrirtæki með slíkan fjárhag er lögð byrði upp á 250 millj. kr. á bak við Alþ. Ekki bara ég, heldur tel ég þingið í heild eiga heimtingu á að fá að vita hvernig slíka ákvörðun ber að? Hver tekur hana í raun og veru? Hver ber ábyrgð á henni? Er það hæstv. iðnrh. einn, sem ég trúi ekki? Er það ríkisstj. í heild? Ber öll ríkisstj. ábyrgð á slíku atferli? Eða hefur verið ágreiningur í hæstv. ríkisstj., og hver er þá slíkur ágreiningur?

Þriðja og síðasta dæmið, sem ég skal nefna, er það, að fyrir tveim árum var þannig komið á Austurlandi, að ásókn í húsahitun með rafmagni var orðin óviðráðanleg, m. a. vegna rangrar verðlagningar. Rafmagn var selt 30% undir því verði sem það kostar að kynda með olíu. Þetta olli auðvitað óviðráðanlegri eftirspurn eftir rafmagni miðað við olíukyndingu. Vatnsaflsvirkjanir á Austurlandi gátu ekki og geta ekki annað þessari þörf, og þess vegna varð að framleiða þetta rafmagn í dísilvélum. Kostnaðurinn við þá rafmagnsframleiðslu í dísilvélum var þrefalt til fjórfalt meiri en neytendur greiddu fyrir rafmagnið. Auðvitað var þetta fjársóun, þetta var olíusóun og orkusóun, sóun á einu mikilvægasta hráefni sem nú er um að ræða og skortur er á um víða veröld, olíunni. Þessa sóun ætlaði RARIK að stöðva. Það ætlaði og tók ákvörðun um stöðvun rafhitunar á Austurlandi. Hæstv. iðnrh. ógilti þá ákvörðun, og ef ég man rétt, þá tilkynnti hann um þá ákvörðun á fundi á Egilsstöðum. Hér ber ég enn fram sömu spurninguna: Var það hæstv. iðnrh. einn sem tók þessa ákvörðun? Tók hann hana upp á eigin spýtur? Tók hann hana kannske bara á staðnum, á fundinum á Egilsstöðum? Þeir, sem þekkja hæstv. iðnrh., trúa því ekki. Hann hlýtur að hafa vitað hvað hann var að segja, ef ég man það rétt, að hann hafi tilkynnt þetta á fundi á Egilsstöðum. Hann hlýtur að hafa haft bakhjarla í hæstv. ríkisstj. En hverjir voru þeir bakhjarlar? Var það ríkisstj. í heild, eða var það hluti ríkisstj. gegn andstöðu einhvers annars hluta í ríkisstj.? Það þarf að upplýsa. Þessi ákvörðun, sem er búin að kosta Rafmagnsveitur ríkisins ómældar fjárhæðir, veldur því auðvitað, að það er rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Lúðvík Jósepssyni í fyrstu ræðu hans, að Austurlínan þarf að hafa á þessu ári algeran forgang. Það þarf að koma byggðalínunni austur til þess að komast hjá þeirri gegndarlausu sóun sem þarna hefur átt sér stað á undanförnum árum og á sér enn stað. Efnið er búið að liggja á höfn á Reyðarfirði í marga mánuði, í langan tíma a. m. k. Peningar fengust í gær, eftir að búið var að þrautræða þessi hneykslismál öll í fjölmiðlum og vikið hefur verið að þeim hér á Alþ. í margar undanfarnar vikur. Og nú er komið að síðasta degi til þess að hægt sé að ljúka þeim framkvæmdum sem nauðsynlegar eru til þess að byggðalínan austur komist í gagnið á þessu ári.

Hér er þriðja dæmið um mjög alvarleg mistök á undanförnum árum í orkumálum. Hvar liggur ábyrgðin á þessum mistökum? Liggur hún hjá hæstv. iðnrh. einum, sem ég segi einu sinni enn að ég trúi ekki, eða liggur hún hjá hæstv. ríkisstj. í heild, sem mér þykir sennilegra. Og þá á það að koma skýrt fram, ef svo er.

Síðustu orð mín um þetta efni skulu vera þau, að Alþ. og alþjóð verður að fá að vita hver í raun og veru ber ábyrgð á öllum þessum hörmulegu og dýru mistökum. Er það hæstv. iðnrh.? Er það hæstv. ríkisstj. í heild? Er ágreiningur milli stjórnarflokkanna? Eða er ágreiningur milli einstakra ráðh. í báðum flokkum? Ég veitti því athygli, að hæstv. forsrh. sagði áðan, að hann hefði ekki orðið var við ágreining í þessum efnum innan ríkisstj. Að sjálfsögðu trúi ég orðum hæstv. forsrh. Ég veitti því hins vegar athygli, að hann tók mjög varlega til orða í þessu sambandi, hann hagaði orðum sínum mjög varlega. Ég vek athygli á því, að sé svo og verði þessi fullyrðing endurtekin skýrt og ótvírætt, þá felur hún í sér að öll ríkisstj. og þar með ráðh. Framsfl. bera ábyrgð m. a. á þessum þremur stórkostlegu mistökum, sem ég hef nú nefnt dæmi um. Þá ber Framsfl. ábyrgð á þeim, þó að hann hafi aldrei sagt hálft orð til að verja þessi mistök, heldur þvert á móti hagað málflutningi sínum öllum þannig, að hér sé um að ræða sök hæstv. iðnrh. eins. Ef hann á sökina, þá á hann að bera ábyrgð á henni. Ef hann á hana ekki, þá eiga þeir, sem að ákvörðununum standa, að hafa kjark og drengskap til þess að játa það og skýra frá því, að þeir hafi í raun og veru staðið að þessum ráðstöfunum og eigi þess vegna að bera sína ábyrgð á þeim. Ég vona sem sagt að það fáist að fullu upplýst, hvernig þær þrjár ákvarðanir, sem ég hef nefnt sérstaklega, hafa verið teknar og hverjir bera í raun og veru ábyrgð á þeim.